17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

331. mál, gróði bankakerfisins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Þeir hv. þm., sem hér hafa talað á síðustu mínútum, hafa komið inn á það sem ég vildi mótmæla í orðum hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, að við í stjórnarandstöðunni höfum verið að setja fram kröfur um gengisfellingu. Honum hefur verið bent á að þetta er alrangt og hann fer rangt með. Hins vegar er hann formaður þingflokks sem stendur fyrir ítrekuðum gengisfellingum og um leið kjaraskerðingu hjá þeim sem hann lofaði í sinni kosningabaráttu að berjast fyrir og bæta þeirra kjör. Hann sveik þá og hefur svikið daglega síðan hann komst í þá aðstöðu sem hann er í. Þetta er staðreynd sem þingmaðurinn og allur almenningur eiga auðvitað að vita og finna með hverjum deginum sem líður enn frekar en fram að þessu.

Það hefur verið athyglisvert að hlusta hér á skiptar skoðanir, ekki aðeins þeirra stjórnarliða, heldur og „kommissaranna“, um það, hve misjöfnum augum þeir horfa á ýmsa þætti í fjármálum þjóðarinnar. Satt að segja held ég að hæstv. viðskrh. sé stundum búinn að vera svo lengi frá þeirri ágætu stofnun, sem ég kalla, Framkvæmdastofnun, að hann sé kominn úr „kontakt“ við það líf, sem blasir við okkur hér á Íslandi, að atvinnufyrirtækin eru öll í rúst, eins og hér kom fram. Við þurfum ekki að bera fram sem vitni orð Sverris Hermannssonar eða okkar sjálfstæðismanna þar um. Við berum fram sem eitt vitnið Steingrím Hermannsson sjútvrh. og þau orð sem hann flutti okkur fyrir nokkrum dögum á hv. Alþingi. Hann lýsti því fyrir okkur í mörgum orðum að þeir væru á ferðinni með margar úrlausnir til að bjarga atvinnuvegum þjóðarinnar frá algeru hruni. Þeir fella gengið í kjölfar þess vegna þess að þeir viðurkenna fyrir okkur og þjóðinni allri að þeir hafi verið með blekkingar við okkur þm. og alla þjóðina fram til þessa. — Að vísu kom það líka í ljós, sem sagt hafði verið, að landsfundur Sjálfstfl. var að baki.