17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

331. mál, gróði bankakerfisins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég tek til máls eingöngu til að ræða örfáum orðum um þann ágreining sem hv. 11. þm. Reykv. er að tala um á milli mín og hæstv. sjútvrh. Ég veit ekki hvaðan hann fær þá hugdettu, að það sé einhver ágreiningur á milli okkar í þessum málum. (Gripið fram í.) Vill ekki hv. þm. gera svo vel og sitja kyrr og hlusta? (ÓRG: Ég var að svara því.) Það er engin ástæða til að vera að gera slíku skóna. Við erum nákvæmlega sammála um tvennt — til þess að gera málið einfalt: Hið fyrra er að nýta ekki gjaldeyrisvarasjóðinn til að greiða rekstrarkostnað atvinnuveganna. Það er númer eitt. Við erum sammála um það. Ef hæstv. sjútvrh. væri hér viðstaddur mundi hann áreiðanlega staðfesta þetta. Í öðru lagi höfum við verið sammála um að Seðlabankinn nýtti af hagnaði þessa og seinasta árs vissar fjárhæðir til að styðja atvinnuvegina. Það eru þessi tvö höfuðatriði sem skipta máli. En það, sem þarna sker úr, er að ekki er verið að taka af ímynduðum hagnaði, eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson talaði um áðan, heldur raunverulegum hagnaði þessa og seinasta árs sem ekki nær til gjaldeyrisvarasjóðsins. Það er málið. Það er enginn ágreiningur á milli mín og sjútvrh. í þessum efnum og það er nauðsynlegt að það komi skýrlega fram.