17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

331. mál, gróði bankakerfisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru fleiri eignir, sem hafa hækkað í verðmæti í íslenskum krónum vegna verðlags- og gengisþróunar, en gjaldeyrisvarasjóðurinn. Ein slík eign, sem hefur hækkað í verðmæti í íslenskum krónum, er hús Þjóðviljans. Mun formaður þingflokks Alþb. leggja til að halli vegna rekstrar Þjóðviljans sé greiddur með þeim gróða sem orðið hefur vegna þess að húseign Þjóðviljans hefur hækkað um 40% í íslenskum krónum milli ára?

Ég vil einnig taka skýrt og eindregið fram, að það er rangt hjá hv. þm. að við Alþfl.- menn hófum krafist gengisbreytingar og því síður meiri gengisbreytingar en hæstv. ríkisstj. gerði. Við gengum út frá því sem gefnu, eins og aðrir landsmenn, að ríkisstj. mundi standa við þá yfirlýsingu sína, sem þessi hv. þm. hefur margoft gefið úr þessum ræðustól, að til gengisfellingar yrði ekki gripið til þess að takast á við vandamál efnahagslífsins. Hv. þm. tók það m. a. fram í þeim umr. sem ég vitnaði til áður, að gengisfellingar væri ekki þörf vegna þess að atvinnuvegirnir á Íslandi stæðu það traustum fótum. Ég reikna með því, að þegar hv. þm. féllst á að grípa til þessa íhaldsúrræðis hafi hann jafnframt skipt um skoðun á styrk íslenskra atvinnuvega.

En fleiri gjaldeyriseignir koma þarna inn í dæmið en gjaldeyriseign Seðlabanka Íslands. Með nýjum lögum var íslenskum almenningi heimilað að eiga og geyma gjaldeyri á sérstökum gjaldeyrisreikningum hjá ríkisbönkunum. Við síðustu gengisbreytingu hækkaði þessi gjaldeyriseign, sem almenningur á á viðskiptareikningi í viðskiptabönkunum, um einhverjar fjárhæðir í íslenskum krónum. Telur formaður þingflokks Alþb. að þarna hafi myndast gróði hjá þeim fjölmörgu mönnum, sem eiga smáfé í erlendum gjaldeyri með þessum hætti á gjaldeyrisreikningum, og hugsar formaður þingflokks Alþb. sér að styðja að því, að þessi gróði verði af fólki tekinn með svipuðum hætti og á að ráðstafa gróða Seðlabankans af uppfærðri gjaldeyriseign bankans?