19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

321. mál, húsnæðismál

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég verð að taka undir með hv. fyrirspyrjanda, að hálfgerð endemi þykja mér þessar umr. Við stöndum hér frammi fyrir því, að ef við leggjum bílunum okkar á rangan stað við götuhorn fáum við sekt þó nokkra og er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að reyna að hafa reglu á þeim efnum. En við, sem eigum sæti í borgarstjórn Reykjavíkur, höfum mátt horfa upp á að fyrirtæki hér í bænum brjóta sig í gegnum götur borgarinnar, brjóta upp malbik, eyðileggja stórlega framkvæmdir borgarinnar, til að leggja kapalsjónvarp. Erindi þessa ágæta fyrirtækis, eins þeirra a. m. k., hefur nú legið fyrir borgarstjórn og kemur fyrir borgarstjórn aftur í dag, en því máli var frestað á síðasta fundi, þar sem þetta fyrirtæki sækir formlega um að fá að leggja kapalsjónvarp. Þetta sama fyrirtæki byrjaði verulegar framkvæmdir í þá veru áður en nokkurt slíkt leyfi var fengið. Ég vil biðja hv. þm. að fylgjast með því í dag, hvort slíkt leyfi verður veitt, en ég vil taka það fram, að borgarfulltrúar Alþb. hafa flutt till. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Borgarstjórn telur ekki fært að heimila fyrirtækinu Video-son hf. lagningu jarðstrengs til flutninga á sjónvarpsefni, þar eð starfsemi fyrirtækisins virðist fara í bága við landslög.“

Það verður að segja, að það er ansi hart að borgarstjórn Reykjavíkur skuli vera að basla við að halda uppi lögum og reglu í landinu. Það ætti ekki að vera hennar verkefni. Ég vil minna hæstv. dómsmrh. á harðar og strangar ákvarðanir á köldum vetri s. l. Án þess að ég sé að mæla með harkalegu dómsvaldi mætti nú heldur taka hér betur á. Ég vil ítreka að hér eru brotin höfundalög og Bernarsáttmálinn, hér eru brotin barnaverndarlög, en enginn hefur tekið eftir því eða sagt það hér, hér eru brotin útvarpslög og hér eru, eins og hv. þm. Pétur Sigurðsson minntist á, áreiðanlega brotin söluskattslög. Ég vil minna menn á menningarhlutverk Ríkisútvarpsins, sem hefur verið skilað með miklum sóma frá fyrstu byrjun. (Forseti hringir.) Ég skal rétt ljúka máli mínu, forseti. — Ég held að menn ættu að gera sér grein fyrir að þarna er verið að sýna erlent myndefni án texta sem allur þorri manna hefur litið sem ekkert gagn af. Ótal lög og leyfi eru brotin. Og ég vil leyfa mér að spyrja: Hvernig er með verslunarleyfi og leyfi til viðskipta hjá fyrirtæki sem ekki fer að landslögum á nokkurn hátt? Og að endingu aðeins ein spurning: Hvers vegna kærir enginn þeirra aðila sem eiga að gæta hagsmuna sem eru skráðir og samþykktir á Alþingi í heilum fjórum lagabálkum a. m. k.?