17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

65. mál, starfsmat fyrir ríkisstarfsmenn og starfsfólk ríkisbankanna

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Það er hv. þm. Haraldur Ólafsson, sem bjargar því, að ég þakka ekki hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem eina þm. í salnum fyrir undirtektir undir þessa þáltill. mína, og ég tek nú undir það sem hv. þm. sagði, að það er dæmigert, að þegar þessi mál eru rædd, þá vill svo til að það er nær aldrei nokkur manneskja til þess að hlusta á þær umr. En ég vil þakka þeim eina þm., sem undir þetta hefur tekið, og harma næstum því að það skuli vera ein af þremur konum, sem sitja hér í sölum, en það er sannarlega betra en ekki. Við munum alla vega þvinga þá ágætu félaga okkar, sem sitja þó með okkur í nefndum og eru af karlkyni og m. a. í þeirri nefnd sem um þetta mál fjallar, til að halda til í stólunum á meðan umr. um málið fer fram. En ég þakka sem sagt enn og aftur góðar undirtektir undir málið þó að ég hefði kosið fleiri raddir þar um.