17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

331. mál, gróði bankakerfisins

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Mér þykir þær umr., sem hér fara fram um gengisskráningu og gengismál, nokkuð furðulegar, það verð ég að segja. Ég hélt satt að segja að öllum alþm. væri það I jóst, að meðan verðbólga á Íslandi er 40%, en verðbólga í helstu viðskiptalöndum ekki nema 10–15, þá fellur gengi íslensku krónunnar stöðugt hverjir sem eru í stjórn á Íslandi. Við því verður ekki hamlað. Einhver munur getur komið fram með framleiðniaukningu, en hann vegur þetta aldrei upp. Það getur ekki verið að það komi nokkrum þm. hér á óvart að gengi íslensku krónunnar falli meðan verðbólgumunur er þetta mikill milli okkar lands og helstu viðskiptalanda. (VG: Sögðuð þið þá ósatt um síðustu áramót?) Það var alls ekki sagt ósatt um síðustu áramót og nú skal ég koma að því, hv. þm. Vilmundur Gylfason. Það, sem gert var og er verið að gera núna, er tilraun til að hverfa frá gengissigsstefnunni sem fjölmargir hagfræðingar voru orðnir sammála um að beinlínis hvetti eða efldi verðbólguna, yki á verðbólguhugsunarháttinn. (Gripið fram í.) Nei, nei, það er ofhól, Sverrir Hermannsson, vegna þess að það voru fjölmargir hagfræðingar sem á sínum tíma voru þeirrar skoðunar að rétt væri að láta gengið síga reglulega. En nú er svo komið að í svo mikilli verðbólgu sem hér hefur verið hafa menn fengið reynsluna af því, að stöðugt gengissig getur aukið á verðbólguhugsunarháttinn. Þess vegna var gerð tilraun með það eftir miklar vangaveltur að halda genginu stöðugu ákveðinn tíma til að reyna að „Stabilisera“ þetta frekar, en auðvitað kemur síðan gengisfelling með einhverju millibili. Ég trúi því ekki, að menn geri sér ekki grein fyrir þessu. Auðvitað vissum við það og við sögðum það alltaf. Það var talað um að reyna að halda genginu föstu ákveðinn tíma. Mér kemur á óvart undrunarsvipurinn á þm. hér, ég skil ekki hvað þeir eru að fara.

Og aðeins örstutt um atvinnuvegina og bankana. Grundvöllur atvinnulífsins er hverju sinni afar viðkvæmur og það fer eftir mjög flóknum reglum hvernig þau mál skipast. Á Norðurlöndum hefur farið fram mikil umræða um það að undanförnu, að fé hefur færst frá atvinnuvegunum yfir í sjóði og banka. Það er ákaflega eðlilegt við þær aðstæður sem hér eru, að þessi mál hafi komið til athugunar. Þau eru viðkvæm, ég viðurkenni það, en það er fyllilega eðlilegt, að þau komi til athugunar í þessu samhengi.