19.10.1981
Efri deild: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

30. mál, lyfjadreifing

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Svar við spurningu hv. 4. þm. Vestf. er nei. Þessar tillögur hafa ekki verið teknar inn í frv. eins og það liggur hér fyrir. Frv. er flutt alveg óbreytt frá því sem það var lagt fyrir þingið í vor. Ég taldi eðlilegra að koma málinu þannig á ný til hv. Alþingis til þess að það gæti fjallað um málið á þeim grundvelli sem ríkisstj. hafði undirbúið það. Síðan er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hv. þingnefnd taki tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma m. a. í tillögum Lyfjafræðingafélagsins. Ég vil minna á það í þessu sambandi, að það eru auðvitað fleiri félög sem hafa látið heyra í sér um þessi mál, þ. á m. Apótekarafétagið. Ég tel eðlilegt að hv. þingnefnd leiti umsagna þessara aðila og taki tillit til tillagna þeirra eftir því sem frekast er kostur.

Ég minni hins vegar á það, að þeir aðilar, sem náttúrlega langmestu máli skiptir að myndi sér skoðun á þessu, eru Alþingi sem löggjafi og Alþingi sem fjárveitingavald. Á árinu 1982 er ráðgert að lyfjakostnaður út úr Tryggingastofnun ríkisins verði 158 millj. 900 þús. kr. eða 15.8 milljarðar gkr. Á þessu ári er gert ráð fyrir að Tryggingastofnunin eða sjúkratryggingadeild hennar verji í þessu skyni 82 millj. kr. Hér er því um að ræða mjög verulega hækkun í fjárlagafrv. næsta árs, og ég held að Alþingi þurfi að líta á málin frá þeirri hlið, að það beri ábyrgð á fjárreiðum ríkisins einnig að þessu leyti til. Ég vil enn fremur minna á það, að þessi tala um lyfjakostnað ríkisins tekur bara til lyfjasölu utan sjúkrahúsa. Lyfjakostnaður að öðru leyti er færður á rekstrargjöld sjúkrahúsa, daggjaldaspítala, og er því inni í daggjöldum annars vegar og útgjaldatölu ríkisspítalanna hins vegar.

Ég tel að Alþingi þurfi að líta á þetta og Alþingi þurfi einnig að hafa í huga sjónarmið neytenda og öryggi þeirra. Meginatriðið er auðvitað það frá sjónarmiði heilbrmrn., að tryggt sé að Lyfjaverslunin lúti þeim almennu grundvallarreglum sem gilda lögum samkvæmt um heilbrigðisþjónustuna í landinu. Það er auðvitað meginatriði, þannig að ekki sé verið að tefla í þeim efnum fram neinum annarlegum hagsmunum sem eiga ekkert skylt við heilsuvernd eða heilbrigðisþjónustu.