17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

331. mál, gróði bankakerfisins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég skal nú vera stuttorður og reyna að gefa ekki mikið tilefni til svara.

Varðandi málflutning þeirra hv. þm. Vilmundar Gylfasonar og Sighvats Björgvinssonar um Framsfl. og stefnu hans og yfirlýsingar skal ég ekki efna til umr. hér. Ég er reiðubúinn til að hefja umr. við hv. þm. Vilmund Gylfason hvenær sem er og hvar sem er um heiðarleika manna í stjórnmálum og heiðarleika flokka í stjórnmálum, en ég mun ekki efna til þess hér sérstaklega. (Gripið fram í: Er niðurtalningin lifandi eða dauð?) Niðurtalningin er lifandi. Ég gerði grein fyrir því í minni ræðu um daginn við 1. umr. fjárlaganna, hvaða úrræða við í Framsfl. vildum grípa til í þeim vanda sem nú er við að etja. Vil ég ráðleggja hv. þm. að lesa þá ræðu. Ég held að hann hefði gott af því. (Gripið fram í: Hvað segir Ólafur Ragnar um þetta?) Það er enginn ágreiningur milli mín og sjútvrh. um það meginatriði, að það eigi ekki og það sé ekki ráð að nota gjaldeyrisvarasjóðinn til þess að greiða niður kostnað við rekstur útflutningsatvinnuveganna. Skal ég ekki hafa fleiri orð um það. Hv. þm. Kjartan Jóhannsson vék aðeins að þessu. Við ræddum sérstaklega um þetta fyrir nokkrum dögum ásamt fleiru, ég og sjútvrh., og við erum 100% sammála um þetta meginatriði. Það eru alveg hreinar línur með það og ég vil staðfesta þetta hér á hv. Alþingi.

Hv. þm. Friðrik Sophusson hefur ekki tekið vel eftir mínu fyrsta svari, heyrði ég, því að hann sagði að það væri enginn hagnaður hjá Seðlabankanum. Ég skýrði frá því, að hagnaður Seðlabankans á síðasta ári hefði verið 4.2 milljarðar gkr. og það mundi verða verulegur hagnaður á þessu ári. En ég játa það, að sennilega er búið að ráðstafa þessum hagnaði. Ég játa það og gerði raunar grein fyrir því í mínu fyrsta svari. Það er rétt hjá hv. þm. Finni Torfa Stefánssyni, að þetta leiðir til meira peningamagns í umferð. En þess ber þá að geta, að á s. l. vetri eða s. l. vori var það sett í lög hér á Alþingi að auka bindiskyldu Seðlabankans. Honum er heimilt að hækka bindiskyldu úr 20% upp í 33%, eða um 5%, og þetta hefur verið gert í talsvert ríkum mæli á þessu sumri til að reyna að draga úr peningamagni í umferð. En mér er vel ljóst að það hefur verið gengið nokkuð nærri viðskiptabönkunum og e. t. v. atvinnuvegunum í því efni, enda er þetta ákvæði í lögunum þannig, að það er talað um sveigjanlega bindiskyldu. Það er verið að ræða núna um það, hvort draga eigi úr henni um sinn.

Ég vil ekkert draga úr því sem hæstv. sjútvrh. hefur sagt um erfiðleika í sjávarútvegi. Þeir eru miklir og þar eru margvísleg vandamál sem m. a. stafa af því, að atvinnuvegirnir hafa átt í erfiðleikum með að aðlaga sig nýrri stefnu verðbóta á útlánum bankanna.

Það voru ýmis fleiri atriði sem komu fram, en ég skal ekki lengja þessa umr. sem er orðin býsna löng. En hún er kannske ekki alveg sanngjörn að því leyti til, að menn hafa rætt hér almennt um efnahagsmálin, um atvinnumálin, um bankamálin. Þetta eru svo stór mál, að það er ekki hægt að ætlast til að menn geri þeim nein skil á 2–3 mínútum. Það er þess vegna ekki sanngjarnt að ræða þessi mál þegar hálft þingliðið liggur hér dautt í sætum sínum undir umr.