17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

331. mál, gróði bankakerfisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins bæta einni spurningu við spurningu hv. síðasta ræðumanns: Hver verða verðbólguáhrifin af gengisbreytingu sem nemur 6.5% eins og síðasta gengisbreytingin sem gerð var? Er rétt að verðbólguáhrifin af gengisbreytingunni nemi jafnmörgum prósentum og gengisbreytingin nemur, þannig að við gengisbreytinguna eina hafi verðbólgan verið talin upp um 6.5%?

Þá leyfi ég mér að vitna til þess, að áðan átti formaður Alþb. frumkvæðið að því, að nýgerðir kjarasamningar drógust inn í þessar umr. Þrátt fyrir þá er kaupmáttur tímakaups verkafólks enn þá mun lægri en hann var í júnímánuði 1978 þegar ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar var felld. Ég veit ekki um vonbrigði menntamannadeildar Alþb. með þá niðurstöðu. Mig skiptir engu máli hvaða skoðun hún hefur á því. En ég býst við að verkafólk á Íslandi sé ekkert ánægt með að samningarnir nú skuli ekki einu sinni ná að færa því sama kaupmátt og það naut þegar ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar var felld.

Það er ekki rétt að það sé hlutverk Alþb. í þessari ríkisstj. að sætta verkafólk við þær staðreyndir, að kaupgjald þess hefur verið lækkað svo verulega. Alþb. getur ekki sætt verkafólk við þær staðreyndir. Það er hins vegar hlutverk Alþb. í þessari ríkisstj. að beita flokksaga sínum gegn flokksbundnum Alþb.-mönnum sem jafnframt fara með forustustörf í verkalýðshreyfingunni, til þess að koma í veg fyrir að verkalýðshreyfingin beiti samtakamætti sínum til að verja láglaunafólkið gegn slíkum kaupskerðingum.