19.10.1981
Efri deild: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

30. mál, lyfjadreifing

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er um þýðingarmikið mál að tefla, þar sem er frv. til l. um lyfjadreifingu. Ég hef ekki hugsað mér nú við þessa umr. að fara að ræða það mál efnislega, en mér þykir ástæða til að gera fyrirspurn til hæstv. heilbrmrh. varðandi málsmeðferð. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðh. var þetta mál flutt á síðasta þing;. Það hlaut ekki afgreiðslu þá, en var komið til nefndar. Ein er sú stétt manna sem þetta mál varðar mjög. Það eru lyfjafræðingar. Þegar málið var komið fram og var í höndum þingsins á síðasta þingi skrifaði Lyfjafræðingafélag Íslands þingmönnum bréf í maímánuði varðandi málið, þar sem tekið var fram, að félagið hefði ýmislegt við frv. að athuga, og lagðar voru fram sérstakar tillögur til breytinga. Með tilliti til þess, hve mál þetta er í heild þýðingarmikið og hve miklu það varðar lyfjafræðingana sjálfa, og með tilliti til þess, að þeir hafa gert ákveðnar tillögur um breytingar á frv., þá er spurning mín til hæstv. ráðh. á þessa leið: Hafa tillögur lyfjafræðinga verið teknar til sérstakrar athugunar frá síðasta þingi? Var það gert áður en gengið var frá því frv. sem hér er lagt fram nú?