17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

331. mál, gróði bankakerfisins

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er kannske að bera í bakkafullan lækinn að eiga orðastað við hv. 11. þm. Reykv. En þegar hann bar.af sér sakir sagði hann að ég hefði í blaðaviðtali við Morgunblaðið óskað eftir löngum verkföllum. Ég lýsti því þar að það væri búist við löngum verkföllum. Það var það sama og forráðamenn vinnumarkaðarins höfðu sagt fyrr, þótt til óvæntra samninga hafi komið, sem ég er afskaplega ánægður með að tókst að ná, því auðvitað er ekkert verra en vinnustöðvun. En það eru aðrir sem eru óánægðir með þessa samninga. Það er m. a. menntamannadeildin í Alþb. Ég ætla að skýra það dálítið nánar.

Ástæðan er sú, að um næstu áramót verður að hækka fiskverð. Það má gera ráð fyrir að fiskverð verði að hækka um 18% til þess að sjómenn fáist til að róa. Ef fiskverð hækkar um 18% þýðir það að ef koma á frystingunni á núllpunktinn, sem þessi ríkisstj. segir að sé nafli alheimsins, þá þarf gengisfelling að verða um 17% nema gripið verði til annarra aðgerða. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er einn þeirra sem telja að það sé hægt að gripa til annarra aðgerða. Til hvaða aðgerða ætlar hann að grípa? Hann ætlar að grípa til gullsins í Seðlabankanum. Nú hefur hann samið innan hæstv. ríkisstj. um að nota aðeins gróðann, hinn raunverulega gróða. Og þegar hv. þm. sér að sá gróði er ekki til, og hann hefur verið blekktur, þá lætur hann eins og hann hefur látið hér í dag, alveg eins og naut í flagi. Þetta er ástæðan fyrir því að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur orðið sér og sínum flokki til stórskammar í þessum umr. hér í dag. Og nú kennir hann hæstv. ráðh. Tómasi Árnasyni um og öllum í stjórnarandstöðunni. Það sé hún sem stjórni gengisfellingunum. En sjálfur situr hann í súpunni, ekki varinn af einum einasta þm. eigin flokks.