18.11.1981
Neðri deild: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

46. mál, land í þjóðareign

Páll Pétursson:

Herra forseti. Þingheimur hefur fengið að venjast tillöguflutningi Alþfl.-manna um þessi efni á undanförnum árum, eins og réttilega kemur fram í fskj. þessa frv. þeir hafa flutt mörg mál þessu skyld á undanförnum árum. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki getað fallist á þann málatilbúnað, og enn er svo að ég get ekki heldur fallist á þetta frv. Það er ekki vegna þess að Alþfl. flytji það að ég er á móti því, eins og ég var vændur um í gærkvöld í allt öðru máli sem einn Alþfl.þm. flutti og taldi mig vera á móti vegna þess að hann væri Alþfl.-maður, heldur vegna þess að ég er ekki samþykkur þeirri hugsun, sem þarna liggur að baki, og ekki þeim aðferðum, sem þarna er lagt til að beita. Að mörgu leyti er þetta frv. hófsamara en sumt af þeim frv. sem áður hafa verið flutt, enda að sumu leyti hófsamari fulltrúar Alþfl. á þingi nú en stundum áður. Þó er það ekki algild regla. Ég tek það fram, að það er sérstaklega í þessu máli sem hófsemi þeirra er þó aðeins betri og það er mjög vel.

Ég held að menn ættu ekki að vera að blása að mögulegum deiluefnum milli bændastéttar og þeirra sem í þéttbýli búa. Ég held að það sé gott ef í þessu frv. er ekki sama heiftin í garð bænda og stundum hefur áður verið. En hér er náttúrlega augljóslega verið að reyna að ná taki á fingrinum, eins og var tekið fram áðan, jafnvel þó að ekki sé reynt að hrifsa alla höndina eða jafnvel handlegginn. Ég held að það sé af hinu góða að efla sem best góð samskipti á milli bænda og þéttbýlisbúa. Þeir þurfa að sýna hver öðrum skilning og sanngirni. Það stendur ekki á bændum, vil ég leyfa mér að segja, að taka á jákvæðan hátt undir tilraunir til góðra samskipta eða hafa frumkvæði um þau.

Svo við víkjum hér að l. gr. þessa frv. er vafalaust að ríkið á nú þegar mikil landssvæði og óumdeild á hálendi landsins. En mörkin eru víða óljós því að bændur eða samtök bænda eða sveitarfélög eiga hins vegar mestan hluta heiðarlanda næst byggðum og jafnvel langt upp á hálendi. Fyrir þessu eru allrahanda bréf, sum pottþétt, sum orka kannske meira tvímælis. Það er ákaflega mikið úrlausnarefni fyrir lögfræðinga ef ætti að fara að setja skýr mörk á hvað væru eignarlönd og á hverju bændur eða sveitarfélög hefðu heimildir og hverju ekki. Þetta er verkefni sem er risavaxið og ákaflega dýrt því ég býst ekki við að allir þeir „júristar“ sem þar þyrfti að kveðja til, væru tilbúnir að leggja fram af fórnarlund einni saman sitt starf. Jafnframt er líka óþarfi að vera að efna til þeirra átaka sem þar yrðu fyrirsjáanlega, því að sjálfsögðu mundu forráðamenn sveitarfélaga reyna að standa á rétti sinna sveitarfélaga og ekki níðast á því sem þeim hefur verið til trúað. Ég held sem sagt að þetta verkefni megi bíða. Það er ekki mjög brýnt að fá úr þessu skorið, nema í einstökum afmörkuðum tilfellum þar sem hugsanleg umsvif manna geta krafist þess, að enginn vafi leiki á um eignarhald og réttindi.

Ég er ekki að hafa á móti eðlilegri umferð almennings um þau lönd sem hér um ræðir, þ. e. þau lönd sem bændur hafa eignarhald á eða telja sig hafa. Ég er alls ekki að hafa á móti eðlilegri umferð, svo framarlega sem gengið er skikkanlega um og siðsamlega. Þegar komið er að þessu atriði er óhjákvæmilegt að minnast á það, að á sumum stöðum hálendisins er orðinn of mikill átroðningur af ferðamönnum. Það er orðinn hörmulega mikill átroðningur af ferðamönnum á sumum viðkvæmum stöðum á hálendinu, þar sem er náttúrufegurð og menn safnast saman, og úr því verður að bæta. Náttúrlega verða menn að keyra eins og siðaðir menn um landið, ekki djöflast upp um holt og börð og skilja eftir flakandi sár hvar sem þeir hafa farið, heldur einnig að ganga þrifalega um. Jafnvel þó menn gangi þrifalega um og séu allir af vilja gerðir að ganga þokkalega frá sorpi er ákaflega mikill misbrestur á að það takist nægilega vel. Menn eru að reyna að urða rusl, en hafa ekki til þess hentug tæki og fjallarefur og veður rífa þetta allt saman fyrr eða síðar upp. Það er ekkert annað ráð við þessu en það, að menn flytji með sér til byggða það sorp sem til fellur og ekki er hægt að koma fyrir með tryggum hætti. — Ég þekki náið eina vinsæla ferðamannaslóð. Þar er að verða svo, að á fárra km fresti sjást tætlur af svörtum sorppokum. Þeir eru flestir frá sömu ferðaskrifstofunni sem skipuleggur ferðir þarna um. Plastið eyðist ekki og af þessu er ótrúlega mikil raun og sóðaskapur.

Þetta er atriði sem þarf að huga mjög að. Líka þarf náttúrlega að huga að því, að búpeningur sé látinn í friði, að ekki séu gerð hervirki í veiðiskap og því um líkt, sem líka hefur aðeins viljað við brenna þegar menn hafa ekki gætt að sér.

Hér var áðan minnst á meðferð skotvopna. Get ég tekið undir þau orð hv. þm. Steinþórs Gestssonar, að það er ástæða til að fara varlega með skotvopn, sérstaklega að sumrinu. Ég er ekki að hafa á móti hóflegri rjúpnaveiði, ef hún er skynsamlega framkvæmd og af hæfum mönnum. En allt of margir stunda nú þennan veiðiskap sem ekki ættu að gera það, bæði sjálfum sér og öðrum til armæðu og stundum jafnvel til fjörtjóns.

Ég lít svo á að eignarhaldinu á landinu sé best komið í höndum bænda — ekki fyrir það, að það sé bara gaman fyrir bændur að eiga landið, heldur vegna þess að þeir þekkja þetta land best, þ. e. hver sinn blett, og hafa alveg örugglega næmasta tilfinningu fyrir því, meðferð þess og varðveislu.

Þetta land, sem við erum hér um að tala, er stórkostlegt verðmæti í sjálfu sér og það er ekki sama hvernig það er meðhöndlað. Ég er alveg viss um það, þó að menn hafi kannske ekki yfirsýn eða væntumþykju á nema tiltölulega litlu landsvæði hver, þyki kannske ekki jafnvænt um allar heiðar eða jafnvænt um öll fjöll, þetta deilist þannig niður að það er nánari tilfinning en hjá öðrum.

Ég sagði að þetta land væri stórkostleg verðmæti í sjálfu sér. Það þarf að fara þannig með það og skila því þannig af sér að það sé ekki ómerkilegra en þegar við tókum við því, helst aðeins betra. Af þessu landi er náttúrlega sjálfsagt að hafa nytjar. Það er ekki keppikefli að láta þetta land standa allt á sínu. Það er meinlaust að beita það hóflega og það er réttmætt að beita það hóflega. Og af þessum heiðarlöndum eru geysimiklar búskaparnytjar. Heiðarlöndin eru undirstaða hagkvæmrar sauðfjárræktar á Íslandi og þau eru mjög mikilsverð trygging fyrir heilbrigði sauðfjárins og jafnframt fyrir kjötgæðum, vegna þess að þarna vaxa aðrar plöntur en niðri á láglendinu og af því skapast annað bragð af kjöti og betra. Svona beitilönd eru mjög óvíða til í veröldinni á þeim svæðum sem eru svo hamingjusöm að hafa ekki verulega mengun og liggja svipað og hálendi Íslands.

En þessi stórkostlegu beitarnot, sem ég var að tala um, koma ekki bara bændum til góða. Þau koma reyndar bændum ekkí til góða nema eins og hverjum öðrum þjóðfélagsþegnum fjárhagslega. Verðlagsgrundvöllur landbúnaðarafurða er þannig upp byggður, að bændum eiga að vera tryggð laun í samræmi við tekjur nokkurra annarra stétta. Kostnaðarliðir við búrekstur eru reiknaðir inn í verðlagsgrundvöllinn: mannvirki, áburður, fóðurbætir, vélakostnaður, fjármagnskostnaður o. s. frv., en gras sem vex á óræktuðu landi er ekki reiknað inn í þennan verðlagsgrundvöll, þannig að þau strá, sem t. d. spretta á minni jörð eða minni heiði, koma ekki einasta mér til góða og mínum búrekstri, heldur þjóðarbúinu öllu og hverjum einasta landsmanni, vegna þess að þetta gras er hvergi fært til verðs. Allt það fóður, sem búpeningur tekur á óræktuðu landi, kemur hvergi til reiknings. Væri afréttum t. d. lokað fyrir búfé yrði að beita í stærri stíl á ræktað land. Það hefði náttúrulega í för með sér stórhækkað kjötverð. Afurðirnar af þessu landi koma því, við það skipulag sem við búum við, að sjálfsögðu allri þjóðinni til góða. Ávextir landsins spretta fyrir alla þjóðina, ekki einungis fyrir bændur.

Ég ætla ekki að ræða um veiðiskap, enda er þessi tillaga ekki beint um hann. Ég ætla aðeins að benda á að mér finnst það orka tvímælis í 2. gr. í frv. að setja fjmrn. yfir þessi landssvæði því landbrn. hlýtur að hafa mjög um það að segja. Síðan er það með mig eins og hv. þm. Steinþór Gestsson, sem hér talaði næstur á undan mér, að yfirleitt er ég á móti þjóðnýtingu sem slíkri. Mér er heldur andstæð sú hugsun sem að baki henni liggur. Það getur einstöku sinnum verið réttmætt að þjóðnýta, það viðurkenni ég fúslega, en það má líka ganga of langt í því. Ég held að eignarrétturinn sé nokkuð sem við þurfum að hafa í heiðri.

Mér sýnist þetta frv. vera óþarft og mjög vandasamt í framkvæmd, kannske óframkvæmanlegt nema með ógurlegum tilkostnaði að fá botn í það samkv. 5. gr., hvernig eignarrétti hverrar þúfu sé háttað. Þess vegna held ég að þetta sé verkefni sem við getum geymt okkur. Og ég er ekki samþykkur því að rétta fram þennan fingur sem hér er verið að reyna að ná taki á.