17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

331. mál, gróði bankakerfisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hér kemur hver hv. þm. upp á fætur öðrum og undrast þann málflutning sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur hér uppi. Hafa þessir hv. þm. vanist hér undangengin ár frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni öðruvísi málflutningi en þeim sem hann hefur haldið uppi hér í dag? Það er mér víðs fjarri skapi og kemur úr hörðustu átt að ég fari að vorkenna prófessorum við Háskólann, en ég vorkenni sannarlega þessum hv. þm., sem er prófessor jafnframt, að standa í þeim sporum, sem hann hefur þurft að gera undangengna mánuði og ár, og rísa undir þeim málflutningi sem hann hefur haldið uppi í pólitískum viðræðum og umræðum á undangengnum árum.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur manna harðast haldið því fram, að í landinu væri blómlegt atvinnulíf undir atvinnumálastefnu Alþb., svo blómlegt atvinnulíf að það er rétt eins og hv. þm. hafi ekki komið auga á að hvert fyrirtækið á fætur öðru í undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, fiskvinnslu og útgerð, er nú að fara undir hamarinn, til gjaldþrotaskipta. Á sama tíma kemur þessi hv. þm. með nokkuð reglulegu millibili utanlands frá til þess að færa Íslendingum heim sanninn um þetta, því að oftar er hann á erlendri grund en hér á heimavígstöðvum. Og eðlilegt er að þeir menn tali með þessum hætti sem vita varla nokkurn tíma hvað er að gerast á eigin landi undir forustu Alþb. og atvinnumálastefnu, vegna þess að þeir eru flakkandi víðast hvar annars staðar en þar sem þeir eiga að vera. Þessi hv. þm. hefur líka haldið því fram og þeir Alþb.-menn, að ljósasti punkturinn í efnahagslífi þjóðarinnar í tíð þessarar ríkisstjórnar væri það, að full og næg atvinna væri tryggð. Út af fyrir sig er það rétt. En á hverju byggist það? Það byggist á því sem ég vil kalla að hér sé haldið uppi falskri atvinnu, vegna þess að hér er láglaunasvæði, því að hér hefur kaupgjaldi verið haldið niðri í tíð og undir forustu Alþb. Menn eru að bera saman hvað sé miklu betra atvinnuástand hér en í nágrannalöndum, og það má vera rétt. En það er keypt því dýra verði, að hér er kaupi haldið niðri af stjórnvöldum, og það skiptir líka máli í þessari umr. Ég endurtek: Ég er ekkert hissa á þessum talsmáta hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, eins af fagurgölum Alþb. Ég hef aldrei búist við annars konar málflutningi úr þeim herbúðum.