17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

48. mál, umfjöllun þingnefnda varðandi reglugerðir

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessa till. á þessu stigi. Till. og sú hugsun, sem að baki henni býr, er skyld hugsun sem oft bryddaði á hér á Alþingi s. l. vetur við umr. sem urðu nokkrum sinnum í sambandi við þingsköp og um starfshætti Alþingis.

Ég held að engum blandist hugur um það, að sú þróun hefur verið að gerast smátt og smátt, án þess kannske að menn áttuðu sig raunverulega á hvar þáttaskilin væru, að framkvæmdavaldið hefur verið að taka æ meira vald frá löggjafarvaldinu þannig að það hallast orðið verulega á að því er snertir völd þessara tveggja þátta ríkisvaldsins. Þetta á sér margar orsakir, en auðvitað er það rétt sem hér kom fram áðan hjá hv. þm. Finni Torfa Stefánssyni, ekki er við aðra að sakast í þessu efni en Alþingi sjálft sem hefur látið það viðgangast að valdið væri smám saman dregið úr höndum þess og sett í hendur annarra aðila í þjófélaginu. Sá þáttur, sem gerður er að umtalsefni í þessari till. til þál. um reglugerðir, er að sjálfsögðu ekki nema brot af þessu vandamáli. En auðvitað er ekki við aðra að sakast en alþm. eða hv. Alþingi þegar það liggur fyrir að farið er að skipa æ fleiri þáttum þjóðfélagsmála með reglugerðum. Það er ekki gert nema Alþingi sjálft hafi heimilað það. Við sjáum það í æ fleiri stórum lagabálkum, sem hér eru lagðir fram á hv. Alþingi, að alþm. samþykkja að mikilvægum þáttum viðkomandi mála skuli skipað með reglugerð. Þetta á sér stað á mörgum mjög mikilvægum sviðum þjóðfélagsins.

Við höfum reynt það, og það var yfir því kvartað og er nánast lenska hér þegar líður að þinglokum eða þegar líður að þingfrestun um jólaleyti, að hér er hespað í gegn hverju stórmálinu á eftir öðru án þess að þm. hafi í raun nokkra aðstöðu til að kynna sér þau til hlítar. Niðurstaðan verður sú, að oft fer hér í gegn lagasetning sem er óvönduð. Menn bjarga sér þá fyrir horn með því að kveða á um að mikilvægum þáttum málanna skuli skipað með reglugerð.

Stofnun, sem lætur það viðgangast ár eftir ár að senda sjálfa sig heim mánuðum saman, bæði á miðjum vetri og að vori, á raunverulega ekki annað skilið en að þessi þróun eigi sér stað. Starfstími alþm. yfir árið er of stuttur miðað við þá aðstöðu í launum og öðru sem þm. er nú búin. Ég held að margt færi betur ef þm. gæfu sér betri tíma og skipulegðu vinnubrögð sin betur en raun ber vitni um. Nú er t. d. liðinn rúmur mánuður af starfi þessa þings og ekki nema mánuður rúmur þar til jólaleyfi hefjast. Vafalaust er ætlast til þess, að fyrir jólaleyfi verði afgreidd mörg mikilvæg mál. En það var raunverulega ekki fyrr en í gærkvöld sem nefndum hv. Nd. voru fengin verkefni. Það voru örfá frv. sem höfðu fram að því komist til nefnda í Nd. Það var ekki fyrr en verulega var sópað til hér í gærkvöld að frv. var vísað til nefnda í stórum stíl. Nefndirnar hafa setið meira og minna aðgerðalausar þennan mánuð, og auðvitað segir það til sín í efni þeirrar löggjafar sem að lokum verður niðurstaðan þegar þannig er á málum haldið.

Þetta er að sjálfsögðu mjög margþætt mál, og eins og ég sagði áðan drepur þessi þáltill. aðeins á einn lítinn þátt málsins. Ég hef drepið hér á nokkra aðra þætti, m. a. setutíma Alþingis, sem þá um leið veitir ríkisstj. óskoraða heimild til að setja brbl. Ríkisstj. á hverjum tíma hefur þá heimild marga mánuði hvers árs að setja brbl. og notar sér það óspart, sendir jafnvel Alþingi heim til þess að geta sett brbl. óáreitt af þm., eins og mörg dæmi eru um í gegnum árin. Alþingi verður auðvitað sjálft að taka sig á í þessu efni. Það er ekki við neina aðra að sakast en alþm. Auðvitað eru ýmsir aðilar úti í þjóðfélaginu sem gjarnan vilja ná því valdi til sín sem Alþingi hefur, og við því er ekkert að segja. En Alþingi sjálft verður að sjálfsögðu að vera á verði um völd sín og áhrif í þessu efni. Það er alveg víst, að aðrir gera það ekki fyrir þessa virðulegu stofnun.