18.11.1981
Neðri deild: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

100. mál, Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að mega tala fyrir þessum tiltölulega mjög einföldu breytingum sem lagt er til að gera í frv. til l. um breyt. á lögum nr. 48/1966, um Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja (verslunarlánasjóð), og frv, til laga um breyt. á lögum nr. 45/1972, um Stofnlánadeild samvinnufélaga, en þessi mál eru 11. og 12. mál hér á dagskránni.

Ef ég vík fyrst að frv. til laga um breyt. á lögum um Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja fjallar það um breytingu á lögum nr. 48 frá 1966, um Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja, og er flutt sérstaklega að ósk bankaráðs Verslunarbankans, en bankaráð fer með stjórn Stofnlánadeildarinnar.

Í frv. er langt til að hámarkslánstími þeirra lána, sem Stofnlánadeildin veitir, verði lengdur í 25 ár. Samkv. gildandi lögum er hámarkslánstími 12 ár með þeirri undantekningu að lán til kaupa á áhöldum má ekki veita til lengri tíma en 5 ára nema sérstakar ásræður mæli með því. Nú er svo komið að þessi hámarksákvæði, sem á sínum tíma voru sett til þess að auka veltu, íþyngja lántakendum, þ. e. verslunarfyrirtækjum. umfram það sem eðlilegt getur talist. Þær breytingar, sem hafa orðið almennt á lánskjörum með tilkomu fullrar verðtryggingar, gera nauðsynlegt að lánstími sé lengdur. Af þessum ástæðum legg ég til að hámarkslánstími allra lána er Stofnlánadeildin veitir, einnig þeirra sem veitt eru til kaupa á áhöldum, verði miðaður við 25 ár. Þessi breyting ætti að stuðla að betri starfsskilyrðum verslunarfyrirtækja.

Svo ég víki að hinu frv. til laga um breyt. á lögum um Stofnlánadeild samvinnufélaga gerir það frv. ráð fyrir breyt. á lögum nr. 45 frá l972, um Stofnlánadeild samvinnufélaga. Það er einnig lagt fram samkv. ósk og þá samkv. ósk bankaráðs Samvinnubankans sem gegnir störfum stjórnar við Stofnlánadeildina.

Þetta frv. gengur í sömu átt og frv. um breytingar á Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja. Þó er ekki að finna í gildandi lögum um Stofnlánadeild samvinnufélaga sérákvæði um styttri lánstíma ef um kaup á áhöldum er að ræða, heldur er sami hámarkstími, 12 ár, látinn gilda um öll lán er Stofnlánadeildin veitir. Lagt er til að þessi hámarkstími verði 25 ár.

Að öðru leyti vísa ég til þess, sem ég sagði áður um frv. til l. um breyt. á lögum um Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja, og sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta að því er ég tel sjálfsagða mál.

Ég beini því vinsamlega til þeirrar þingnefndar, sem fær málið til meðferðar, að hún hraði meðferð þess eftir því sem hún telur unnt, og legg til að báðum frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umr.