17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

331. mál, gróði bankakerfisins

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð að biðja afsökunar á því, að ég kom seint til starfa í dag hér á Alþingi og missti af hluta af þessum umr. um bankamálin og glókollinn, en það vil ég heldur kalla Seðlabankann en hv. 11. þm. Reykv. (ÓRG: Glókollur er sæmdarheiti.) Já, já. Það er Svarthöfði líka.

Ég hjó eftir því, að hv. 3. þm. Austurl. sagði að bankaráð Seðlabankans hefði vissum skyldum að gegna gagnvart Alþingi og þjóðinni í heild að sjálfsögðu. En ég undirstrika að bankaráð Seðlabankans er kosið á nákvæmlega sama hátt og bankaráð annarra ríkisbanka og þeir, sem sitja sem slíkir í bankaráðum ríkisbankanna, hafa nákvæmlega sömu skyldum að gegna gagnvart sinni stofnun, hvort sem það er Útvegsbanki Íslands, af því að hans var minnst áðan, eða Búnaðarbanki Íslands, og þar af leiðandi ber okkur að gegna þeim skyldum á sama hátt í hvaða bankaráði sem við erum.

Lögin um Seðlabanka Íslands eru nú í endurskoðun og sérstök nefnd hefur verið sett á laggirnar. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að hæstv. bankamálaráðh. skipaði þá nefnd. Við verðum að bíða eftir niðurstóðu þeirrar nefndar til að vita hvað er rétt og hvað er rangt í þeirri staðhæfingu, að Seðlabankinn starfi ekki eins og æskilegt væri eða heppilegast fyrir atvinnulífið og þjóðina í heild. (Forseti hringir.)

Ég heyri að tíma mínum er lokið, en ég vil þó aðeins benda á það og stytta mál mitt mjög, að viðskiptabankarnir þola ekki þær reglur sem þeim er gert að starfa eftir eins og er, þær reglur sem settar eru af Seðlabanka Íslands. — Ég hafði hugsað mér að tala miklu lengur, herra forseti, en ég virði þá bjöllu, sem glymur á bak við mig, og mun ljúka máli mínu.