19.11.1981
Sameinað þing: 23. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

95. mál, öryggisbúnaður fiski- og farskipahafna

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil nú segja nokkur orð í tilefni af þessari þörfu og ágætu þáltill. sem hér er flutt og flm. hefur fylgt skörulega úr hlaði. Ég fagna því, að þessi mál skuli vera flutt inn á Alþingi í ályktunarbúningi. Ég fagna því m. a. vegna þess að það er nú meira en fjórðungur aldar síðan ég byrjaði að taka þátt í bæði að smíða áskoranir og kröfur á hendur borgaryfirvöldum — bæjaryfirvöldum þá og borgaryfirvöldum Reykjavíkur síðar— á vegum þess stéttarfélags sem ég hef unnið í þennan sama tíma, og reyndar á hendur aðilum sem hér eru nefndir bæði í till. beint og hv. flm. ræddi um og minntist á. Því miður er það rétt sem kom fram hjá honum, að á okkur hefur verið afskaplega lítið hlustað á liðnum árum hér í Reykjavík um öryggismál þeirra sem um Reykjavíkurhöfn þurfa að fara. En hv. flm. benti réttilega á það líka, að þessu er því miður mjög illa farið annars staðar á landinu, víða annars staðar, þótt sumar hafnir eigi hins vegar hrós skilið — eða þeir sem þar stjórna eigi hrós skilið fyrir þann öryggisbúnað sem þeir hafa komið þar upp vegna þeirra sem þar þurfa að ferðast til skips og frá og um bryggjurnar sjálfar. Hvort það sé frekar á Austfjörðum en annars staðar skal ég ekki fara orðum um. En ég þekki til í minni heimabyggð og ég veit að þar má margt gera til úrbóta enn, þótt nokkuð hafi vissulega verið gert þar til úrbóta. En ósköp virðast þykk eyrun á þeim sem stjórna borginni, að ég tali nú ekki um hafnamál Reykjavíkurborgar, þegar rætt er um öryggi sjómanna við umferð í Reykjavíkurhöfn.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram hér um leið og ég þakka flm. fyrir. Það er eitt atriði sem hér hefur komið fram, sem ég er ekki alveg sammála honum um og bið að sjálfsögðu viðkomandi nefnd um að athuga. Ég tel að það þurfi ekki að vera til skaða að nefndarmenn verði fimm, einfaldlega vegna þess að þó ég treysti engum félagsskap betur en Slysavarnafélagi Íslands, sem hefur, eins og flm. réttilega gat um, hina ágætustu menn innan sinna vébanda sem hafa vit á viðkomandi málum bæði frá sjónarhorni þeirra, sem í landi starfa, og eins frá sjónarhorni sjómannanna sjálfra, þá finnst mér kannske of mikið í lagt að þessi áhugamannasamtök séu látin standa ein sem sóknaraðili gagnvart þeim tveim aðilum, sem þarna eiga hlut að máli og eru í raun varnaraðilar. Þar ætti sá þriðji að vera líka, þ. e. sveitarstjórnirnar. Samtök sveitarstjórna ættu því að eiga þarna mann og með Slysavarnafélagi Íslands ætti að vera einn fulltrúi t. d. frá Sjómannasambandi Íslands, en bæði Sjómannasambandið og félög innan þess hafa látið sig þessi mál hvað mestu skipta. Að vísu höfum við sem slíkir flutt þessi mál inn á þing Alþýðusambandsins og í sjálfu sér væri ekkert að því þótt fulltrúi frá ASÍ tæki sæti í fimm manna nefnd sem fjallaði um þetta mál. Ég sé ekki að það verði til skaða, ég tel það af hinu góða og einmitt að sú mikla þekking og góði vilji, sem er til hjá Slysavarnafélagi Íslands, muni nýtast enn betur ef það fái með sér mann til að vinna að þessum úrbótum. bæði tillögugerð og kröfugerð sem sjálfsögð er.