19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

321. mál, húsnæðismál

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans við fsp. minni. Þau ollu mér raunar nokkrum vonbrigðum. Hins vegar er ástæða til að fagna því, að áfangaskýrslu skuli vænta frá svokallaðri myndbandanefnd eftir tiltölulega skamman tíma. Það væri vissulega ástæða til að ræða þetta mál hér ítarlega og mun ítarlegar en hægt er að gera í fsp.-tíma.

2. liður fsp. minnar fjallaði um hvort menntmrh. teldi starfsemi þessara fyrirtækja, sem dreifa sjónvarpsefni hér, vera í samræmi við lög. Auðvitað er það augljóst — og þarf ekki annað en lesa lögin til þess — að þessi starfsemi er lögbrot. Ráðh. sagði það raunar mörgum orðum áðan. Það sem auðvitað er meginefni þessa máls, er að þetta snýst í fyrsta lagi um virðingu Ríkisútvarpsins sem stofnunar sem hefur einkarétt til útvarps hér á landi lögum landsins samkvæmt, þetta snýst um virðingu hæstv. menntmrh. og í þriðja lagi, síðast en ekki síst, snýst þetta auðvitað um virðingu Alþingis. Hér eru sett lög, og ætla allir hv. þm. og hæstv. ríkisstj. að horfa á að þessi lög séu þverbrotin? Meðan þessi lög eru í gildi, meðan þeim er ekki breytt, finnst mér það vera meginatriði þessa máls, hvort Alþingi Íslendinga ætlar að þola að þetta ástand haldi áfram. Satt best að segja finnst mér þetta vera óþolandi ástand.

Hæstv. menntmrh. getur notað þau orð sem hann kýs að velja þessu, kalla þetta „barbarisma“ eða hvað annað sem honum dettur í hug. Í Þjóðviljanum 7. nóv. sagði hæstv. menntmrh. — með leyfi forseta — orðrétt: Blaðamaður spyr: Hvernig koma þessi mál þér fyrir sjónir persónulega? „Mér finnst þetta æðiskoplegt í aðra röndina,“ segir hæstv. menntmrh. — Ég held að þetta mál sé alls ekki skoplegt. Það er býsna langt frá því að vera skoplegt. Það er mjög alvarlegt mál þegar hugverkum manna, innlendra og erlendra, er stolið í stórum stíl og þúsundir manna gerast þannig ekki þjófar, heldur þjófsnautar, sem ekki er betra. Það er svo aftur annar handleggur, hvernig þetta efnisframboð er. Ég ætla ekki að ræða það hér.

Það, sem auðvitað liggur beinast við í þessu máli, er að nú starfar að endurskoðun útvarpslaga nefnd sem þingflokkar eiga fulltrúa í. Önnur nefndarskipan í þá veru sýnist því vera til lítils, óþörf. Auðvitað er eðlilegt að hæstv. menntmrh. feli þessari útvarpslaganefnd að gera hið fyrsta tillögur til breytinga í þessu efni á útvarpslögum og taka það verkefni út úr sér sem varðar þetta mál, því að heildarendurskoðun útvarpslaga hlýtur að taka meiri tíma. Það sýnist sjálfsagt og eðlilegt að þessi nefnd fjalli sérstaklega um þessi mál þannig að það ástand sé ekki viðvarandi að lög séu brotin. Það þarf þá að breyta lögunum til að aðlaga þau réttlætiskennd alls þorra fólks.

Hitt er svo auðvitað alrangt, sem hér hefur komið fram, að þessi þróun hafi gerst alls staðar. Þessi þróun, sem hér hefur átt sér stað, að stofnað sé kapalsjónvarpskerfi, mörg frekar en eitt, sem taki til þúsunda eða tugþúsunda manna, hefur hvergi gerst annars staðar svo að ég viti til. Auðvitað hafa alls staðar komið til myndbönd og notkun þeirra á heimilum, en samtenging slíkra banda í kerfi hefur, að því er ég best veit, hvergi gerst með þeim hætti sem hér hefur gerst. Opinberir aðilar hafa hvarvetna haft afskipti af slíku, sett reglur um slíkt, sem er sjálfsagt og eðlilegt.

Ég held að hér þurfi virðingar okkar sjálfra vegna að taka á þessum málum og þar fyrr en seinna. Og það er annað í þessu sambandi sem er mjög brýnt og ekki hefur verið tekið á hér, en það er endurskoðun höfundaréttarlaga með tilliti til þeirrar nýju tækni sem nú er okkur tiltæk. Það hefur viðgengist hér í mörg ár og enginn sagt neitt við því, að efni úr íslenska sjónvarpinu hafi verið tekið upp á segulbönd og sýnt t. d. um börð í togurunum. Við því hefur enginn sagt neitt og það er sjálfsagt hægt að sjá í gegnum fingur við slíkt meðan það er í smáum stíl og eingöngu með þeim hætti sem verið hefur. En þegar þetta er orðið eins og núna, að það er jafnvel tekið upp efni úr sjónvarpinu, hugverk íslenskra höfunda og listamanna, og þetta er sýnt í ágóðaskyni er málið orðið miklu, miklu alvarlegra. Það hlýtur að vera brýnt að umræður hefjist um endurskoðun höfundaréttarlaga og samningar við þá, sem þar eiga hagsmuna að gæta, þannig að hægt sé að nýta þessa nýju tækni. Það er ein af forsendum þess, að þessi tækni verði nýtt, að það sé samið eða a. m. k. talað við þá, sem eiga rétt samkv. lögum, og að hagsmunir almennings — neytenda — séu þar hafðir að leiðarljósi sömuleiðis.