19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

321. mál, húsnæðismál

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir með tveimur hv. síðustu ræðumönnum. Ef hæstv. menntmrh. er kunnugt um lögbrot í sambandi við starfsemi hins skipulagða myndvarps, eins og það hefur verið orðað hér á landi, sé ég ekki betur en það mál horfi til hans friðar að sjá til þess, að þau verði stöðvuð og þurfi þá ekki að bíða álits einhverrar ráðherraskipaðrar nefndar í því skyni. Ég held að það hljóti að liggja í augum uppi. Aftur á móti hefur okkur verið ljóst frá upphafi þessa máls, að forusta Ríkisútvarpsins, sem lýtur þó þrátt fyrir allt hans rn. þótt um sjálfstæða stofnun sé að ræða, hefur verið ákaflega slöpp á þessu sviði.

Ég vil ekki staðhæfa það nú, að allt það efni, sem til sölu er á myndsegulböndum, sé ósiðlegt eða slæmt. Ég er ekki bær að dæma um það. Ég hef ekki fylgst með slíku. Þó er mér kunnugt um að þetta efni er ákaflega misjafnt. En hitt er mér ljóst, að verulegur hluti af því efni, sem selt hefur verið á myndsegulböndum hingað til lands, er stolið. Það hafa ekki verið greidd af því höfundarlaun eða laun til rétthafa. Þetta er ljóst mál. Hvort heldur hæstv. menntmrh. vill nú snúa sér að því að ræða það mál víð hæstv. dómsmrh. eða hvort hæstv. dómsmrh. vill trúa orðum mínum í þessu skyni og eiga frumkvæði í þessu máli, þá er hér um að ræða mál sem hæstv. ráðherrum og raunar ríkisstj. allri ber að skipta sér af. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að við eigum að standa að því, að lög verði haldin á þessu sviði, og bíða ekki eftir áliti nefnda sem fjalla um breytingar á útvarpslögum í þessu skyni né heldur stúdera möguleika á því að vernda höfundarétt til efnis á myndsegulböndum. Við eigum að sjá til þess, að lög verði framkvæmd núna, og ef með þarf að lögum verði breytt.