17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

88. mál, kalrannsóknir

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er bara vegna þess, að mér þykir það vera óþörf viðkvæmni hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni að stökkva upp á nef sér út af því sem ég sagði um þessa till., að ég tek aftur til máls. Ég þóttist taka vel undir þessa till. og þarf ekki að endurtaka það. Ég hældi grg. alveg upp í hástert og dáðist að flm. fyrir þekkingu og vandvirkni. Ég gerði þetta í góðri meiningu, og ég verð satt að segja að viðurkenna það, að ég varð pínulítið hissa. En skýringin er fengin og ég tek hana góða og gilda, að Bjarni E. Guðleifsson hefði aðstoðað hann við grg. Það er ekkert nema gott um það að segja.

Ég vil út af ummælum hv. þm. Steinþórs Gestssonar segja það, að ég tel að það sé miklu réttara að hafa miðstöð kalrannsókna á þeim svæðum þar sem oft kelur, þ. e. þar sem árvisst kelur einhvers staðar í nágrenninu, og þessi miðstóð er mjög vel sett á Möðruvöllum, því að á Norðurlandi er oftast nær einhvers staðar, því miður, um kal að ræða á hverju einasta sumri. Það er miklu oftar sem kelur fyrir norðan heldur en fyrir sunnan, þó að nú í sumar hafi viljað svo til, eins og kom fram í ræðu hv. þm., að hann hafi séð mikið kal á Suðurlandi.

Ég get ekki neitað því, að ég hefði talið það styrk og prýði ef framsóknarmenn hefðu verið flm. að þessari till. Ég þakka hv. flm. fyrir að bjóða einum slíkum að skrifa á hana með sér. Ég harma það hins vegar að hann hefur ekki talið sig geta orðið við því. En við skulum ekki alveg gefa upp vonina um að honum takist að vinna málinu brautargengi eftir öðrum leiðum.

Að endingu um það, að ég sé vondur við Alþfl.-menn þegar þeir eru að flytja mál hér í þinginu, sé meinyrtur við þá. Ég vísa því alfarið á bug. Ég gæti, ef ég vandaði mig og rifjaði upp málaskrá undanfarinna þinga, fundið fjölmörg dæmi um það, að ég hef tekið mjög undir málflutning úr herbúðum Alþfl. Ég man eftir mörgum málum t. d. sem Benediki Gröndal hefur flutt og ég hef verið mjög fylgjandi og látið það í ljós.

Hitt er svo annað mál, að ég get ekki þrætt fyrir það, að mér þykir misjafn sauður í mörgu fé, og það veit hv. flm. manna best sjálfur, að það er ekki hægt að heimta af mér að ég taki mjög elskulega undir öll þau mál sem þeim hefur dottið í hug að flytja, Alþfl.-mönnum.