18.11.1981
Neðri deild: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

46. mál, land í þjóðareign

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson). Herra forseti. Afstaða okkar Alþb.-manna til efnis þess, sem um er fjallað í frv. til l. sem hér er til umr., er vel kunn. Hv. þm. Skúli Alexandersson hefur lýst henni vel í sínu máli á undan og ég hef þar út af fyrir sig engu við að bæta. En vegna fsp. frá hv. 1. flm. varðandi það, hvort þess sé að vænta, að flutt verði af ríkisstj. hálfu frv. sem varða vatnsréttindi og jarðhita og styrkingu almannaréttar í því samhengi, vil ég segja hér nokkur orð.

Á árinu 1979 skipaði ég sem iðnrh. nefndir á grundvelli þess í stjórnarsáttmála þáv. ríkisstj., að virkjunarréttur fallvatna og djúphiti í jörðu skyldu verða þjóðareign. Þessar nefndir störfuðu nokkuð og önnur þeirra, sú er fjallaði um virkjunarréttindi fallvatna, skilaði áliti ekki alls fyrir löngu. Þetta nál. mun ég kynna innan ríkisstj. mjög fljótlega og það verður einnig aðgengilegt hv. alþm. Ég mun kanna hvort á grundvelli þess sé vilji fyrir því að flytja frv. um þetta efni á vegum ríkisstj. Um það vil ég ekki fullyrða að svo stöddu þar sem ekki var full samstaða innan þessarar nefndar um málið. Það liggur því ekki fyrir hvort vilji sé fyrir því að flytja það á grundvelli meirihlutaálits nefndarinnar. Ég tel hins vegar mjög æskilegt og raunar nauðsynlegt að víkka almannaréttinn hvað snertir virkjunarrétt fallvatna og mun stuðla að því fyrir mitt leyti, að það mál komist inn á vettvang Alþingis og reynt verði að ná sem víðtækastri samstöðu þar að lútandi.

Um hitt efnið, þ. e. almannarétt og jarðhitann, fjallaði nefnd á sínum tíma. Hún lauk ekki störfum. Málið var þá tekið til meðferðar innan iðnrn. af hæstv. iðnrh. Braga Sigurjónssyni og að því unnið á vegum rn. síðar af sérfróðum aðilum. Ég hef fyrir nokkru kynnt innan ríkisstj. og hjá aðilum í ríkisstj. frv. um þetta efni sem þar er nú til meðferðar, og ég vænti þess, að samstaða takist um flutning þess máls sem stjfrv. á þinginu í vetur þó að ekki liggi það enn þannig fyrir að ég geti um það fullyrt. Samkv. efni þess frv. er gert ráð fyrir víðtækum almannaréttindum varðandi jarðhita sem sækja þarf í iður jarðar og kallaður hefur verið djúphiti. Er það mjög í anda þess sem að er vikið í þeirri rammalöggjöf sem þetta frv., sem hér er til umr., fjallar um.

Ég vil að endingu lýsa almennum stuðningi mínum við efni þessa frv. sem hér er fram sett, þó að einstök útfærsluatriði geti þurft nánari athugunar og hugsanlega breytinga við. Það hef ég ekki kynnt mér nógu nákvæmlega til að lýsa viðhorfum að því leyti. En ég vil sérstaklega lýsa fylgi mínu við efni 4. gr., þar sem vikið er að reglum sem setja þarf um svæði, sem teljast almannaeign í landinu, og raunar fleiri svæði þar sem um nytjarétt er að ræða þótt ekki sé um skýran eignarrétt að ræða. Það er að mínu mati brýnt verkefni að vinna upp fyrr en seinna skilmerkilegt landnýtingarskipulag til þess að umgengni okkar við landið, gögn þess og gæði verði með óðrum og betri hætti en verið hefur til þessa. Ég tel einnig nauðsynlegt að reyna að stuðla að sem. bestri sambúð þeirra, sem í strjálbýli búa og nytja landið, gögn þess og gæði þar og almennings í þéttbýli, sem þarf og á að eiga sinn rétt til landsins í umgengni við það engu síður en þeir sem teljast hafa þar lögformlegan eignar- eða umráðarétt.