17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

48. mál, umfjöllun þingnefnda varðandi reglugerðir

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég er nú einn úr hópi þeirra þm. Alþb. sem tóku þessu þingmáli hv. þm. Helga Seljans mjög glaðlega. Ég fæ ekki séð hvaða aðili það gæti verið annar en þingnefnd, sem um mál hefur fjallað, sem bær væri að leggja dóm á það, ekki úrslitadóm, heldur kveða upp úr um það, hvort reglugerð samrýmist lögum eða sé í anda laga. Nokkuð mikið væri fyrir sett þingnefndum Alþingis ef þær ættu, eins og segir í frv. því sem hv. þm. Vilmundur Gylfason drap á áðan, að fylgjast með framkvæmd laga yfirleitt. Það væri nokkuð mikið fyrir sett. En ég fæ ekki séð hvaða aðill annar en þingnefnd, sem um lagafrv. hefði fjallað, væri bærari að segja til um hvort reglugerð sé í samræmi við lög eða samrýmist anda laga. Vel má vera að tilgáta hv. þm. Vilmundar Gylfasonar sé rétt, að ein reglugerð af hverjum tíu brjóti á einhvern hátt í bága við lög eða anda laga. (Gripið fram í: Nei, orki tvímælis var sagt.) Eða orki tvímælis. Það má vel vera. Ég veit ekki með hvaða hætti eða með hvers konar prósentureikningi hann hefur komist að þessari niðurstóðu, en það skiptir ekki máli. Ég ætla mér ekki að snúa út úr máli hans að þessu leyti. Sú tilgáta er eins góð og hver önnur. En einmitt í þessu eina tilfelli af hverjum tíu kann að vera um að ræða ákaflega mikilsverð lög. Dæmi vitum við um það, að embættismenn, sem unnið hafa að setningu reglugerða, hafa leyst vanda. Oft og tíðum er þarna um að ræða vandasöm lög í framkvæmd, sem jafnvel orka að þeirra dómi svo tvímælis að ýmsu leyti að þeir hafa sneitt fram hjá meginatriðum í lögum og fram hjá anda laga við setningu reglugerða um framkvæmd þeirra.

Mér kemur það í hug sem Gunnar heitinn Gunnarsson rithöfundur sagði forðum í útvarpserindi um „þessa blessuðu þjóð“, eins og hann kallaði Íslendinga, „sem er svo vanþroska lýðræðislega að hún kann ekki að gera greinarmun á ráðherrabréfum og lögum“. Reglugerðir hafa verið gefnar út sem brjóta í bága við anda laga, a. m. k. í vitund fólksins. Svo er það þetta með umhyggju einstakra hv. þm. fyrir sæmd Alþingis, þessu óskilgreinda fyrirbæri sem menn nefna stundum sæmd Alþingis. Ég vil ekki berja hv. þm. Vilmund Gylfason orðum um það atriði hér úr ræðustól, en það hvarflar stundum að mér, þegar hann ræðir um sæmd Alþingis, þegar hann lýsir yfir áhyggjum sínum úr ræðustól yfir því, með hvaða hætti verið er aðdraga vald úrhöndum Alþingis, þegar hann blöskrast yfir óljósum skilningi alþm. sjálfra á eðli löggjafarstofnunarinnar og starfsháttum hennar, þá hvarflar stundum að mér sú spurning, hversu ljós vitund hv. þm. sjálfs, fyrrv. dómsmrh., hafi verið á þessu sviði þegar hann bar hér fram till. um að lagafrv., 120 greinar samtals, yrði borið undir þjóðaratkvæði. (Gripið fram í: 59.) Voru þær ekki nema 59? (Gripið fram í: Nei.) Var það hið fyrra frv.? En svo mikið er víst, að einmitt í þessu frv. var gert ráð fyrir að frv. hlyti lagagildi nokkrum dögum eftir að það kæmi til framkvæmda.

Ég hygg að umr. af því tagi, sem hér hafa farið fram, um vald Alþingis og ábyrgðina sem lagasetningu fylgir, séu af hinu góða. Hvernig sem ég brýt um þetta heilann fæ ég ekki séð að Alþingi gæti með öðrum hagkvæmari hætti séð til þess, að reglugerðir brjóti ekki í bága við megintilgang og anda laga, en þeim að þingnefndum sem um lagasetninguna fjölluðu, verði falið að hafa eftirlit með setningu reglugerðanna.

Ég varð var við það hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, að hann hugleiðir starf þm. og svokölluð þingfrí nokkuð út frá sjónarmiði þm. Reykjavíkursvæðisins, þar sem hann ætlar að þm. almennt séu í fríi frá störfum í 3–4 mánuði á ári þegar þing situr ekki. Því fer víðs fjarri um þá þm. sem rækja kjördæmin úti á landi. En sá misskilningur breytir alls ekki þeirri staðreynd að minni vitund, að æskilegt væri að þingnefndir störfuðu að einhverju leyti í þinghléum og þeim væri ætlaður lengri tími til starfa.

Ég er efalaus um það, að alþm. þurfi á því að halda vel flestir — nema þá kannske þeir allra duglegustu, fróðustu og gáfuðustu — að geta átt aðgang að sérfræðilegri aðstoð, ekki síst lögfræðilegri aðstoð, og að miklu betur má sjá þessari stofnun fyrir slíkri aðstoð en nú er gert. Ég er efalaus um það. Þó ég geti tekið undir með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur í gagnrýni hennar á undirbúning þingmála og á vinnubrögð við samningu þingskjala, eins og þau koma fyrir hér inni h já okkur, þá hygg ég að færa megi að því rök, að ekki stafi stórtjón af því, þó að hingað komi inn í þingsalina ýmis skrýtin þingskjöl, og það eigi ekki að vera ofverk Alþingis að „sortera“ þau úr og lagfæra þau. En hitt er ákaflega slæmt að einstakir alþm. skuli ekki eiga greiðan aðgang að sérfræðilegri aðstoð í sambandi við störf sín hér. Ég er heldur uggandi um það, þó að sett yrði á fót sérstök stofnun skipuð embættismönnum til þess að fara yfir reglugerðir af hálfu Alþingis, til þess að hugleiða með hvaða hætti þær falla að lögum, að það yrði ekki fullnægjandi lausn fyrir Alþingi. Ég held að alþm. sjálfir verði með störfum sínum í nefndum að takast þessa ábyrgð á herðar, hugleiða hvort reglugerðirnar samrýmist lögunum, og eiga síðan frumkvæði að því að fá þeim breytt, ef þeim þykir þar eitthvað á vanta.

Við skulum ekki taka nema í hófi upp í okkur í gagnrýni okkar á embættismenn stjórnkerfisins, þó að þeir vilji nokkuð láta til sín taka, m. a. í sambandi við samningu reglugerða. Það er heldur manngildisvottur að þeir myndi sér skoðun á slíkum málum og reyni að framfylgja skoðun sinni. En valdið, hið endanlega vald á að liggja hjá Alþingi, og mér finnst eins og hv. flm. að nefndir Alþingis séu réttu aðilarnir til að fjalla um þessi mél.