23.11.1981
Efri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka það umburðarlyndi forseta að fá að gera hér örstutta aths. Ég held að það sé nauðsynlegt vegna þess furðulega ræðuflutnings, sem hér kom fram hjá hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, og enn fremur til að koma á framfæri við hv. deild algerlega nýju skjali í þessu máli sem ég held að sé nauðsynlegt að hv. þm. viti af og heyri áður en umr. halda lengra áfram. Það er skjal sem hópur færustu lögfræðinga á Íslandi hefur sett fram um þetta mál.

Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson vék aðeins að þeim tölum sem ég nefndi í fyrri ræðu minni. Það eru þær tölur sem eru í grg. frv. Þær tölur í grg. eru meginröksemdin í sjálfri grg. það eru ekki tölur sem ég hef búið til. Það eru tölur sem aðstandendur frv., höfundar þess, dómarar Hæstaréttar, hafa sjálfir sett fram.

Í öðru lagi er það rangt hjá hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, að ég hafi sagt að sératkvæðum mundi fjölga ef þetta frv. yrði samþykkt. Ég sagði hins vegar að mér hefði verið tjáð, og tók skýrt fram að ég hefði ekki tölur um það við höndina, að sératkvæðum í dóminum hefði fjölgað á undanförnum árum, eftir að fyrri breytingar voru gerðar. Ég óskaði eftir að nákvæmar upplýsingar um það efni yrðu lagðar fram svo að hægt væri að draga af því ályktanir.

Í þriðja lagi er það að vísu rétt, að hv. þm. gat fundið í löngum kafla í minni ræðu um önnur störf hæstaréttardómara á einum stað í innskotssetningu orðið „aukabitlingur“. Sýnir það best hvað hv. þm. er góður og nákvæmur lesandi minna ræðna. En þótt þetta orð megi finna þarna í aukasetningu á einum stað er hitt alveg ljóst, að ég var ekki í sjálfu sér að fara niðrandi orðum um þessi störf, sem ég í öllum mínum málflutningi nefndi eingöngu önnur störf sem þessir dómarar stunda. Ég var að vekja athygli á því, að það kynni að standa réttinum fyrir þrifum að slíkt væri tíðkað.

Í fjórða lagi vakti ég athygli á því varðandi lausungina, að það hefur þegar verið farið inn á þá braut og á að halda lengra samkv. þessu frv. að skipta dómnum í deildir eftir málum. Það eru engar reglur til um á hvaða grundvelli eigi að skipta réttinum í undirdeildir og undirdóma eftir hinum einstöku málum. Mér vitanlega eru þær reglur hvergi til skráðar. Mér finnst það skapa lausung þegar borgarar í þessu ríki, þeir sem flytja mál fyrir dómstólnum, geta hvergi flett því upp eða fengið lýsingar á því, eftir hverju er farið þegar ákveðið er hvers konar tegund af dómi skal vera í hverju máli um sig. Sá vettvangur, þar sem það uppgjör fer fram, liggur hvergi fyrir. Það eru eingöngu samræður dómaranna sjálfra sem virðast þar ráða. Utanaðkomandi aðilar geta með engum hætti kynnt sér hvernig metið er með hvaða hætti þeirra mál eru úrskurðuð í þessa tegund af dómi, en ekki aðra. Það liggur ekki fyrir ákveðinn grundvöllur um það, sem geri okkur kleift að meta frá ári til árs hvort það eru sambærilegar ástæður eða sambærileg rök sem þarna liggja að baki hverju sinni. Þetta, herra forseti, leyfi ég mér að kalla lausung og það er það að mínum dómi. Ef það er ekki höfuðatriði í störfum Hæstaréttar með hvaða hætti er ákveðið hvernig dómurinn skuli skipaður í hverju máli um sig, ef það er ekki höfuðatriði í störfum dómstólsins veit ég ekki, hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, hvað er höfuðatriði. Reyndin er sú, að um þetta höfuðatriði liggja ekki fyrir neinar reglur og dómararnir virðast hafa það í hendi sér frá mánuði til mánaðar, ári til árs, hvernig þeir ráða þessum málum. Þeir, sem þurfa undir réttinn að sækja, geta hvergi gengið að því og kannað á hvaða grundvelli slíkt mat yrði framkvæmt.

Ég óskaði, herra forseti, eftir upplýsingum í mínum fyrri ræðum. Ég vil endurtaka þær óskir svo að hæstv. dómsmrh. heyri þær hér úr ræðustól og sú nefnd, sem að þessu máli vinnur, geti tryggt að þær upplýsingar komi. Ég nefni aðeins þrjá meginflokka slíkra upplýsinga:

Það er í fyrsta lagi skrá yfir öll þau frumvörp, öll þau störf, allar þær nefndir og ráð sem hæstaréttardómarar hafa verið tengdir við utan við sín störf í réttinum á undanförnum 7–9 árum, svo að það þurfi ekki að vera að leiða að því einhverjar getur, hér í þingsölum, heldur sé hægt að fá það nákvæmlega fram, hvernig störfum dómaranna hefur verið háttað. Ég vænti þess, að það standi ekki á að þessar upplýsingar verði lagðar fram í tæmandi og ítarlegri skrá um þetta efni.

Í öðru lagi verði lögð fram skrá yfir hverjir hafi skipað dóminn í hinum einstöku málum sem dæmd hafa verið á undanförnum 5–6 árum, þannig að hægt verði að skoða hver sé reyndin varðandi skipan dómsins þegar honum er skipt í undirdeildir, hvort dómararnir gangi þá í þær tegundir dóma í röð eða hvort það séu einhverjir sérstakir dómarar sem séu frekar valdir í þessar tegundir af málum o. s. frv., þannig að það sé komið upp í dómstólnum sjálfum einhvers konar undirkerfi í reynd. Að mínum dómi væri það óeðlilegt miðað við eðli dómstólsins. — Mér finnst nauðsynlegt að vita hvort handahóf ræður því, hvernig dómstóllinn er skipaður, hvort einhverjar reglur eru eða ekki.

Í þriðja lagi tel ég rétt að fá skrá yfir þau sératkvæði sem komið hafa fram í dómstólnum á s. l. 10 árum svo að menn geti áttað sig á því, hvort þeim hafi fjölgað eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar, að ef sératkvæðum hafi fjölgað bendi það til ákveðinnar lausungar. Það bendir til að það ríki meiri vafi um það, hver sé réttur skilningur laganna, en æskilegt sé í réttarríki.

Ég ætla ekki, herra forseti, að nota mikinn tíma hér. Ég held þó að það sé óhjákvæmilegt að ég taki hér örfáar mínútur í viðbót vegna þess að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson sagði að ég hefði verið upphafsmaður að deilum um réttinn og ég hefði lýst yfir að mér yrði þá að mæta ef þetta frv. yrði samþykkt. Þetta er alrangt. Þetta sagði ég hvergi. Það er eins og fleira í ræðu hv: þm. Ég vakti hins vegar athygli á því, að það hefðu þegar hafist í dagblöðum, og vitnaði í Dagblaðið 11. nóv. sem dæmi um það, deilur milli sumra lærðustu lögfræðinga landsins annars vegar og dómara réttarins hins vegar um hvort það frv., sem hér væri flutt, væri brot á stjórnarskránni eða ekki. Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson minntist hins vegar ekki einu orði á þetta atriði í ræðu sinni. Það var mjög sérkennilegt, einkum og sér í lagi þegar hann var að vitna undir lokin til vísindalegs eðlis lögfræðinnar. Það voru ekki mjög vísindaleg vinnubrögð að víkja sér algerlega undan að ræða það sem að mínum dómi er eitt af höfuðatriðum þessa máls, að nokkrir í hópi færustu lögfræðinga landsins telja álitamál hvort þetta frv. standist stjórnarskrána eða ekki. Ég endurtek, að það er athyglisvert að hv. þm. Þorv. Garðar skaut sér undan að ræða það mál.

En hvað á nú hv. Alþingi að gera? Það hefur fengið hér frv. sem sumir lærðustu lögfræðingar landsins — ég mun koma nánar að því á eftir — telja að sé brot á stjórnarskránni. Er þá ekki eðlilegt að vísa frv. til umsagnar til Hæstaréttar, eins og oft er gert? Það eru okkar venjulegu vinnubrögð í sumum tilvikum. Segjum að það verði gert. En hverjir hafa þá samið þetta frv.? Það er hinn sami Hæstiréttur sem á að veita Alþingi umsögn um hvort eigin verk hans séu brot á stjórnarskránni eða ekki, m. ö. o.: hann er orðinn dómari í eigin sök. Er það ekki lausung, hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson? Er það ekki dæmi um það, í hvert óefni er komið með öllum þessum málatilbúnaði? Það vita allir að hæstv. ríkisstj. hefur ekki samið þetta frv. Það kemur skýrt fram í grg. Það sitja að vísu í þessari ríkisstj. góðir lögfræðingar, ágætismenn, en þeir hafa ekki samið þetta frv. Þeir hafa eingöngu tekið að sér að flytja það á Alþingi. Það er þriðji armurinn í stjórnarskipun landsins, Hæstiréttur sjálfur, sem hefur samið þetta frv. — Mér finnst satt að segja fyrir neðan virðingu okkar að fara að blanda einhverju karpi stjórnar og stjórnarandstöðu um ríkisstj. inn í þetta mál. Hún kemur þessu máli ekkert við. Þessi ríkisstj. var ekki mynduð um Hæstarétt og henni verður ekki slitið heldur út af Hæstarétti. Kjarni málsins er sá, að það er Hæstiréttur sjálfur sem hefur óskað eftir að þetta frv. um hann sjálfan og eftir hann sjálfan verði flutt á Alþingi sem síðan á að senda honum sjálfum til umsagnar.

Herra forseti. Ég vék að því áðan, að annað megintilefni mitt hér upp í ræðustólinn er það, að mér barst í hendur í sæti mitt áðan greinargerð frá nokkrum virtustu og færustu lögfræðingum þessa lands. Það er greinargerð sem undirrituð er af Steingrími Gauti Kristjánssyni, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Birni Þ. Guðmundssyni, Baldri Guðlaugssyni, Stefáni Má Stefánssyni, Friðgeiri Björnssyni, Má Péturssyni, Hrafni Bragasyni, Birni Friðfinnssyni og Eiríki Tómassyni. Í þessum hóp eru prófessorar við Háskóla Íslands í lögum. Í þessum hóp eru ýmsir þeir sem gegna virtustu dómarastörfum við dómstigin sem eru næst Hæstarétti sjálfum. Í þessum hóp eru menn sem kenna stjórnskipunarrétt við Háskóla Íslands í dag, sem eru aðalkennarar Háskóla Íslands í dag, sem eru aðalkennarar Háskóla Íslands í stjórnskipunarrétti þennan vetur. Í þessum hóp er maður sem hefur verið aðstoðarmaður dómsmrh. Í þessum hóp eru menn sem hafa gegnt forustustörfum fyrir lögfræðinga í þessu landi. Ég ætla að ljúka máli mínu með því að lesa fyrir hv. deild þá greinargerð sem frá þessum hóp hefur komið, því að ég tel alveg nauðsynlegt, með sérstöku tilliti til þess málflutnings sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson leyfði sér að viðhafa áðan, að reyna að flytja umr. á nýjan leik yfir í efnislegar umr. um Hæstarétt sjálfan og dómskipunina í landinu og hverfa frá þeirri tegund af pólitísku karpi sem mér fannst einkenna sérstaklega seinni hlutann af hans ræðu. Við stöndum frammi fyrir því hér á hv. Alþingi, að við höfum fengið í hendur frv. um Hæstarétt Íslands sem þegar eru hafnar alvarlegar deilur um utan þings í hópi þeirra manna sem kenna lögfræði, veita forustu helstu dómstigum landsins og eru meðal virtustu yngri fræðimanna í lögfræðingastétt. Það vill svo til að í þessari greinargerð er tekið undir sumar af þeim röksemdum, sem ég flutti í minni ræðu, og tekið undir þær efasemdir sem ég setti hér fram.

Ég vil að lokum, herra forseti, áður en ég les þessa greinargerð, ítreka það sem ég sagði áðan, að nauðsynlegt er fyrir hv. Alþingi að gefa sér góðan tíma til að athuga þetta frv., hvort Alþingi vill samþykkja frv. í núverandi formi eða hvort Alþingi telur nauðsynlegt að gera á því viðamiklar breytingar, ekki renna því í gegn óbreyttu á færibandi einfaldlega vegna þess að Hæstiréttur landsins eigi hér hlut að máli. Við verðum því miður að horfast í augu við þá staðreynd, að dómarar í Hæstarétti hafa sent til Alþingis frv. um Hæstarétt sem er þannig unnið að í því eru svo mörg vafamál, svo mörg atriði sem geta valdið deilum um þennan æðsta dómstól í landinu og skapað lausung í störfum hans, að það er algerlega nauðsynlegt að Alþingi sem annar af þremur meginörmum ríkisvaldsins og lýðræðisskipulagsins í þjóðfélagi okkar viti nákvæmlega hvað það er að gera þegar það samþykkir þetta frv. um þann þriðja af þessum meginörmum ríkisvaldsins og lýðræðisins í landinu sem við erum hér að fjalla um.

Herra forseti. Sú greinargerð, sem þessi hópur virtra lögfræðinga, sem ég nefndi hér áðan, hefur sent þm., er á þessa leið:

„1. Ákvæði 61. gr. íslensku stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 er byggt á því, að umboðsstarfalausir dómendur skuli skipaðir til óákveðins tíma. Fræðimenn, sem ritað hafa um 61. gr. íslensku stjórnarskrárinnar eða sambærilegt ákvæði í dönsku stjórnarskránni, eru í aðalatriðum sammála um þessa skýringu, sbr. t. d. Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson, útg. 1955 í Reykjavík, bls. 278–279, ný útgáfa 1978 í Reykjavík, bls. 276–279, Dansk statsforfatningsret eftir Poul Andersen, útgefin í Kaupmannahöfn 1960, bls. 158–159, og Dansk statsforfatningsret 2. bindi eftir Alf Ross útgefin í Kaupmannahöfn 1960, bls. 466–467.

Efnisrökin að baki reglunni eru mikilvægi þess, að dómarar séu sjálfstæðir og óháðir í störfum sínum. Hér er leitast við að koma í veg fyrir að framkvæmdavaldið geti beitt dómara þrýstingi, en einmitt slíkt ástand gæti skapast við það að dómarar væru settir eða skipaðir til ákveðins tíma. Þetta á sérstaklega við þegar atvik benda til þess, að áframhaldandi setning að fyrra tímabilinu loknu sé ekki útilokuð, sbr. t. d. fyrrgreint rit, Dansk statsforfatningsret, 2. bindi, bls. 466. Ljóst er t.d. að erfitt væri að fylgjá fram banni 61. gr. íslensku stjórnarskrárinnar við því að víkja umboðsstarfalausum dómara úr embætti nema með dómi ef almennt mætti setja eða skipa dómara til tiltekins tíma. Þá er einnig vandséð hvernig ákvæði sömu greinar um að dómari skuli ekki missa neins í af launum, þegar starfstíma hans lýkur, samrýmist því fyrirkomulagi sem frv. gerir ráð fyrir.

2. Ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstætt og óháð dómsvald eru byggð á meginreglunni um þrígreiningu ríkisvaldsins. 61. gr. stjórnarskrárinnar er einungis staðfesting á þeirri meginreglu að því er dómara varðar. Af framansögðu leiðir að allar lagaheimildir, sem fela í sér skerðingu á því réttaröryggi sem 61. gr. stjórnarskrárinnar veitir, verður að rökstyðja sérstaklega ef þær eiga að teljast hafa gildi. Því meira sem frávikið er, þeim mun rækilegri verður rökstuðningurinn að vera.

3. Í bráðabirgðaákvæðum fyrrgreinds frv. er gert ráð fyrir því, að dómarar séu settir í nýjar „stöður“. Þarna er því ekki um sambærilegt tilvik að ræða og um getur í 4. gr. laga nr. 73/1975, en þar er gert ráð fyrir að unnt sé að setja dómara í tilteknu máli eða í tiltekinn tíma sé um forföll reglulegs dómara að ræða eða leyfi frá störfum um stundarsakir eða þegar sæti hans verður autt af öðrum ástæðum. Umrædd lagagrein gerir ráð fyrir því, að dómari sé settur í stað annars fasts dómara sem hverfur frá störfum um stundarsakir. Munurinn er m. a. fólginn í því, að hinar nýju „stöður“ gefa auknar líkur um framlengingu setningartímans. Umræddri 4. gr. er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að mæta vissum ófyrirséðum atburðum, sem gera það að verkum að hinn reglulegi dómari getur ekki rækt starf sitt um stundarsakir. Heimildinni ber að beita í hófi samkv. stjórnarskráheimildum þeim sem fyrr var getið. Sé þess ekki gætt og dómari t. d. settur til lengri tíma kynni slíkt tilvik að vera talið andstætt 61. gr. stjórnarskrárinnar, jafnvel þótt um setningu fyrir annan sé að ræða, allt þó nánar eftir aðstæðum hverju sinni.

4. Það hefur lengi tíðkast að setja dómara til skamms tíma í Hæstarétti. Þau fordæmi eru ekki sambærileg og geta ekki orðið til þess að skjóta stoðum undir þá skipan sem nú er fyrirhuguð með bráðabirgðaákvæði fyrrgreinds frv. Þetta verður ljóst ef bornar eru saman forsendur, tímalengd og umfang á þessum setningum í hverju tilviki fyrir sig. Framkvæmdin í Hæstarétti hefur hingað til verið sú, að í öllum tilvikum var um setningu í stöðu annars dómara að ræða vegna orlofs eða forfalla. Í einu tilviki var einn dómari settur í nær tvö ár vegna leyfa hins reglulega dómara. Þar er að vísu um æðilangan tíma að ræða, en þó setning fyrir annan. Í öðru tilviki var dómari settur í nokkur ár. Stóð svo á, að ákveðin hafði verið fækkun hæstaréttardómara úr 5 í 3 í sparnaðarskyni með lögum frá 1924. Sú breyting átti þó ekki að koma til framkvæmda fyrr en sæti tveggja fastra dómara losnaði. Í septembermánuði 1923, þegar menn þóttust sjá fram á lagabreytinguna, lést einn af dómurum Hæstaréttar og var þá annar settur til að gegna stöðu hans þar til sæti annars fasts dómara losnaði. Hér var um mjög sérstætt tilvik að tefla. Verið var að koma nýrri skipan á dómstólana og enn var um setningu að ræða í stöðu annars.

5. Bráðabirgðaákvæði fyrrgreinds frv. um setningu dómara ganga lengra en áður eru dæmi til. Nefna má fáein atriði:

a. Þeir eru ekki settir í stöðu annars dómara, heldur er hér gert ráð fyrir nýjum stöðum þar sem um endurtekna skammtímasetningu gæti orðið að ræða, en einmitt sú tilhögun er til þess fallin að móta annað viðhorf hins setta dómara til stöðunnar þegar fram líða stundir. Slíkt veikir tiltrú almennings til dómstólanna.

b. Gert er ráð fyrir að settir dómarar verði tveir eða þrír, sem er hátt hlutfall miðað við þann fjölda dómara sem fyrir eru.

c. Samkv. frv. er við það miðað, að umræddar heimildir geti gilt í tvö ár hið lengsta. Þetta telst langur tími miðað við þau störf sem hér ræðir um. Samkv. grg. með frv. ber auk þess að „taka málið til athugunar á ný“ að þeim tíma liðnum. Ljóst er því, að höfundar frv. (þ. e. hæstaréttardómarar) útiloka ekki að um áframhald geti orðið að ræða.

6. Ákvæði frv. til bráðabirgða verður ekki rökstutt — a) með því að vísa til reynslu Finna, þar sem ákvæði 53.–60. gr. stjórnarskrár Finna eru alls ekki sambærileg ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar um þau atriði sem hér skipta máli, — b) með því að vísa til fordæmis Norðmanna eftir síðari heimsstyrjöldina því að ástand þjóðmála í Noregi á þeim tíma er alls ekki sambærilegt við ástandið á Íslandi nú, — c) með því að vísa til þess, að um neyðarráðstöfun sé að ræða, því að auðvelt er að sýna fram á aðrar leiðir sem í aðalatriðum leiða til sömu niðurstöðu, en rýra þó ekki sjálfstæði dómstólanna. Þessar leiðir hefðu varla verulega aukin útgjöld í för með sér. Má reyndar taka fram, að aukin útgjöld í þessum mæli geta aldrei talist grundvöllur undir neyðarrétti, sem réttlætt geta frávik frá stjórnarskránni, — d) með því að vísa til þess, að dómarar til bráðabirgða verði alltaf í minni hluta í Hæstarétti. Ekkert segir það í fyrirliggjandi frv. að umræddir dómarar skuli ávallt vera minni hluti dómara í hverju máli. Auk þess styrkir það tæpast traust almennings á Hæstarétti að skipta dómurum hans þannig í flokka, — e) með því að vísa til þess, að dómarar til bráðabirgða verði aðeins settir samkv. tillögum Hæstaréttar. Sá stuðningur, sem þetta kann að veita, er veikur miðað við þá tryggingu sem stjórnarskráin veitir dómendum. Kjarni málsins er krafa stjórnarskrárinnar um skipan dómara til ótiltekins tíma.

7. Verði umrætt frv. um dómara til bráðabirgða að lögum er stigið varhugavert skref í sögu íslenskrar dómaskipunar.

a) Því kann að vera haldið fram, að um sé að ræða brot á 61. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. Í þessu sambandi skal á það bent, að líklegt er að einmitt komi til kasta Hæstaréttar sjálfs að skera úr um það, hvort umrætt bráðabirgðaákvæði fái staðist samkv. 61. gr. stjórnarskrárinnar. Í grg. með frv. kemur fram, að það sé samið af dómurum Hæstaréttar. Ef úrlausnarefni þetta kemur til kasta Hæstaréttar er líklegt að allir hinir reglulegu dómarar Hæstaréttar verði að víkja sæti samkv. 6. gr. laga nr. 75/1973.

b) Jafnvel þótt menn treysti sér ekki til að fullyrða alveg um að umrætt bráðabirgðaákvæði fari verulega í bága við stjórnarskrána má vekja athygli á að hér er stigið nýtt skref sem gengur gegn meginhugsjón 61. gr. hennar. Vekur athygli að lögmæti þessarar breytingar er m. a. rökstutt með fyrri skrefum á sömu braut sem ekki hafa náð jafnlangt. Er þá eins víst að bráðabirgðaákvæðið, ef að lögum verður, verði síðar notað til rökstuðnings því að enn lengra megi ganga. Hlýtur þetta að vera umhugsunarefni.

c) Verði frv. að lögum má ætla, að Hæstiréttur dragist inn í umræður um það hvort hann sé löglega skipaður eða ekki. Slíkar umræður eru til þess fallnar að rýra álit Hæstaréttar út á við. Yrði það að telja illa farið.

Reykjavík, 20. nóvember 1981.

Steingrímur Gautur Kristjánsson.

Björn Þ. Guðmundsson.

Stefán Már Stefánsson.

Már Pétursson.

Björn Friðfinnsson.

Jón Steinar Gunnlaugsson.

Baldur Guðlaugsson.

Friðgeir Björnsson.

Hrafn Bragason.

Eiríkur Tómasson.“

Herra forseti. Ég þakka umburðarlyndi forseta að hafa gefið mér tækifæri til þess, þótt ég hafi talað áður tvisvar í þessu máli, að flytja þetta efni hér inn í umr. Ég vonast til að greinargerðin sem í stórum dráttum er mjög í sama dúr og þær röksemdir sem ég hef fyrr flutt í þessum umr., verði til þess að hv. Alþingi taki þetta frv. til alvarlegrar meðferðar, láti það ekki verða fórnarlamb einhvers konar karps milli stjórnar og stjórnarandstöðu, heldur skoði hver og einn þm. það sem stjórnarskrárlega og lýðræðislega skyldu sína að ganga úr skugga um að hann sé viss um að þegar frv. verður afgreitt frá Alþingi verði það í þeim búningi sem sæmir réttarríki, sem styrkir lýðræði landsins og svarar þeim efasemdum til fullnustu sem þessi hópur virðulegustu lögfræðinga landsins hefur hér sett fram. Við skulum huga að því, að ef við lítum til þess, hverjir hafa orðið dómarar í Hæstarétti á undanförnum áratugum, þá hafa þeir einmitt verið valdir úr hóp manna, sem á yngri árum hafa skipað þær stöður sem þeir einstaklingar, sem að þessari greinargerð standa, skipa nú. Í þessum hóp sem sendir þessa greinargerð frá sér eru einstaklingar sem að nokkrum árum liðnum og jafnvel þegar kæmu fyllilega til álita starfs síns vegna að verða virðulegir dómarar í Hæstarétti Íslands.