19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

321. mál, húsnæðismál

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er stundum með ólíkindum hvað hæstv. menntmrh. getur flutt vondar og vitlausar ræður og var sú síðasta dæmi um það. Lög eru auðvitað sett fyrir fólk, en ekki til höfuðs fólki eða gegn fólki, og þannig var með þessi útvarpslög á sínum tíma. Það, sem hefur gerst í millitíðinni, er að átt hefur sér stað tæknibylting, fyrst erlendis og síðan hér heima, og þessi tæknibylting hefur verið að ganga yfir landið hin síðari misseri. Þar á sér auðvitað stað hvorki æði né „barbarismi“ af einu eða neinu tagi, heldur hefur fólk í stórum stíl kosið að taka þessa tækni í þjónustu sína.

Það er auðvitað, eins og réttilega kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda og fleiri ræðumönnum, alveg óþolandi að vegna hægrar og seinnar stjórnar í landinu skuli þúsundir manna lifa í óvissu um hvort verið sé að brjóta lög eða ekki. Af þeirri ástæðu, að aðstæður allar hafa breyst, þarf að koma til frumkvæði, bæði frá framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi, um að lögum sé breytt.

Mínar skoðanir í þeim efnum eru ljósar. Ég vil að lögunum sé breytt á þann veg, eins og fram kemur í þáltill. sem ég er 1. flm. að, að gert sé nákvæmlega ljóst að þetta varði ekki við lög, en um leið séu settar reglur sem t. d. tryggi höfundum það sem höfundum ber,— það sé alveg ljóst að löggjafinn beygi sig fyrir þessari þróun sem átt hefur sér stað. Lög eiga ekki að vinna á móti fólki. Þau einokunarlög, sem hér standa, vinna á móti fólki því af einhverjum ástæðum hafa þúsundir og þúsundir séð ástæðu til að taka þessa tækni í þjónustu sína.

Hæstv. menntmrh. getur talað hér um æði og „barbarisma“ og hvað hann vill, en þetta er engu að síður staðreynd. Þetta er vilji þúsunda og þúsunda, af því að þúsundir og þúsundir hafa kosið að setja þetta upp. Þá ber að breyta lögunum til handa þessu fólki því að þetta fólk á ekki skilið að hægt sé að bera á það lögbrot á lögbrot ofan, eins og hér hefur verið gert.