17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

48. mál, umfjöllun þingnefnda varðandi reglugerðir

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Þetta skulu aðeins vera fá orð. — Ég fagna þeim umr. sem hér hafa orðið um þetta mál. Það er vissulega svo að það kemur margt fleira upp í huga þm. þegar um þetta tiltölulega afmarkaða mál er fjallað og bent á það mjög ljóslega, að Alþingi mætti gjarnan taka upp betri og skipulegri vinnubrögð í heild. Vissulega er það rétt. T. d. er það verkefni stjórnvalda m. a., sem vilja oft vera seint á ferðinni með hin veigamestu lagafrv. þannig að menn hafa allt of lítinn tíma til að skoða þau. Það er m. a. ástæðan fyrir því, að ákvæði um reglugerðarsetningu eru sífellt algengari í lögum. Vissulega er það Alþingi að kenna, ég skal fúslega taka undir það. Og það er auðvitað rétt hjá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, að það er Alþingis sjálfs að sækja það vald sem það hefur afsalað sér í æ ríkara mæli til framkvæmdavaldsins, og þetta er smávegis í þá átt. Hv. þm. vill ganga miklu lengra. Hann hefur gert það með frv. sem kom fram hér í þinginu nokkrum dögum eftir að þessi till. var lögð fram og hefur reyndar komið fram áður í máli hans hér á Alþingi svipaðs eðlis. (StJ: Og í frv. áður.) Og í frv., já, um eins konar rannsóknaraðstöðu þingnefnda. Ég verð að segja það, að mér fannst, þegar ég fór með þetta inn í minn þingflokk, eins og hefur reyndar komið fram hér, alveg nógu erfitt að ná fram þessu afmarkaða viðfangsefni þingnefnda til viðbótar, að þær fjölluðu um veigamestu reglugerðir. Ég hygg að það sé þannig í öðrum þingflokkum einnig, að menn veigri sér kannske við því að færa þetta verkefni eins mikið út og gert er í frv. þeirra hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, Sighvats Björgvinssonar og Árna Gunnarssonar, þó að ég geti út af fyrir sig tekið undir það. Ég er á þeirri skoðun, að það megi býsna mikið útfæra valdsvið og verkefni þingnefnda. En ég er ekki viss um að það njóti meirihlutafylgis hér á Alþingi. Ég er alls ekki viss um það og hef ekki reynslu af því t. d. í mínum þingflokki, að það sé alveg sjálfgefið að það fari hér í gegn.

Það má segja að það sé einfalt mál að flytja þetta í frv.-formi, breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Það hefði eflaust verið hægt. Málið er hins vegar orðið mjög flókið í heild vegna þess, hvernig þessi mál hafa þróast á undanförnum árum. Það er rétt, að lögbinding er Alþingis. Ég verð hreinlega að viðurkenna að vafalaust er ég orðinn svona háður þessu, ég hef sett það inn af einhverjum kerfisbundnum vana, eins og hv. þm. benti á áðan, að ríkisstj. skyldi lögbinda þetta. Í mínum huga var vitanlega að ríkisstj. skyldi beita sér fyrir því að fá þetta lögbundið með einhverjum þeim hætti sem hægt væri að ná víðtæku samkomulagi um, en lögbindingin er vitanlega Alþingis. Ég held hins vegar að málin hafi þróast svo langt frá okkur í raun, að það þurfi að ná um þetta mjög víðtæku samkomulagi við ríkisstj. Ég er ekki viss um að ríkisstjórnir á hverjum tíma, hverjar sem þær eru, séu mjög fúsar að afsala sér þessu aftur, það þurfi að reyna að ná sem víðtækustu samkomulagi um það. Vitanlega má segja að það sé Alþingis að kippa því burt frá þeim. Ég vil ekki heldur afdráttarlaust segja að embættismennirnir hafi misfarið með þetta vald þó að um það megi finna dæmi. Ég vil einnig ná samkomulagi við þá um sem besta meðferð þessara mála.

Spurningin um að ganga lengra í þessu efni varðandi þingnefndir kallar auðvitað aftur á enn meira starf þingnefndanna en hér er ráð fyrir gert. Þá komum við að því atriði sem mér fannst vera eina verulega mótbáran við þessari till. sem ég gat tekið mark á, bæði í mínum þingflokki og annars staðar þar sem ég hef heyrt um þetta mál. Það er varðandi þann tíma sem þm. verða óhjákvæmilega að eiga í sínu kjördæmi ef þeir eiga að vera í nokkru sambandi við kjósendur sína þar. Ég óttast að í frv. á þskj. 77 sé hins vegar gengið svo langt að þar verðum við að fara að vara okkur nokkuð gagnvart þeim mönnum sem hafa miklum skyldum að gegna í sínu kjördæmi og þurfa að eyða í það verulegum tíma. En ég skal vera tilbúin að ræða við hv. þm. og þá aðra sem vilja í raun og veru auka starf þingnefnda, auka eftirlit þeirra, — ég skal vera tilbúinn til viðræðu við þá um allar hugsanlegar leiðir til að nálgast það meginmarkmið sem mér heyrist að allir eða allflestir séu sammála um.