19.11.1981
Sameinað þing: 23. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

98. mál, almannavarnir

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Við höfum, hv. þm. Helgi Seljan, Eiður Guðnason, Guðmundur Bjarnason og ég, leyft okkur að flytja till. til þál. um eflingu almannavarna á þskj. 101, sem er 98. mál þingsins. Það er óþarfi fyrir mig að hafa mörg orð um þetta mál. Þetta er endurflutt mál, sem ekki hlaut afgreiðslu á þinginu í fyrra vegna þess hve seint það var lagt fram.

Hv. þm., sem standa að þessari till., eru úr öllum stjórnmálaflokkum. Tillgr. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera áætlun um eflingu almannavarna í landinu, m. a. með eftirfarandi markmið í huga:

1. Almannavarnir ríkisins verði efldar og þeim tryggður nægur mannafli til að annast aðalverkefni í almannavörnum, þ. e. upplýsingastarfsemi, skipulagsmál, áhættumál, fræðslu- og þjálfunarmál og birgðahald.

2. Þjálfaðir verði umsjónarmenn Almannavarna í hverju kjördæmi landsins, er verði fulltrúar Almannavarna ríkisins í viðkomandi kjördæmi.

3. Komið verði á fót birgðastöðvum Almannavarna í hverju kjördæmi landsins fyrir neyðarbirgðir á sviði slysahjálpar, vistunar heimilislausra, fjarskipta og neyðarlýsingar.

4. Lokið verði við uppsetningu á viðvörunar- og fjarskiptakerfi Almannavarna ríkisins.

5. Með aðstoð ríkisfjölmiðlanna verði skipulögð almenningsfræðsla um varnir gegn náttúruhamförum og annarri vá.

6. Starfs- og hjálparlið Almannavarna verði þjálfað á kerfisbundinn hátt samkv. nánari áætlun þar um.

7. Endurskoðuð verði lög um verkefna- og kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna almannavarna.“ Varðandi uppsetningu á viðvörunar- og fjarskiptakerfi Almannavarna ríkisins skal það tekið fram. að að þessu verkefni er unnið og hefur verið unnið á síðustu árum. Nú þegar hefur orðið talsvert gagn og nokkur árangur af því að hafa slíkt fjarskiptakerfi óháð símakerfi landsmanna. Má í því sambandi nefna nokkur dæmi nýleg frá þessu ári:

1. Þegar víðtækar rafmagns- og sírítabilanir urðu í Vestur-Skaftafellssýslu í janúar s. l. var almannavarnakerfið notað til að samkeyra raforkukerfið og tengja byggðina á ný.

2. Við bæði skipsströndin á Eyjafjalla- og Landeyjafjörum í vetur sem leið var almannavarnakerfið notað til sambands björgunarflokka við heimastöðvar.

3. Alvarleg veikindi nú í september urðu þess valdandi að flytja varð sjúkling flugleiðis í skyndi frá Kirkjubæjarklaustri. Var símasambandslaust við Klaustur. Fjarskiptakerfi Almannavarna var notað til að koma hjálparbeiðnum á framfæri og veita sjúkraflugmanninum leiðbeiningar.

4. Flugvél Ómars Ragnarssonar fréttamanns hlekktist á við Lakagíga nú í október eins og menn muna. Hjálparliði var leiðbeint með flugvél um talstöðvakerfi Almannavarna.

5. Við björgun á líkum bandarískra flugmanna, sem fórust fyrir 28 árum á Mýrdalsjökli og fundust nú í haust, var talstöðvakerfi Almannavarna eina samband björgunarmanna til byggða og var því notað.

6. Í ofsaveðrinu 16. febr. s. l. var haldið sambandi milli almannavarnastjórna, þar sem stöðvakerfi var komið upp þá, og hélst það órofið allan tímann. Má ætla að þær byggðir, sem þá einangruðust, hefðu haldið öruggu sambandi við kerfið ef það hefði verið komið upp þar.

7. Maður hrapaði nú fyrir nokkru úr háspennumastri og slasaðist. Landsvirkjun greip til almannavarnakerfisins og maðurinn var sóttur samstundis í þyrlu.

Hér hafa verið talin ein sjö dæmi þess, að viðvörunar- og fjarskiptakerfi Almannavarna ríkisins hafi verið notað, ekki eingöngu þegar um hefur verið að ræða vá, þegar Almannavarnir láta til sín taka fyrst og fremst, heldur bent á að slíkt kerfi hafi gagn langt umfram það.

Í fimmta atriðinu, sem nefnt er í ályktunargreininni, er minnst á samband ríkisfjölmiðla og Almannavarna. Þess ber að geta, að það eru til reglur um slík samskipti þegar óveður skellur á eða önnur vá ber að dyrum. Hins vegar er miklu minna urri að ríkisfjölmiðlarnir séu nýttir þess á milli til að kenna fólki og leiðbeina því hvernig bregðast skuli við þegar vá verður.

Í grg., sem er nokkuð breytt frá því að till. var flutt í fyrra, er bent á að Almannavarnir hafi nú starfað nálægt 20 árum. Þá er á það minnst sem oft vill gleymast, að hlutverk Almannavarna er mun viðtækara og flóknara en hlutverk áhugamanna í svokölluðum björgunarsveitum, en stundum er Almannavörnum ruglað saman við slíkar björgunarsveitir. Ég vil taka það fram, að björgunarsveitir áhugamanna hafa gegnt veigamiklu hlutverki hér á landi. Eru ótaldar þær vinnustundir sem menn hafa lagt af mörkum, bæði á kostnað atvinnurekenda og eins er til fjöldi dæma um það, að menn hafi tekið sér frí úr vinnu og borið sjálfir kostnað þegar um hefur verið að ræða störf sem björgunarsveitirnar hafa unnið. Þessi till. fjallar ekki um þessar björgunarsveitir. Og ég vil taka það fram, að mér sýnist augljóst að gera verði ráðstafanir til þess, t. d. með breytingum á lögum um viðlagatryggingu, að tryggt sé að slíkar björgunarsveitir geti lifað af verðbólgutíma og óróatíma í efnahagsmálum. En nú er svo komið, að ýmis tækjabúnaður slíkra sveita er svo dýr að vart er hægt að ætlast til þess að samtök áhugamanna geti staðið undir slíkum kostnaði.

Í þriðja lagi vil ég benda á að það gleymist oft að Ísland er eitt þeirra landa í heiminum þar sem náttúruhamfarir eru tíðastar og mestar. Nú fyrir örfáum dögum vorum við minnt á það að við búum hér á eldfjallaeyju. Ekki þarf mikið út af að bregða til þess að erfiðleikar skapist og þá þarf auðvitað viðbúnaður að vera fyrir hendi.

Í fjórða lagi vil ég minna á atriði í grg. þar sem rifjuð eru upp náttúruumbrot alls konar, gos í Vestmannaeyjuml973, snjóflóð í Neskaupstað 1974 og Kröflueldar 1975, sem dæmi um það, að atburðir geti gerst þar sem Almannavarnir og viðbúnaður þeirra koma að góðu gagni.

Til að ná sem mestum árangri í starfi Almannavarna ríkisins er talið æskilegt að stefna að eftirfarandi:

Að samhæfa rannsóknarstarfsemi vísindastofnana með tilliti til upplýsingasöfnunar vegna náttúruhamfara og aðvarana um hættuástand. Enn fremur störf þeirra við áhættumat og nauðsynlegar upplýsingar og ráðgjöf um viðbúnað fyrir almannavarnanefndir héraða.

Að hafa forgöngu um, að áhættumat fari fram, og stuðla að því, að skipulag byggða þróist með tilliti til þess að fyrirbyggja tjón. Er eðlilegt að slík starfsemi fari fram í samvinnu við Viðlagatryggingu sem tekur til allra mannvirkja sem eru brunatryggð.

Að undirbúa, viðhalda og æfa áætlanir um samhæfingu ríkisstofnana, byggðastofnana, félaga og fyrirtækja á neyðartímum.

Að upplýsa almenning um öryggisráðstafanir á einkaheimilum og varnir og hegðun fólks í náttúruhamförum. einnig að þjálfa í sama skyni starfsmenn og hjálparlið. Þar með er átt við hjálparlið björgunarsveitanna, því að auðvitað geta Almannavarnir haft mikilvægu hlutverki að gegna sem samhæfingaraðili fyrir björgunarsveitirnar sem eru nokkrar í landinu. Oft hefur verið bent á það, að of lítið er gert að því að sameina þann kraft sem í þeim býr.

Að koma upp og starfrækja viðvörunar-og fjarskiptakerfi og annan sérhæfðan tæknibúnað vegna almannavarna.

Að lokum vil ég geta þess, að í texta grg., 3. línu að neðan, hefur orðið ritvilla. Þar stendur að nauðsynlegt sé að endurskoða lögin um „hlutverkaskipti“ ríkis og sveitarfélaga, en á að vera: kostnaðar- og verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Hér er vikið að máli sem er afar nauðsynlegt að athuga í núverandi lögum. skiptingu kostnaðar. Er gert ráð fyrir að ríkissjóður beri allan kostnað vegna Almannavarna, en geti krafið sveitarsjóð um helming eða þriðjung í undantekningartilvikum. Þetta atriði þarf að endurskoða þannig að tryggt sé að sveitarfélögin í landinu taki þátt í þessari mikilvægu fyrirbyggjandi starfsemi eins og starfsemi Almannavarna er. Alls staðar í heiminum er skilningur á störfum almannavarna og áætlanir gerðar um það efni. Því miður verður að segja eins og er, að hér á landi er lítið rætt um þessi mál nema rétt þegar þeir atburðir gerast sem valda miklu tjóni, mannskaða eða tjóni á mannvirkjum. Það er ekki nóg fyrir okkur að ræða þessi mál á slíkum tímum. Við verðum að leggja í þann kostnað sem fylgir því að fyrirbyggjandi starf sé unnið með þeim hætti, að hægt sé að bjarga mannslífum og mannvirkjum þegar sú stund kemur að veður eða náttúruhamfarir verða til þess að mannslíf og mannvirki lenda í voða.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Litlar umr. urðu á þinginu þegar þessi þáltill. var lögð fram á s. l. ári. Þó tók einn hv. þm. til máls og tók undir þessi sjónarmið. Eins og ég sagði í upphafi á þetta stuðning í öllum stjórnmálaflokkum. Ég geri því ráð fyrir að málinu verði vel tekið í þeirri nefnd sem fær það til meðferðar og ég geri að till. minni að það verði hv. allshn.