19.10.1981
Efri deild: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

30. mál, lyfjadreifing

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um lyfjadreifingu sem var reyndar lagt hér fram á Alþingi s. l. vor, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Frv. er óbreytt frá því að það var flutt. Í 1. gr. þess var því slegið föstu, að heilbr.- og trmrn. fari með yfirstjórn lyfjadreifingar samkv. þessum ákvæðum og í rn. starfi deildarstjóri, lyfjamálastjóri, sem annist framkvæmd lyfjamála innan rn. fyrir hönd ráðherra.

Í II. kafla frv. er fjallað um lyfjabúðir, stofnun þeirra, svo og veitingu lyfsöluleyfa. Þar segir í 2. gr.: „Lyfjabúðir og lyfjaútibú skulu vera í héruðum, samkv. nánari ákvæðum í reglugerð sem ráðh. setur með hliðsjón af skiptingu landsins í læknishéruð.“

Í frv. um lyfjadreifingu, sem lagt var fyrir Alþingi á haustþinginu 1979, var gert ráð fyrir að lögin kvæðu þegar í stað á um hvernig skiptingu landsins í lyfjaumdæmi yrði háttað. Við endurskoðun málsins á vegum núv. ríkisstj: var ákveðið að fella þessi ákvæði niður úr frv. og talið eðlilegra að þetta yrði ákveðið í reglugerð þar sem tekið yrði mið af heilsugæsluumdæmunum og því, hvernig málum er háttað í samstarfi á milli þeirra.

Í 3. gr. frv. eru ákvæði um lyfsöluleyfi, hverjir megi fá lyfsöluleyfi og hvernig þau eru veitt. Í 1. mgr. eru ákvæði um það; að þau megi veita einstaklingum, lyfsölusjóði og Háskóla Íslands. Ég vil varðandi þetta atriði geta þess, að Háskóli Íslands hefur farið þess á leit við ríkisstj. að flutt verði sérstakt frv. um að Háskóli Íslands hafi heimild til að reka lyfjaverslun. Háskólinn hefur hug á að festa kaup á ákveðinni lyfjaverslun hér og reka þá starfsemi sem þar fer fram. Og það er nauðsynlegt, vegna þess hvernig háttar til, aðsérstakt frv. verði flutt um þetta mál, þannig að það fái afgreiðslu fljótlega. Mun ég leggja fram lítið frv., um heimild fyrir Háskólann til að reka lyfjaverslun, núna alveg á næstunni. En það breytir ekki því, að slík ákvæði þyrftu allt að einu að vera í þessum bálkum hér ef að lögum verða.

III. kafli frv. fjallar um rekstur lyfjabúða og réttindi og skyldur lyfsala og þeirra sem hafa með höndum lyfsöluleyfi. Í þeim kafla eru út af fyrir sig ekki mörg nýmæli.

Í IV. kafla eru ákvæði um starfsmenn lyfjabúða. Þar segir m. a. að um nám, próf og starfsréttindi lyfjatækna, svo og annars afgreiðslu- og aðstoðarfólks í lyfjabúðum og öðrum stofnunum sem afgreiða, framleiða eða selja lyf í heildsölu, skuli sett ákvæði í reglugerð. En ramminn er mótaður hér í þessum IV. kafla frv.

Í V. kafla eru ákvæði um afgreiðslu lyfja.

Í VI. kafla er fjallað um undirstofnanir lyfjabúða. Er þar átt við lyfjaútibú og lyfjaforða.

Í VII. kafla er rætt um innflutning og heildsölu lyfja. Þar er 39. gr. frv., sem hefur valdið nokkrum deilum, en þar segir:

„Starfandi læknar, lyfsalar og aðrir starfsmenn lyfjabúða og starfsmenn sjúkrahúsapóteka mega ekki vera umboðsmenn erlendra sérlyfjaframleiðenda. Sama gildir um eignaraðild þessara aðila að sérlyfjainnflutningsfyrirtækjum og lyfjaheildsölum, sbr. ákvæði 3 til bráðabirgða.“

Í ákvæði 3 til bráðabirgða segir:

„Fyrirtæki, sem starfa í bága við 39. gr. við gildistöku laga þessara, hafa átta ára frest til að aðlaga sig þeim.“ Ástæðan fyrir þessu ákvæði 39. gr. er fyrst og fremst sú, að talið er óeðlilegt að starfandi læknar, lyfsalar eða aðrir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar, þar með talin apótek, séu á sama tíma umboðsmenn erlendra sérlyfjaframleiðenda. Um þessa afstöðu hefur verið tiltölulega góð samstaða og á henni byggist 39. gr. frv.

Í VIII. kafla frv. eru ákvæði um Lyfjaverslun ríkisins. Í þeim kafla eru nokkur nýmæli, sérstaklega þau, að gert er ráð fyrir að heilbr.- og trmrn. fari með yfirstjórn Lyfjaverslunar ríkisins, en til þess hefur Lyfjaverslunin verið undir stjórn fjmrn.

Í IX. kafla eru ítarleg ákvæði um lyfjaþjónustu á sjúkrahúsum og má segja að það séu í rauninni ein helstu nýmæli þessa frv.

X. kafli fjallar um dreifingu dýralyfja. Á honum hafa orðið nokkrar breytingar frá því sem var þegar frv. var lagt fram haustið 1979. Kaflinn er hins vegar óbreyttur frá því sem var þegar frv. var lagt fyrir Alþingi s. l. vor.

Frv. þetta var unnið á vegum núv. ríkisstj. af samstarfsnefnd sem í áttu sæti alþm. Guðmundur G. Þórarinsson og Helgi Seljan og Pálmi Jónsson ráðh. Þessi samstarfsnefnd yfirfór frv. eins og það lá fyrir þinginu haustið 1979 og gerði á því nokkrar breytingar, sem einkum er að finna í 1I., VIII. og X. kafla frv. Samstarfsnefndarmenn eru sammála frv. eins og og það er nú, en hafa allir áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma við bráðabirgðaákvæði 3 með frv. Það bráðabirgðaákvæði nefndi ég sérstaklega áðan.

Ég vil vekja athygli á því, að með þessum till. í frv. er stefnt að því að lyfjasala fari úr höndum lækna, en eins og kunnugt er hafa læknar að verulegu leyti annast lyfsölu sums staðar í dreifbýli. Hér er þó ekki tekið jafn djúpt í árinni og í till. þeirrar nefndar sem undirbjó frv. upphaflega. Hún lagði til að lyfjasala færi alfarið úr höndum lækna. Hins vegar lítum við þannig á, að lyfjasala í höndum lækna hljóti að vera hreint neyðarúrræði, hún megi ekki vera regla né heldur forsenda fyrir því, að menn fáist til að gegna læknisþjónustu í dreifðum byggðum, eins og víða hefur verið.

Ég vil einnig vekja sérstaka athygli á ákvæðum frv. um Lyfjaverslun ríkisins, en með ákvæðum frv. er reynt að tryggja stöðu hennar sem innkaupa- og dreifingaraðila fyrir sjúkrahús ríkisins og sveitarfélaga, auk dvalarheimila aldraðra. Ákvæði þessa frv. eiga að tryggja að Lyfjaversluninni verði ekki settur stóllinn fyrir dyrnar með innkaup erlendis frá, og þar með er talið að hagsmunum hennar eigi að vera betur borgið en fyrr.

Ég vil að síðustu, herra forseti, minna á að árið 1973 var lagt fram á Alþingi frv. um Lyfjastofnun ríkisins sem miðaði að því að ríkið tæki að sér að öllu leyti innflutning og heildsölu lyfja. Það náðist ekki pólitísk samstaða um slíkt fyrirkomulag, en hér er stigið skref í þá átt að tryggja betur en verið hefur tengsl lyfjadreifingarinnar við heilbrigðisþjónustuna í landinu. Það er mín skoðun og míns flokks, Alþb., að eðlilegt væri að lyfjaverslun og lyfjadreifing væri alfarið í höndum opinberra aðila. Um það hefur ekki tekist samstaða í núv. ríkisstj. Samstaða tókst hins vegar um það frv. sem hér liggur fyrir og ég hef nú gert grein fyrir í mjög stuttu máli. Ég flutti nokkra framsöguræðu með frv. þessu þegar það var lagt fram í maímánuði s. l. Þá gerði forveri minn í stól heilbrmrh. ítarlega grein fyrir þessu frv. haustið 1979. Ég tel því ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um frv. þetta en legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. Og ég vil fara fram á það við hv. n., að hún hafi samstarf, eftir því sem unnt er, við heilbr.- og trn. Nd. svo að þannig verði að málum staðið að frv., sem nú er lagt fram í þriðja sinn, verði loks að lögum á því þingi sem nú er rétt hafið.