19.11.1981
Sameinað þing: 23. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

95. mál, öryggisbúnaður fiski- og farskipahafna

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera margorður um þessa ágætu till., en ég taldi skylt að koma hér upp og þakka fyrir flutning hennar. Ég fagna því, að það skuli vera varamaður úr Vesturlandskjördæmi sem flytur jafngóða till. inn á þing sem þessi till. er. Ég er ekki að segja að það hefði ekki verið jafngott að það hefði verið aðalmaður. En það er gaman að því, að það skuli vera varamaður, því að ýmsir láta þau orð falla, eins og kom fram í ræðu Helga Seljans, að varamannatillögur séu með ýmsu bragði.

Það eru því miður næg og allt of mörg tilefni til þess, að till. sem þessi sé flutt. Og það má undarlegt heita, að ekki skuli hafa verið tekið á þessu máli miklu fyrr, að þetta mál skuli ekki hafa komið hér inn á hv. Alþingi fyrr. Mér finnst líka dálítið sérstætt að þessi málefni skuli ekki heyra undir Vinnueftirlit ríkisins eða Öryggiseftirlit ríkisins, en mér hefur virst að svo væri ekki. Ég hef verið í hafnarnefnd í rúm 20 ár, og ég man ekki eftir að þangað hafi komið athugasemdir frá Öryggiseftirliti ríkisins eða neinni eftirlitsstofnun um aðbúnað við þá höfn sem ég hef verið hafnarnefndarmaður í. Það virðist því sem þetta stóra vinnusvæði, þ. e. hafnirnar, sé undir mjög takmörkuðu öryggiseftirliti.

Ef maður lítur aðeins í kringum sig við eina höfn, þá eru þar ýmsir hlutir sem stinga í augun strax. Það er t. d. bara lýsing í venjulegri höfn. Yfirleitt er öll lýsing inni á miðjum bryggjum þannig að kantar meðfram bryggjum eru í myrkri við þær aðstæður sem slysin eiga sér oftast stað, þ. e. að næturlagi. Við vitum einnig, eins og tekið var fram af einum ræðumanni, að gæsla við hafnir er víða mjög bágborin. Stigar til þess að komast úr skipi eða í eru yfirleitt illa búnir við hafnir og svo mætti lengi telja. Eins og frsm. benti á eru bryggjukantar mjög víða illa útbúnir, og það snertir ekki aðeins ferð úr skipi og að, heldur líka umferð um hafnarsvæði. Hafa mörg hörmuleg slys átt sér stað af þeim sökum.

Ég vil enn undirstrika það, að ég fagna mjög þessari till., en tek undir till. hv. þm. Péturs Sigurðssonar um það, að ég teldi eðlilegt að fulltrúi Sjómannasambandsins kæmi í þessa nefnd. Ég sé ekki ástæðu til þess að álíta að fimm manna nefnd yrði nokkuð þyngri né verri í störfum en þriggja manna nefnd. Og ég held að það sé nauðsynlegt að fulltrúi sjómanna komi í nefndina, því að einmitt eru það þeir sem þeir annmarkar, sem hér um ræðir, brenna fyrst og fremst á.

Ég vil endurtaka að ég fagna þessari till. og ég vænti þess, að málið fái hér á hv. Alþingi fljóta afgreiðslu og samþykkt.