17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

331. mál, gróði bankakerfisins

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Á sama tíma og við í persónum þeirra hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og Tómasar Árnasonar erum að hlýða á ágreining um stefnu stjórnarinnar, sem hinir þm. vita þó að engin er, við erum að horfa á feigðarteygjur núv. hæstv. ríkisstj., þá er rétt að rifja upp að um síðustu áramót var kaup skert um 7% og því lýst yfir að gengið yrði ekki hreyft. Á þessu ári er búið að fella gengið þrívegis, nú síðast um 6,5%. Vitað er að það er mikil ólga út af fiskverði. Það kemur væntanlega til með að hækka allverulega nú um áramótin og í engan annan sjóð að fara en að níðast enn á gengi hinnar íslensku krónu. Eðlilega er um það spurt, hvort sé að marka hæstv. viðskrh. eða hæstv. sjútvrh. sem láta uppi sína skoðunina hvor.

En við skulum aðeins ganga nokkur skref aftur á bak. Í síðustu kosningum lýsti Framsfl. stefnu sinni sem svokallaðri niðurtalningu á verðbólgunni. Og ég óska enn fremur, til viðbótar spurningu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, eftir yfirlýsingu um það frá hæstv. viðskrh. og það ærlegri yfirlýsingu, hvort þessi stefna sé ekki endanlega dauð. Það, sem verið er að biðja um, er aðeins ærleg viðurkenning á því, að þetta var eitthvert óheiðarlegasta kosningaprógramm sennilega um langa hríð. Niðurtalningin hefur verið samansúrraður pólitískur óheiðarleiki, eins og þessar umr. hér bera glöggan og ljósan vott.