18.11.1981
Neðri deild: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

16. mál, verðlag

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég taldi rétt að koma hér nokkrum athugasemdum á framfæri áður en þetta mál fer til nefndar.

Í umr. um þetta mál s. l. mánudag, sem fjallar um sérstakt eftirlit með gjaldskrám og verðtöxtum, gat ég ekki betur heyrt en að hæstv. viðskrh. tæki að verulegu leyti undir gagnrýni mína á skort á eftirliti með gjaldskrám ýmissa aðila og þar með undir forsendur og rökin fyrir því, að lögð er til þessi lagabreyting. Það, sem okkur greinir á, er að hæstv. ráðh. telur lagabreytingu óþarfa, en ég tel stoð í lögum nauðsynlega til að að tryggt sé að það eftirlit komi til framkvæmda sem bæði ég og hæstv. ráðh. erum sammála um að á skorti. Ég tel að þar sem ljóst er að framkvæmdavaldið hefur ekki haldið uppi nauðsynlegu eftirliti, jafnvel þó það eftirlit eigi að rúmast innan þeirrar rammalöggjafar sem fyrir hendi er um verðlagsmál, sé skylda löggjafans að búa svo um með lagabreytingu að ekki sé hægt að sniðganga það eftirlit í framkvæmd, en það getur löggjafinn gert með því að gera lögin ákveðnari og markvissari að því er þessu viðvíkur.

Ég lagði áherslu á það í máli mínu s. l. mánudag að verðmyndunargrunnurinn í gjaldskrám t. d. tannlækna hefði ekki verið skoðaður og því lítið vitað um hvernig gjaldskrárnar væru upp byggðar. Undir þetta tók hæstv. ráðh. og sagði að verðmyndunargrunnurinn hefði ekki verið kannaður. Hæstv. ráðh. taldi að ástæðan væri sú, að verðlagsyfirvöld hafi ekki haft sérhæfðu fólki á að skipa til að sinna þessu verkefni og til þyrfti að koma aukin fjárveiting til að geta sinnt því verkefni sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Hæstv. ráðh. sagði að Verðlagsstofnun hefði upplýst að hún treysti sér ekki til að halda uppi nauðsynlegu eftirliti eða gera athuganir á flóknum gjaldskrártöxtum nema kalla til sérfræðilega aðstoð í miklu ríkari mæli en nú er gert. Á þessu er einmitt tekið í þessu frv., sem hér er til umr., þannig að sérhæfðir starfsmenn Verðlagsstofnunar fjölluðu um uppbyggingu gjaldskráa og hefðu reglulegt eftirlit með þeim. Ég er ósammála hæstv. ráðh. um að ekki sé nauðsyn á lagabreytingu. Ég tel einmitt að slík stoð í lögum, sem hér er lagt til, muni tryggja frekar að svo sé búið að Verðlagsstofnun að hún geti sinnt hlutverki sínu í þessu efni og fái til þess nauðsynlegt fjármagn.

Því ber vissulega að fagna, sem fram kom í máli hæstv. ráðh. hér á mánudaginn, að nú hafi Verðlagsstofnun í hyggju að hefja athugun á verðmyndun í gjaldskrá tannlækna. En ég vil undirstrika enn og aftur að reynslan sýnir okkur að nauðsyn sé á sérstöku ákvæði um hvernig skuli að þessum málum staðið hjá Verðlagsstofnun og hvernig skuli að henni búið til að með reglubundnum hætti sé hægt að halda uppi eftirliti ekki bara hjá tannlæknum. heldur öðrum aðilum einnig sem undir engu eftirliti hafa verið hingað til. Það er ekki nóg að gera þetta einu sinni. Þetta mál þarf að vera í sífelldri skoðun. Stoð í lögum og sérstakt ákvæði þar um hlýtur að flýta fyrir, að slíkt verði framkvæmt, og frekar tryggja að til þess verði veitt nauðsynlegt fjármagn.

Í máli hæstv. ráðh. um þetta mál s. l. mánudag kom einnig fram, að lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti væru hugsuð sem rammalöggjöf með heimildum til að grípa inn í verðmyndun eftir því sem verðlagsyfirvöld telja þörf á hverju sinni. Er það ekki einmitt þetta sem mikið hefur verið gagnrýnt í störfum Alþingis, að of mikið sé gert að því að setja rammalöggjöf og reglugerðarákvæði og með því afsali löggjafarvaldið sér óeðlilega miklu valdi í hendur framkvæmdavaldsins? Hætta er einnig á að rammalöggjöf veiti framkvæmdavaldinu ekki nógu mikið aðhald, og líka má spyrja hvort svo sé um hnútana búið af hendi löggjafans að framkvæmdavaldinu sé gert kleift að sinna hlutverki sínu, eins og virðist raunin með gjaldskrár- og verðtaxta sem hér eru til umr. Ber ekki löggjafarvaldinu að grípa inn í þessa rammalöggjöf að nýju þegar það sýnir sig að hún veitir ekki það aðhald sem þó hlýtur að hafa vakað fyrir löggjafanum?

Hæstv. ráðh. teflir fram þeim rökum, að bein verðlagsákvæði varðandi gjaldskrár samrýmist vart þeirri þróun sem að hefur verið stefnt í verðlagskerfinu. Mér finnst þau rök léttvæg á móti því, að reynslan sýnir okkur að sérstök ákvæði um gjaldskrár eru nauðsynleg því framkvæmdavaldið hefur ekki haldið uppi nauðsynlegu eftirliti. Það er kjarni þessa máls, enda hefur hæstv. viðskrh. viðurkennt að skort hafi á eftirlit og verðlagsyfirvöld hafi lítil afskipti haft af gjaldskrám. Þegar svo er liggur beinast við og er raunar skylda löggjafans að hafa afskipti af þessu máli að nýju með beinu lagaákvæði sem veitir aðhald og erfitt er að sniðganga.