19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

321. mál, húsnæðismál

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Að svo miklu leyti sem nafn mitt eða dómsmrh. hefur verið nefnt í þessum umr. ætla ég að segja örfá orð, án þess að gera þó nokkra tilraun til að þvo hendur mínar sérstaklega.

Ég hygg að þetta mál sé ekki alveg eins einfalt og af er látið. Það tala margir um að mörg landslög séu brotin, en þó taka menn ekki fastar til orða en svo, eins og síðasti ræðumaður, að hér sé um mál að ræða sem virðist fara í bág við landslög. Ekki er nú sannfæringarkrafturinn meiri, aldrei þessu vant.

Í ósköp einföldu máli get ég sagt það, að mér er ekki kunnugt um að nokkur maður hafi „hringt í lögregluna“ út af þessu máli. Enginn lögbannskrafa hefur komið fram við þessum grefti, sem nefndur hefur verið, hvorki frá borgarstjórn né öðrum. Mér er ekki kunnugt um það. Ríkissaksóknari hefur ekki séð ástæðu til þess að hefjast handa í þessu máli og er hann þó æðsti handhafi ákæruvaldsins. Ef hv. alþm. vita það ekki nákvæmlega get ég sagt þeim að ég get ekki skipað honum fyrir verkum. Ákæruvaldið er sjálfstæður aðili í ríkiskerfinu. Auk þess hefur hæstv. menntmrh. upplýst að nefnd starfi að athugun þessara mála undir forsæti þess manns, sem er óumdeilanlega einhver færasti sérfræðingur landsins í eignarréttarmálum og öðru slíku, en það er Gaukur Jörundsson prófessor.

Ég þarf ekki að segja meira. Ég held að við verðum að bíða eftir því, að þessi nefnd ljúki störfum sem allra fyrst svo að við þurfum ekki að vera að þrátta um þetta mál miklu lengur.