23.11.1981
Efri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hafði reyndar ekki ætlað mér sérstaklega að taka til máls um þetta mál, en umr. hafa snúist þannig, að mér fannst ég þyrfti að leggja hér nokkur orð í belg. Það er sérstaklega vegna ummæla hv. 11. þm. Reykv. sem gengur nú í salinn. Hv. þm. flutti langa ræðu um þetta frv. og fór hörðum orðum um ýmislegt sem viðkemur Hæstarétti.

Hann talaði um að lausung hefði einkennt störf Hæstaréttar og að það frv., sem hér lægi frammi, stóryki lausung í störfum Hæstaréttar, eins og hv, þm. komst að orði, enda lagði hann áherslu á að þessi lausung, sem hann svo kallaði, einkenndi öll störf Hæstaréttar: Það var ekki nóg með þetta, heldur sagði hv. þm. að þetta frv. væri skerðing á lýðræði í landinu. Ég bið menn að taka eftir slíkum fullyrðingum sem þessari.

Hann talaði um aukabitlinga sem viðgengjust til handa hæstaréttardómurum. (ÓRG: Ég notaði ekki það orð, þm.) Ekki aukabitlinga? (ÓRG: Nei, aukastörf.) Ég held nú að hv. þm. misminni. Það vill svo til að ég hafði skrifað þetta undir ræðu hv, þm. og gekk úr skugga um hvort þetta hefði verið misheyrn eða ekki. Í eftirriti af ræðunni, sem ég hef frá Skrifstofu Alþingis, stendur þetta. Það verður ekki um það villst. Ég veit að hv. þm. ber það ekki á mig að ég kunni ekki að lesa.

Hv. þm. gerði hæstaréttardómurum það upp, að þeir hefðu ekki skilning á grundvallarréttaröryggi og meginreglum í stjórnskipun landsins. Allt eru þetta alvarlegar ádrepur.

Hv. þm. sagði að ef svo yrði haldið fram sem nú sýndist með þessu frv. mundi það leiða til verulegra deilna um Hæstarétt Íslands. M. ö. o.: Það er hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að mæta ef svo fer sem nú horfir í þessum efnum, því að þá mun verða efnt til verulegra deilna um Hæstarétt Íslands.

Það voru fullyrðingar sem þessar sem komu mér til að biðja um orðið.

Ég þarf ekki að taka það fram, að hv. þm. bar ekki nein rök fram til stuðnings þeim upphrópunum sem ég hef vikið að. Hins vegar kom hann að atriðum sem hann vildi leggja upp úr og taldi að væru ákvarðandi fyrir afstöðu hans til frv. Hann lét sér mjög tíðrætt um það sem hann kallaði hagræðingarsjónarmið eða það sjónarmið að það þyrfti að fjölga dómendum í Hæstarétti til að létta þar á störfum og koma í veg fyrir þá bið sem verður þar nú á afgreiðslu mála. Hv. þm. virtist komast að þeirri niðurstöðu, að ástandið hefði ekki batnað í þessum efnum frá því að síðast var fjölgað í Hæstarétti, og nefndi í því sambandi ýmsar tölur. Ég skal ekki fara út í slíkan talnaleik vegna þess að tölur segja ekki allt í þessu efni og það kom reyndar fram hjá hv. 11. þm. Reykv. sjálfum. Auðvitað skiptir það ákaflega miklu máli hvers eðlis málin eru. Það verður að segja, og er reyndar augljóst, að á síðari árum er miklu meira um viðamikil og flókin mál sem koma fyrir Hæstarétt en áður var. Má í því sambandi t. d. nefna hin margslungnu og flóknu fjársvikamál sem eru mjög veigamikill þáttur í málum Hæstaréttar.

En þó að hv. 11. þm. Reykv. teldi að ekki hefði batnað ástandið í Hæstarétti við fjölgun hæstaréttardómara og því væri ekki þess að vænta að það batnaði með samþykkt þess frv. sem hér er til umræðu, þá virtist hv. þm. ekki neita því, að það þyrfti umbóta við í Hæstarétti í þessum efnum, það þyrfti að greiða fyrir afgreiðslu mála þar og það ástand, sem nú væri, væri ekki viðunandi.

Hv. þm. nefndi þá sem úrræði í þessu efni, eins og hann orðaði það, að koma upp nýju dómstigi, svokölluðu lögréttudómstigi, og mun þá eiga við frv. það sem lagt var á sínum tíma fyrir Alþingi um lögréttu og náði ekki fram að ganga. Þó að hv. þm. tæki svona til orða, að það þurfi að koma upp eins konar lögréttudómstigi, geri ég ráð fyrir að hann nefni ekki hvaða dómstig eða hvaða millidómstig, sem til greina gæti komið, lögréttudómstig. Það verð ég að kalla í hæsta máta óeðlilegt orðalag.

Ég skal ekki fara að ræða um frv. um lögréttu. Það var ítarlega rætt á sínum tíma. Ég fann þá marga meinbugi á því frv. og varaði við samþykkt þess. Ég sakna þess ekki, að frv. hefur nú ekki verið borið fram á Alþingi.

En það var annað sem hv. 11. þm. Reykv. sagði að gæti verið til bóta og komið í staðinn fyrir fjölgun hæstaréttardómara. Það var að hæstaréttadómarar hættu aukastörfum. Hv. þm. fór mörgum orðum um aukastörf hæstaréttardómara og lét sér sérstaklega tíðrætt um að það kæmi fyrir að hæstaréttardómarar semdu lagafrumvörp. Hann taldi, að þetta væri hin mesta óhæfa, og fór ýmsum háðulegum orðum um þetta starf hæstaréttardómara. Þeir fengju þriggja mánaða sumarfrí m. a. til þess, eins og hann orðaði það, að lesa frumvörpin, sem samþykkt hefðu verið á síðasta vori á Alþingi og þeir hefðu samið sjálfir.

Mér finnst að mjög sé rangt með farið og ómakleg öll þessi ummæli hv. þm. um það sem hæstaréttardómarar hafa gert á þessum vettvangi eða framlag þeirra til samningar frv. til laga. Ég held að það hafi einmitt verið ákaflega þýðingarmikið fyrir íslenskan rétt, það starf sem hæstaréttardómarar hafa unnið á þessu sviði. Það má nefna töluverð dæmi þessu til áréttingar. Það má t. d. minna á hinn merka lögfræðing Einar Arnórsson. Framlag hans til samningar á frv, til laga um meðferð opinberra mála og meðferð einkamála og raunar réttarfarslaga í heild er ákaflega merkt framlag. Það má minna á að þegar Þórður Eyjólfsson var hæstaréttardómari vann hann að samningu frumvarpa sem voru meginstoðin í sjóréttarlögum okkar, eins og t. d. siglingalögin, og auk þess á öðrum sviðum, eins og t. d. höfundalögin. Það má minna á störf Gizurar Bergsteinssonar. Ég man eftir í svipinn t. d. samningu hans á loftferðalögunum. Svona mætti telja áfram.

Ég hef aldrei heyrt það fyrr en í þessum umr. að það væri gert lítið úr og hæðst að störfum hæstaréttardómara í þessum efnum, heldur þvert á móti. Og ég hef aldrei heyrt að þessi störf hæstaréttardómara hefðu komið niður á störfum þeirra í Hæstarétti Íslands. Þetta er nýtt fyrir mér. Hv. 11. þm. Reykv. færði auðvitað engin rök fyrir þessu. Ef það hefur verið svo þegar þessir menn störfuðu, sem ég nefndi, þá held ég að það sé ekki frekar nú. Það er ætlan mín, að það hafi verið meira um það að hæstaréttardómarar semdu frv. til l. í tíð þeirra manna, sem ég nafngreindi áðan, en er núna.

Hv. í 1. þm. Reykv. talaði svo, eins og ég sagði áðan, um aukabitlinga, aukastörf, sem hæstaréttardómarar væru í. Hann nefndi ekki, svo ég muni eftir, neitt einstakt tilvik í þeim efnum annað en að hæstaréttardómari skipaði sæti í Mannréttindadómstól Evrópu. Honum fannst ástæða til að gera það sérstaklega að umræðuefni. Þetta er rétt. Það er svo með þennan merka dómstól, Mannréttindadómstól Evrópu, sem hv. þm. réttilega orðaði svo, að aðildarríki Evrópuráðsins leitast við að kveðja til starfa í þessum dómi sína færustu lögfræðinga. Yfirleitt eru margir hæstaréttardómarar í dómnum. Ég held ég megi segja að nú sé um helmingur dómara í Mannréttindadómstólnum hæstaréttardómarar í viðkomandi ríki. Varaforseti Mannréttindadómstólsins er nú forseti hæstaréttar Noregs. Forseti Mannréttindadómstólsins, sem var í mörg ár, var hæstaréttardómari í Hollandi. Nefna mætti fleiri slík dæmi. Með tilliti til þessa er ekkert óeðlilegt að hæstaréttardómari hér á landi sé kallaður til slíkra starfa, og svo hefur að jafnaði verið frá því að Mannréttindadómstóllinn var stofnaður.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að elta sérstaklega ólar við ummæli hv. 11. þm. Reykv. um aukabitlinga eða aukastörf hæstaréttardómara, en hv. þm. sagði að það ætti að banna hæstaréttardómurum að semja frumvörp til laga. Þetta er stefna út af fyrir sig og hv. þm. getur að sjálfsögðu haft þá stefnu, en harla óeðlilegt finnst mér að gera slíkt sem þetta.

Þá var það annað atriði sem hv. 11. þm. Reykv. ræddi nokkuð um. Það var um deildaskiptingu Hæstaréttar. Hann taldi deildaskiptingunni ýmislegt til foráttu og taldi að hún gæti raunverulega valdið slíkri lausung og losi á störfum Hæstaréttar að ekki væri viðunandi. Það var helst að skilja á hv. þm., að ef menn hefðu sérskoðanir og hefðu kannske kynnt sér sérstaklega einstök viðfangsefni og löggjafaratriði, þá mundu þeir keppast um að komast í þá deild Hæstaréttar, sem væri að fjalla um mál sem kæmu inn á þessi atriði sem þeir hefðu sérstakan áhuga á. Hv. þm. fór nokkrum orðum um þetta. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta sérstaklega. Mér virðist að þetta sé alger heilaspuni hjá hv. þm. og þetta sé í raun og veru ekki raunhæft. Það kynni að vera, að í vísindum eins og félagsvísindum gætu menn verið eitthvað að taka tillit til svona atriða, — vísindum sem eru ekki eins nákvæm og lögvísindin. Þó efast ég um að þessi sjónarmið, sem hv. þm. var með, eigi sér stoð í veruleikanum, hvorki þar né varðandi Hæstarétt.

Það var eitt sem hv. þm. sagði og ég fæ ekki skilið hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu. Hann taldi sératkvæði dómenda ekki af hinu góða. Ekki skal ég deila um gildi sératkvæða dómenda sérstaklega. En hann taldi að sératkvæðin mundu mjög aukast ef Hæstiréttur væri deildaskiptur. Þetta fékk ég ekki skilið frekar en margt af því sem hv. þm. sagði um deildaskiptinguna. Í þessu sambandi mættum við kannske líta á hæstarétti landa sem eru okkur skyld. Þá koma manni í hug Noregur og Danmörk. Í Noregi má ég segja að sé 21 hæstaréttardómari og þeir vinni í allt að fimm dómaradeildum. Ég hef ekki heyrt hvernig þessi skelfing, sem hv. 11. þm. Reykv. boðar að muni koma yfir okkur hér ef Hæstiréttur Íslands er deildaskiptur að einhverju leyti eða í einstökum málum, komi saman við reynsluna í Noregi. Hæstiréttur Dana er líka deildaskiptur. Mér er ekki kunnugt um að sú skipan stofni lýðræðinu í hættu í Danmörku eða skapi þá lausung í störfum Hæstaréttar sem hv. þm. vill meina að mundi ógna Hæstarétti Íslands, ef þetta frv. verður samþykkt, sem við nú ræðum, og möguleikar verða til deildaskiptingar Hæstaréttar við meðferð einstakra mála.

Ég veit ekki hvort það hefur átt að vera sem fyrirvari h já hv. þm. eða til áréttingar hans málstað í þessu máli að hann sagði að hann gæti verið talinn íhaldssamur þegar menn heyrðu þessar skoðanir hans. Hann sagði eitthvað á þá leið, að hann kærði sig kollóttan um slíkt. Það er góðra gjalda vert að menn beri ekki kinnroða fyrir því að vera íhaldssamir. Ég veit að hv. 11. þm. Reykv. hefur margar góðar hliðar og á í ýmsum efnum kyn að rekja til íhaldssemi, eins og við frændur fleiri. En ég fæ ekki betur séð en þessi íhaldssemi hjá hv. 11. þm. Reykv. gangi helst til langt. Þó að íhaldssemin sé góð þarf að hafa hana í hófi eins og flest annað. En það finnst mér ekki vera hjá hv. þm., því að ég fæ ekki séð betur en öll þau rök, sem hv. þm. hefur fært gegn fjölgun í Hæstarétti núna, hefðu alltaf getað gilt. Hann hefði þess vegna átt að búa við það ástand, sem upphaflega var þegar Hæstiréttur var stofnaður, að hafa bara þrjá dómendur. Allt, sem hv. 11. þm. Reykv. hefur sagt í þessum umr. gegn þessu frv., hefði eins getað átt við andstöðu við að fjölga nokkurn tíma í Hæstarétti.

Hv. þm. sagði að það lægi fyrir tilraun af hálfu hæstaréttardómara til að skapa hættulega lausung í Hæstarétti. Þetta er nokkuð alvarlegur áburður á hæstaréttardómara. En ef þetta er rétt, hvað er það hjá þeirri ábyrgð sem þeir valda sem bera fram þetta frv. og leggja það fram á hv. Alþingi? Það eru ekki hæstaréttardómararnir. Það er ríkisstjórn Íslands sem gerir það. Þetta er stjfrv. Samkv. þessu á þá ríkisstj. að vera að gera tilraun til að skapa hættulega lausung í Hæstarétti og svo er annað sem því fylgir, en það er skerðing á lýðræðinu í landinu, o. s. frv., eins og ég hef vikið að áður í sambandi við fullyrðingar hv. þm. Mér finnst að þetta sé alvarlegasti áburðurinn sem hefur komið fram á hendur núv. ríkisstj., ég verð að segja það. En ég er þessu ekki samþykkur. Þessi undantekning staðfestir auðvitað regluna, að flest er miður gert sem hæstv. ríkisstj. gerir, en í þessu efni þykir mér hún vera á réttri leið.

Ég talaði um ábyrgð ríkisstj. Það er ekki nóg með það. Hverjir bera ábyrgð á ríkisstj.? Hver er þá ábyrgð hv. 11. þm. Reykv. í þessu efni? Er hún ekki ærin ef hann stendur að því að styðja og halda uppi ríkisstjórn sem gerir sig bera að svo vítaverðu athæfi sem hv. þm. vill meina? Nú kemur mér ekki annað til hugar en hv. þm. meini það sem hann segir, honum sé þetta hjartans mál, að hann telji í raun og veru að það sé slíkur voði á ferðum sem hann hefur greint frá við að frv. þetta verði að lögum. En ef hv. þm. meinar þetta spyr ég: Hvernig getur hann verið aðili að þessu athæfi þessari óhæfu, og stutt ríkisstj. sem þannig hagar sér? Ég átti von á að hv. þm. lýsti því yfir eftir sinn reiðilestur, að ef frv. yrði ekki stöðvað af hálfu ríkisstj. væri lokið stuðningi hans við ríkisstj. Ég sé ekki betur en það væri eðlilegt — sérstaklega með tilliti til þess að ég vil ekki ætla að hv. þm. sé að fara með neitt gaspur í svo þýðingarmiklum málum sem þessum. En til þess að vera sanngjarn gagnvart þessum ágæta hv. þm. vil ég segja að ég get skilið að hann skuli ekki þegar vera búinn að gefa þessa yfirlýsingu, en þá ætla ég að það sé með tilliti til þess, að hann hugsi sér að vinna að því að málið hafni nú í nefnd og komist ekki lengra. Við mættum þá eiga von á yfirlýsingu frá hv. þm. síðar, ef þessar vonir hans brygðust og ríkisstj. héldi málinu til streitu.

Ég vil að síðustu aðeins segja það, sem kom fram fyrr í máli mínu, að ég held að þetta frv. sé betri kostur en frv. það til lögréttu sem hér hefur áður verið borið fram og vikið hefur verið að. Ég tel að það sé spor til bóta að fjölga dómurum í Hæstarétti um einn, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég sé ekki að það séu nein haldbær rök gegn frv. og allra síst þau svokölluðu rök sem hv. 11. þm. Reykv. hefur hér teflt fram og ég hef vikið að.