19.11.1981
Sameinað þing: 23. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

95. mál, öryggisbúnaður fiski- og farskipahafna

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þá þáltill. sem hér liggur fyrir. Hefur maður kannske það helst við hana að athuga að hafa ekki flutt hana sjálfur. Hér er sannarlega gripið á efni sem full þörf er að taka vel og fast á. Ég minnist þess frá því að ég var barn, að þá var maður hvað smeykastur í lífinu — og var maður þó kjarkmeiri þá en nú — þegar maður var að reyna að komast um borð í togara að taka á móti föður sínum. Maður var í beinni lífshættu og maður var handlangaður um borð af 2–3 mönnum. Þessi þáttur, öryggismál í höfnum, er örlagaríkur. Það er talað um að komast heill í höfn og sagt: hann komst heill til hafnar. Svo kemur það bara upp úr kafinu, að mjög víða er höfnin sjálf aðalhættusvæðið. Ég veit að einstaka hafnir hafa gert átak í þessu, en hvergi nægilega nóg. Sannarlega er þörf á því — ekki aðeins að vekja athygli á þessu máli, heldur að gera rækilega úttekt á ástandi þessara mála, því að það er ótrúlegur fjöldi slysa og mannsláta sem auðveldlega hefði mátt forðast.

Ég styð jafnframt brtt. Péturs Sigurðssonar um að samtök sjómanna eigi fulltrúa í nefndinni og Samband sveitarfélaga, sem mundi þá verða Hafnasamband sveitarfélaga væntanlega. Þeir mundu vísa því þangað. En umfram allt samtök sjómanna. Sannleikurinn er sá, að sá slysafjöldi og sú dánartíðni, sem á sér stað í höfnum hér í kringum allt land og auðveldlega hefði mátt afstýra, má ekki viðgangast lengur.

Ég vil aðeins flytja flm. þökk fyrir þessa till., en jafnframt óska eftir því, að þessu máli verði fylgt eftir. Fari það til nefndar verði því skilað hingað aftur og gengið rösklega til starfa. Við höfum ekki efni á að þessi slysafjöldi haldi áfram og sú dánartíðni haldi áfram sem verið hefur, því að í ótrúlega mörgum og kannske flestum tilfellum hafði auðveldlega mátt afstýra slysi. Það verður að hraða þessu máli gegnum þingið og taka rösklega til starfa. Ég þakka flm.