17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

331. mál, gróði bankakerfisins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Mér hefur verið tjáð að hv. 11. þm. Reykv. hafi vitnað í mig og hv. þm. Eyjólf Konráð og sagt að við höfum krafist gengisfellingar í Ed. Þetta kemur mér ekki á óvart og ekki heldur það, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur svona mikið álit á okkur Eyjólfi Konráð, að við ráðum þessu, að við getum ráðið því í Ed., hvernig gengi krónunnar er skráð. En hv. þm. vita að undanfarið hafa jafnvel ráðherrar verið að fara á bak við sjálfa sig í þessum efnum með því að skýla sér á bak við Seðlabankann og segja að Seðlabankinn einn gæti tekið ákvörðun um gengisskráningu, það kæmi þeim ekki við hvernig gengisskráningu væri háttað á Íslandi.

Ég ætlaði aðeins að segja það í sambandi við fyrrgreind ummæli, hér er náttúrlega um þvætting að ræða. Að sjálfsögðu höfum við ekki krafist gengisfellingar, enda er ekki eðlilegt að við séum að því. Við höfum hins vegar gagnrýnt mjög atvinnustefnu hæstv. ríkisstj. og bent á að hún hafi valdið því, að gengið væri fallandi og að gengið væri rangt skráð. Það er allt annað en að krefjast gengisfellingar.

Það kom glöggt fram í ræðu hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar, að hann lítur þannig á, eins og við Eyjólfur Konráð Jónsson, að það sé útilokað að stjórna þannig efnahagsmálum, þegar innlend verðbólga er 40%, að ekki verði um að ræða að gengið falli. Að síðustu fannst mér á hinn bóginn að hjá honum kæmi fram að það væri vont að láta gengið síga. Nú hefur hæstv. ríkisstj. tekið upp þetta „patent“ Ólafs Jóhannessonar, hæstv. ráðh., frá fyrri tíð, að hengja gengi íslensku krónunnar aftan í dollarann, vegna þess að búist er við að gengi dollarans sígi á næstunni. Hún hefur tekið upp þetta óheillaráð. Kannske fer hún að láta gengið síga í einu stökki eins og hæstv. viðskrh. lýsti gengissigi hér á dögunum.