19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

321. mál, húsnæðismál

Albert Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Ég hlustaði á hv. þm. Austurl., Sverri Hermannsson, með athygli. Ekki veit ég hvort ég harma að hann er ekki stjórnarþm. Einhvern tíma á hann kannske eftir að verða stjórnarþm. Hann horfði á mikinn bruna í næsta nágrenni við sig í morgun, sem við hörmum náflúrlega. Þar varð mikill skaði. Ég vona að það hafi ekki komið sót á þær þrifalegu rúður sem hjá honum eru, hann hafi haft gott útsýni.

En þetta mál, sem hér er á dagskrá, er ekkert gamanmál. Hér eru lög brotin af ungum mönnum vegna þess að lögin eru gömul og ná fram í tímann, ná yfir tækni framtíðarinnar. Það eru lög sem eru sett fyrir löngu og ná yfir þá tækni sem er að þróast frá degi til dags. Auðvitað fleygir tækninni fram, við vitum ekkert hvað kemur á eftir myndsegulböndum, en lögin útiloka notkun þeirra tækja sem eiga eftir að koma. Það þarf að endurskoða og það þarf að breyta lögunum og það þarf að leyfa þá starfsemi sem myndvarp heitir á dagskrá hér í dag. Lögin mega ekki hefta þróun tækninnar. Alls ekki má undir neinum kringumstæðum koma í veg fyrir að Íslendingar geti frá degi til dags, frá ári til árs, skulum við segja, nýtt sér það sem er tímans tákn hverju sinni.

Hér eru ungir menn að hrista af sér hlekki sem hefta athafnafrelsi nýrra kynslóða vegna lagasetningar fortíðarinnar. Við skulum hafa það í huga. Þeir eru að grípa tækifærið á líðandi stund. Ungir menn verða að fá að gera það á hverjum tíma. Ég styð frjálsa samkeppni í útvarpi, ég styð frjálsa samkeppni í sjónvarpi, og sjálfstæðismenn hafa ályktað um það frelsi. Ég tel að það eigi að breyta lögunum til aukins frelsis fyrir einstaklingana.