17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

331. mál, gróði bankakerfisins

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Sem svar við spurningu síðasta ræðumanns vil ég ítreka það sem ég sagði áðan, að hæstv. sjútvrh. hefur í þó nokkuð mörgum ræðum hér á Alþingi undanfarið lýst skoðunum í þessum málum sem ég er algerlega sammála. Hæstv. sjútvrh. hefur haft forgöngu um það á undanförnum mánuðum og nú síðast á síðustu dögum að taka verulegan hluta af þessu fjármagni frá Seðlabankanum og flytja það yfir til atvinnuveganna. Ég hef stutt hann í því. Ég mun halda áfram að styðja hann í því. Síðan geta menn gefið þessum fjármagnstilfærslum einhvers konar fín gerviheiti sem Seðlabankinn hefur búið til. Þessar reikningsfærslur hjá Seðlabankanum hétu gróði fyrir nokkrum misserum. Svo kaus Seðlabankinn að skipta um bókhaldsheiti á því í sínum reikningum og ýmsir ágætir þm. hafa síðan tekið það upp og gert þær breytingar að sínum skoðunum.

Varðandi fsp. frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni (Forseti hringir.) sem ég ætla að svara, herra forseti, og þakka fyrir umburðarlyndi forseta í þessum efnum, — þá er það rétt, að ég sagði hér á Alþingi hvað eftir annað að það væri ekki rétta leiðin til að framfylgja í senn öruggri atvinnustefnu í landinu og ná árangri í baráttunni gegn verðbólgunni að knýja fram verulega gengisfellingu, eins og báðir stjórnarandstöðuflokkarnir vildu gera, heldur ætti að fara aðrar leiðir í þeim efnum. Þær voru farnar m. a. fyrir forgöngu ríkisstj., og hæstv. viðskrh. skýrði frá því áðan, að þær hefðu nú þegar verið framkvæmdar. Þannig náum við í senn árangri í baráttunni gegn verðbólgunni og höldum stöðugu atvinnulífi í landinu án þess að fylgja þeirri verðþenslu-, verðbólgu- og gengisfellingarstefnu sem stjórnarandstöðuflokkarnir báðir virðast fylgja.