18.11.1981
Efri deild: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

68. mál, flugmálaáætlun

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er flutt, gerir ráð fyrir að gerðar séu flugmálaáætlanir. Með því yrði flugmálum skipað á sama bekk og óðrum samgönguþáttum. Þær yrðu hliðstæðar vegáætlunum og hafnaáætlunum. Flugmálaáætlun ætti að vera grundvöllur skipulegs átaks í flugmálum þjóðarinnar og ætti að stuðla að framsýni í ákvarðanatöku og skynsamlegri forgangsröðun framkvæmda. Á sama hátt mætti vænta þess, að flugmálaáætlun skapaði aukna festu í stefnumótun í flugmálum.

Það frv. til l. um flugmálaáætlun, sem hér er flutt, var í fyrsta sinn flutt af Finni Torfa Stefánssyni á 101. löggjafarþingi, en var síðan endurflutt á 103. löggjafarþingi af mér.

Það er skemmst frá að segja, að nauðsynlegt er að fyrir hendi sé samræmd stefna í samgöngumálum þannig að menn geri það upp við sig hvers konar samgöngukerfi .eigi að vera í landinu. Hingað til hafa áætlanir verið gerðar að því er varðar hafnir og vegi, en flugmálaáætlanir hafa hins vegar ekki verið til. Ég held að sé fyllilega óhætt að segja að stefnan í flugmálum hafi verið mjög losaraleg.

Flug er vitaskuld veigamikill þáttur samgöngukerfisins, og er vissulega ástæða til þess að gerðar séu áætlanir um þróun flugsamgangna með sama hætti og gert er varðandi þróun vegamáta og hafnamála. Það eykur enn á þörfina í þessum efnum að flugmál mega heita vera í verulegum ólestri hjá okkur hér á Íslandi. Margir þeir flugvellir, sem notaðir eru til reglulegs flugs, eru vanbúnir í veigamiklum atriðum, bæði að því er varðar aðbúnað fyrir farþega, lendingarbrautir og ekki síst að því er varðar öryggiskerfi af ýmsu tagi. Mér hafa sagt menn, sem kunnugir eru í þeim efnum, að svo vanþróaða flugvelli með svo mikilli umferð sé hvergi að finna í grennd við okkur og það sem helst líkist því, sem hér er boðið í þessum efnum víðs vegar um landið, sé það sem sé í nyrstu byggðum Kanada. Við höfum þannig tæknilega séð dregist aftur úr grannlöndum okkar á undanförnum árum að því er varðar skipan þessara mála.

Það hlýtur í fyrsta lagi að vera eðlilegt og sjálfsagt að menn geri sér grein fyrir því, hver sé eðlileg verkaskipting milli hinna ýmsu samgönguþátta, hvert sé hlutverk vegakerfisins, hvaða samgöngum eigi fyrst og fremst að halda uppi sjóleiðis og hvert sé hlutverk flugsins í samgöngukerfi þjóðarinnar. Það er í raun og sannleika bakgrunnurinn að því frv. sem hér er flutt. Við höfum reynslu af vegáætlun og áætlunum í hafnamálum. Þó að þar hafi kannske ekki miðað jafnlangt eða jafnvel og menn hefðu gjarnan kosið held ég að segja megi að reynslan sé sú, að þessi áætlanagerð í þeim samgönguþáttum hafi verið til bóta.

Mér þykir líklegt að flestir aðhyllist þá skoðun að samgöngukerfið eigi að byggja upp þannig að meginsamgöngur séu við vissa tiltekna kjarna hér og hvar á landinu, en síðan séu tengisamgöngur út frá þessum kjörnum. Nokkur þróun hefur átt sér stað í þessa átt að því er flugið varðar, og reyndar eru framkvæmdir í vegamálum að ýmsu leyti þannig að tekið er mið af þessu þar sem lögð er áhersla á að tengja nærliggjandi byggðir meginkjarnanum. Þróunin í flugmálum hefur kannske fyrst og fremst átt sér stað í þessa átt á Austfjörðum og að nokkru leyti á Norðurlandi, en þar hefur þó ekki tekist að vinna þessum málum þann byr og það fylgi sem nauðsynlegt er. Það er alveg ljóst, að til þess að flugið geti gegnt hlutverki sínu með eðlilegum hætti í þessari uppbyggingu verða áætlanir þeirra minni flugvéla, sem annast tenginguna við kjarnann eða minni kjarnana og hinar smærri byggðir að geta staðist. Forsenda fyrir því, að slíkar áætlanir geti staðist, er að aðbúnaður á flugvöllum sé bærilegur. Reyndar er gífurlega mikið hagkvæmnismál að hægt sé að nota hagkvæmustu gerðir flugvéla. Þess vegna er vissulega ástæða til þess, þó ekki kæmu til nema hagkvæmniástæður, að hyggja sérstaklega að fluginu.

Ísland er fámennt og strjálbýlt, eins og kunnugt er, og greiðar samgöngur hafa þess vegna enn meiri þýðingu hér en víða annars staðar. Einmitt af þessum sökum er dýrara að koma samgöngum bærilega fyrir en hjá ýmsum öðrum. Við þurfum því ýmislegt á okkur að leggja til að koma þeim þannig fyrir að sem mestur afrakstur fáist af því fjármagni og vinnuafli sem til þessara mála er veitt. Hefur vissulega skort mjög á skipulögð vinnubrögð í þessum efnum. Þótt að vissum þáttum samgöngumálanna hafi, eins og ég drap á áður, verið unnið eftir fyrir fram gerðri áætlun og það eigi að teljast spor í rétta átt verður alls ekki sagt að hér hafi verið nægilega skipulega að unnið. Á hinn bóginn skortir mjög á skipulegan samanburð á móguleikum hinna ýmsu samgöngukosta, þ. e. hvers konar verkefni henta hverjum samgöngukosti best, og leggja þannig grunninn að uppbyggingu samgöngukerfisins. Fjárfestingarstjórn hefur hingað til ráðist fyrst og fremst af því, hve mikið menn telja sig hafa aflögu til slíkra verkefna, ásamt tilviljunum og pólitísku skæklatogi.

Einn þáttur samgöngumála, flugsamgöngurnar, hefur í þessu sambandi orðið verulega út undan. Það er ekki hægt að segja að varðandi þennan þátt sé fyrir hendi nein stefnumótun og engin áætlunargerð. Það er ekki vitað um neinar sérstakar viðmiðanir, sem menn hafi við fjárfestingarákvarðanir til flugmála. og það er enginn samanburður við aðra flutningakosti eða samgönguleiðir. Afleiðingin er sú, eins og ég hef drepið á, að flugvellir og búnaður til flugsamgangna eru áratugum á eftir því sem er í flestum nágrannalöndum, en þó er það svo, að Íslendingar nota flug meira en flestar aðrar þjóðir.

Kostir flugsins eru vitaskuld margvíslegir. Það flest í hraða, þægindum og í rauninni tiltölulega litlum kostnaði við mannvirkjagerð miðað við aðra samgönguþætti. Það má líka segja að flugið sé að ýmsu leyti ónæmara fyrir náttúruhamförum og óháðara veðri en samgöngur á landi, en það er þó með því skilyrði að nægilegur búnaður sé fyrir hendi. Flugið getur þannig verið fljótvirki, ódýrt og öruggt. En það er ljóst, að kostir flugsins nýtast ekki jafnvel í öllum tilvikum. Flutningur þungavöru verður vitaskuld áfram hagkvæmari á sjó og vöru- og fólksflutningar á styttri vegalengdum eru hagkvæmastir með bifreiðum eða öðrum landflutningatækjum. En það er vissulega brýn þörf á nánari könnun og samanburði í þessu efni.

Ég ætla ekki að rekja þátt flugsins í samgöngumálum eins og nú er, en það hefur að sjálfsögðu fyrst og fremst sinnt fólksflutningum, enda njóta kostir flugsins sín sérstaklega vel þar. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að þáttur flugsins í samgöngunum gæti verið mikilvægari, hagkvæmari og öruggari ef uppbyggingu þess væri sinnt með eðlilegum og skipulegum hætti og áætlanir gerðar um hvernig ná mætti tilteknu markmiði í þeim efnum. Það er á þeim grunni sem þetta frv. er lagt fram.

Í þessu sambandi er ekki úr vegi að minna á fáeina þætti sem ástæða er til að hafa í huga þegar litið er á samgöngumálin og flugið sérstaklega. Í fyrsta lagi þurfa menn að komast í skyndingu milli fjarlægra staða og þá er flugið eðlilegasti samgöngumátinn. Á sama hátt má nefna að mjög veigamikill þáttur í almannavörnum er flugvellir, neyðarflugvellir þá sér í lagi. Sjúkraflug hefur líka farið vaxandi með ári hverju og verður sífellt meira áríðandi. Þess vegna er mikilvægt að sjúkraflugvellir séu vel færir og séu til í nálægð sjúkrahúsa og þéttbýlla staða. Þá er ástæða til að minna á að snjóþyngsli loka oft heilum héruðum, en það er oft hægt að fljúga langtum fyrr en tekst að ryðja samgönguleiðir á landi. Það er vitaskuld hægt að fljúga þegar veðri slotar og flugvöllur hefur verið ruddur, svo framarlega sem tæki eru fyrir hendi til að ryðja völlinn.

Það má benda á að flugið er mjög öruggur ferðamáti í samanburði við önnur samgöngutæki og slysatíðni telst þar lægri, þrátt fyrir að hér er öryggismálum ekki sinnt í ríkara mæli en ég hef þegar drepið á. Það, sem gera þarf, er að búa alla flugvelli lágmarkstækjakosti. Kröfur eru auðvitað misjafnar eftir því, hvort um er að ræða áætlunarflugvöll eða flugvöll fyrir neyðartilvik, sjúkraflugvöll. Ef einungis er litið á áætlunarflugvelli held ég, eins og kemur fram í þeirri grg. sem hér fylgir með og Finnur Torfi Stefánsson flutti og samdi á sínum tíma, að lágmarkskröfurnar megi telja upp í fjórum liðum: Það er í fyrsta lagi fullkomin flugleiðsögutæki, það er í annan stað það sem varðar flugbrautina sjálfa, það er í þriðja lagi aðstaða á flugvallarsvæðinu fyrir eftirlitsmann og farþega og í fjórða lagi að það þarf að vera aðgangur að tækjum til snjóruðnings, bremsumælinga og sandburðar. Þetta eru vitaskuld lágmarkskröfur og þótt þessi aðstaða væri fyrir hendi gæti hún tæpast talist fullkomin, eins og segir í grg. með frv.

Ég held að ef hv. þm. svipast um í kringum sig og líta á aðbúnað á flugvöllum víðs vegar á landinu sé ljóst að það sé langt frá því að þessum lágmarkskröfum sé yfirleitt fullnægt. Það eru einungis örfáir vellir þar sem hægt er að segja að lágmarkskröfunum sé nokkurn veginn mætt.

Sumt af því, sem hér er upp talið, er í sjálfu sér ekki mjög kostnaðarsamt, en annað er auðvitað dýrt. Meginatriðið er þá að menn ætli fé til þessara mála, að stefnan sé mörkuð og að samræmi sé í þeim fjárveitingum sem til þessara mála er varið. Því frv., sem hér er flutt, er ætlað að vera grundvöllur skipulegs átaks í flugmálum Íslendinga, enda verði það að lógum eins og ég vænti. Meginefni þess er að skylda ríkisstj. til að leggja fram með reglubundnum hætti flugmálaáætlun til samþykktar á Alþingi og haga síðan stjórn flugmála eftir ákvæðum hennar. Sú tilhögun, sem frv. byggir á, er sótt að meginefni til ákvæða vegalaga um vegáætlun. Ekki er gert ráð fyrir í frv. að markaðir séu sérstakir tekjustofnar til þessa verkefnis, heldur gert ráð fyrir að tekna verði aflað með almennum hætti. Er það í samræmi við ríkjandi meginsjónarmið við stjórn fjármála.

Ég tel að samþykki frv. af þessu tagi eigi að geta verið lyftistöng fyrir flugmál í landinu. Ég tel að það séu sjálfsögð vinnubrögð að gera flugmálaáætlanir, að gera áætlanir um þennan samgönguþátt eins og aðra, og ég legg áherslu á að öryggissjónarmið verður að hafa mjög ríkt í huga við uppbyggingu flugvallakerfisins og flugsins á Íslandi.

Að lokum vil ég vænta þess, að ef þetta frv. yrði að lögum mætti það stuðla að því, að aukin festa næðist í stefnumótun í flugmálum á Íslandi. Til þess liggja vissulega gild rök, að nauðsyn beri til þess, eins~og komið hefur fram í umr. á Alþingi ítrekað á undanförnum árum, þó að kannske hafi keyrt um þverbak á síðustu misserum í þessum efnum.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og samgn.