19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

49. mál, útgáfa nýs lagasafns

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Ég vil þakka hæstv. ráðh. hans svör. Eins og fram kemur er þetta allt á síðasta snúningi. En ég skildi hæstv. ráðh. svo, að það ætti að vera tryggt að ekki mundi standa á fjármagni til að útgáfan geti gengið eins hratt fyrir sig og kostur er.

Það má auðvitað hugsa sér margt í sambandi við lagasafnið, löggjafarstarf og annað. Sú hugmynd hefur skotið sér niður, að kannske væri rétt að á bókasafni Alþingis væri lagasafn þar sem inn væru færðar þær lagabreytingar, sem orðið hefðu, með aðgengilegum hætti þannig að þm. gætu þar gengið að lögum eins og þau eru á hverjum tíma. Það er einnig hugsanlegt, að hér á Alþingi sé maður sem komi í stað laganefndar og leiðbeini þm. um hvað séu landslög, hvaða lög gildi um hvaða atriði. Um þetta hef ég oft hugsað, en auðvitað er nauðsynlegt að þær hugmyndir verði betur þróaðar en svo að ég sjái ástæðu til að reyna að gera grein fyrir þeim hér.

Ég sem sagt þakka ráðh. fyrir svör hans og vænti þess, að hann beiti sér fyrir því, að nægilegt fjármagn verði til þess að þetta starf geti gengið eins hratt og kostur er.