19.10.1981
Efri deild: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

4. mál, orkulög

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr, er flutt af mér ásamt Agli Jónssyni, Eyjólfi Konráð Jónssyni, Guðmundi Karlssyni, Lárusi Jónssyni og Salome Þorkelsdóttur. Þetta frv. til orkulaga var flutt á síðasta þingi, en fékk þá ekki afgreiðslu. Frv. er núna endurflutt óbreytt, nema ákvæði um gildistíma. Með tilliti til þessa, að þetta mál er kunnugt hér í deildinni og ég veit að hv. dm. leggja sér á minni það sem ég ræði um þessi mál, og ég ræddi þau mjög ítarlega í framsögu fyrir frv. á síðasta þingi, þá mun ég leitast við að endurtaka sem minnst, en þykir þó við hæfi í svo stóru máli sem þessu að hafa nokkra framsögu. Ég segi í jafnstóru máli og þessu, því að þetta mál varðar skipulag orkumálanna og það eru þau mál sem hafa verið ákaflega mikið á dagskrá á undanförnum árum, eins og mönnum er kunnugt.

Þetta frv. á sinn aðdraganda með tilliti til þeirrar miklu umræðu sem hefur verið um þessi mál. Það bar við í janúar 1977 að þáv. iðnrh., Gunnar Thoroddsen, skipaði nefnd til þess að endurskoða orkulög og gera tillögur um heildarskipulag og yfirstjórn orkumála. Þessi nefnd skilaði tillögum sínum í okt. 1978. Þrátt fyrir þetta kom ekki fram frv. til nýrra orkulaga, eins og þessi skipulagsnefnd orkumála hafði lagt til. Það komu til valda nýjar ríkisstjórnir og þær létu þetta undir höfuð leggjast. Þess vegna var það, að á síðasta Alþingi lögðum við sjálfstæðismenn sem erum flm. að þessu frumvarpi, frv. fram til þess að freista þess að málið næði fram að ganga það mál sem grundvöllur var lagður að með starfi skipulagsnefndar orkumála, þeirrar sem ég nefndi áðan.

Þessi nefnd, sem ég vitna til, var að öllu leyti sammála um það frv. sem hér er lagt fram, nema einn kafla sem varðar raforkuvinnsluna. Um þann kafla náðist ekki samkomulag. Aðalágreiningsefnið var það, að annars vegar voru þeir sem lögðu áherslu á að það væri aðeins eitt orkufyrirtæki sem hefði heimild til að virkja og reka virkjanir stærri en 5 mw., hins vegar voru þeir sem töldu að þetta ætti að vera frjálst fleirum og ekki að banna neinum aðila í landinu að virkja sem hefði vilja til þess og getu. Hins vegar var gert ráð fyrir að komið yrði upp sérstökum stjórnunaraðila orkufyrirtækjanna og Landsvirkjun hefði þar mest að segja.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, byggist á þessari skoðun. Í þessu frv. er um að ræða nýmæli sem varða rannsóknir á orkulindum landsins, eðli þeirra og skilyrðum til hagnýtingar þeirra, nýmæli í skipulagi orkuvinnslunnar og dreifingu orkunnar og nýmæli er varða hlutverk og skipulag Orkustofnunar og orkuráðs.

Það hefur verið hlutverk Orkustofnunar að annast þann þátt orkumálanna sem við kemur rannsóknum og skyldum viðfangsefnum. Verður að telja grundvallaratriði í framkvæmd orkumálanna, að þau verkefni, sem Orkustofnun er falið að sjá um, fari vel úr hendi. Hér er því mest um vert að Orkustofnun hafi sem best tök á að gegna sínu mikilvæga hlutverki. Þær tillögur, sem varða Orkustofnun, miða því í meginatriðum að því að 1) styrkja stjórn stofnunarinnar; 2) hnitmiða verksvið stofnunarinnar við rannsóknir á orkulindum landsins, áætlanagerð um orkubúskapinn og aðstoð og ráðgjöf um stefnumótun í orkumálum; 3) að efla áhrifavald stofnunarinnar og þátt hennar í heildarstjórn orkumálanna.

Með tilliti til þessa er lagt til í frv. þessu að Orkustofnun sé fengin þingkjörin stjórn á þann veg, að orkuráði sé ætlað það verkefni auk þess að hafa með höndum stjórn Orkusjóðs svo sem nú er gert ráð fyrir. Þá gerir frv. ráð fyrir, að sú starfsemi, sem nú heyrir undir Orkustofnun í einu eða öðru formi, en varðar ekki meginhlutverk stofnunarinnar, verði fengið öðrum aðilum í hendur. Hins vegar er Orkustofnun fengið í hendur veigamikið verkefni við gerð orkumálaáætlunar, sem lagt er til að lögð sé fyrir Alþingi og gegna á mikilvægu hlutverki við stefnumótun í orkumálum.

Tillögur frv., sem varða orkuvinnslu og orkudreifingu, hafa það meginmarkmið, að komið verði við sem mestri hagkvæmni í framkvæmdum og rekstri í orkubúskap þjóðarinnar. Tilgangurinn með því er að stuðla að sem bestri hagnýtingu orkulinda landsins svo að fullnægt verði orkuþörf með innlendum orkugjöfum og við sem lægstu og jöfnustu orkuverði um allt land. Varðar mestu að skipulag raforkuvinnslunnar sé miðað að þessum markmiðum.

Frv. gerir ráð fyrir að meginraforkuvinnslan verði á hendi eins fyrirtækis, þar sem er Landsvirkjun. Jafnframt er svo ráð fyrir gert, að sjálfstæð orkufyrirtæki í hinum einstöku landshlutum geti einnig annast orkuvinnslu eftir því sem efni standa til.

Heildarstjórn raforkuvinnslunnar er komið á fót í formi samvinnu sem fyrirtækjunum, er hafa á hendi orkuvinnslu, er gert að hafa. Samvinna þessi lýtur að skipulegri yfirstjórn er varðar byggingu orkuvera og samrekstur þeirra. Reglur um þetta efni mótast mjög af þeirri sérstöðu Landsvirkjunar að bera ægishjálm yfir öll orkuvinnslufyrirtæki landsins. Er og staða Landsvirkjunar mjög efld frá því sem verið hefur, eins og ég vék að áður, en það er með því að Landsvirkjun er ætlað að gegna aðalhlutverki í yfirstjórn raforkuvinnslunnar, svo sem fram kemur í þeim reglum sem í frv. þessu er að finna um: 1) skipan Samvirkjunarráðs, 2) eignaraðild að stofnlínum og 3) samrekstur orkuveranna.

Samkv. frv. er reiknað með að fyrirtæki sveitarfélaga eða sameignarfélög ríkisins og viðkomandi sveitarfélaga hafi á hendi raforkudreifingu og rekstur hitaveitna hvert í sínu umdæmi. Er þá gert ráð fyrir að þessi landshlutafyrirtæki geti einnig annast raforkuvinnslu.

Í frv. er ekki að finna ákvæði um skipulag eða form landshlutafyrirtæk ja né heldur um að þau skuli sett á fót. Leiðir það af eðli málsins. Þátttaka sveitarfélaga í landshlutafyrirtækjum þýðir að þau verða ekki stofnuð nema að vilja þeirra. Enn fremur hljóta viðkomandi sveitarfélög að hafa um það að segja hvernig fer um eignaraðild, hlutverk, stjórnun og almenna uppbyggingu hvers landshlutafyrirtækis. Slík fyrirtæki geta því orðið með mismunandi móti eftir aðstæðum og viðhorfum í hinum einstöku landshlutum. Þess vegna er ekki unnt að setja almenn ákvæði í lög sem kveða á um þessi efni. Það ber og að hafa í huga, að hvert landshlutafyrirtæki um sig hlýtur að vera stofnað með sérlögum.

Það er gert ráð fyrir í þessu frv. að Rafmagnsveitur ríkisins verði lagðar niður jafnóðum og aðstæður leyfa. Leiðir þetta af því, að rétt þykir, svo sem ég hef áður vikið að, að landshlutafyrirtæki hafi á hendi raforkudreifinguna. Verður þá ekki ástæða til að halda áfram rekstri Rafmagnsveitna ríkisins til orkuvinnslu þar sem önnur orkufyrirtæki með aðild ríkisins verði fær um slíkt. Með tilliti til þessa er ríkisstj. veitt heimild til að láta af hendi eignir Rafmagnsveitna ríkisins til annarra orkufyrirtækja í landinu með þeim skilmálum sem um semst. Framkvæmd þessa fer fyrst og fremst eftir því, hvort landshlutafyrirtækjum eða sveitarfélögum verði gert kleift að taka við eignum Rafmagnsveitna ríkisins í viðkomandi landshluta. Starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins getur hvergi orðið lögð niður nema þar sem tryggt er að fyrir hendi sé annar aðili fær um að halda uppi þeirri þjónustu sem um er að ræða. Þess vegna verður þetta fyrirtæki ekki lagt niður í einum áfanga, heldur smám saman eftir því sem aðstæður leyfa.

Í þessu frv. er ákvæði um ráðstöfun og afhendingu á þeim 132 kw. stofnlinum sem ríkið hefur látið byggja. Hér er átt við hina svonefndu Byggðalínu. Lagt er til að þessar stofnlinur verði í eigu Landsvirkjunar. Þá er og gert ráð fyrir að skilmálar um afhendingu þessara eigna verði við það miðaðir, að unnt sé að selja raforku frá stofnlínukerfinu samkv. einni gjaldskrá. Þetta er með tilliti 61 þess, að stefnt verði að því að koma á jöfnun orkuverðs um land allt.

Þó að uppistaða sumra kafla í þessu frv., sem hér er lagt fram, sé úr orkulögum, nr. 58 frá 29. apríl 1967, er þar um veigamiklar breytingar að ræða. Þannig er l. kafli frv., sem kveður á um stefnumótun, algert nýmæli. Veigamiklar breytingar eru og í II,,III. og IV kafla frv. sem fjalla um orkuráð og orkumálastjóra, Orkustofnun og Orkusjóð. Þá er um nýsmíði að ræða þar sem er V. kafli frv., sem kveður á um orkuveitur. Þó er þar ekki um veigamiklar efnisbreytingar að ræða, en í þessum kafla frv. eru samræmd og felld saman ákvæði um héraðsveitur og hitaveitur, sem er að finna í IV. og V. kafla gildandi laga. Í VI. kafla frv. er um að ræða nýmæli sem varða skipulag orkuvinnslunnar. Það eru þau nýmæli sem ég vék að í inngangsorðum mínum og greindi frá að ágreiningur hefði verið um í skipulagsnefnd orkumála sem vann upphaflega að gerð þessa frv. Þá er í VII. kafla frv. nýmæli um skipulag orkudreifingar. Almennu ákvæðin í VIII. kafla frv. eru aftur á móti hliðstæð og samsvarandi ákvæði í gildandi lögum.

Í þessu frv. er ekki að finna þá kafla í gildandi lögum sem fjalla um vinnslu jarðhita og verndun jarðhitasvæða, jarðhitavirkja og eftirlit með þeim. Samkv. frv. þessu er lagt til að orkulög, nr. 58 frá 29. apríl 1967, falli úr gildi, þó ekki III. og VII. kafli laganna sem um þessi efni fjalla. Það þykir betur fara á að hafa sérlög um þessi efni en ákvæði um þau í almennum orkulögum.

Í þessu frv. er ekki að finna ákvæði um Rafmagnsveitur ríkisins nema sem varða afhendingu á orkuverum og dreifikerfi fyrirtækisins. Með því að gert er ráð fyrir að starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins verði lögð niður, eftir því sem aðstæður leyfa, þykir ekki ástæða til að breyta gildandi lögum um það fyrirtæki. Samkv. frv. þessu heldur því IX. kafli orkulaga frá 1967, um Rafmagnsveitur ríkisins, gildi sínu.

Þá er í frv. þessu ekki heldur að finna ákvæði sem varða Jarðboranir ríkisins og samsvara VIII. kafla núgildandi orkulaga. Gert var ráð fyrir að Jarðboranir ríkisins yrðu teknar undir rekstrarstjórn Orkustofnunar, og samhliða þessu frv. hefur því verið flutt sérstakt frv. um Jarðboranir ríkisins sem felur í sér þær breytingar sem af þessu leiðir. Þykir betur fara á að hafa sérlög um Jarðboranir ríkisins en að kveða á um það fyrirtæki í atmennum orkulögum. Í síðustu viku mælti ég í þessari hv. deild fyrir frv. um Jarðboranir ríkisins og vil því ekki hér fjölyrða frekar um þetta mál.

Ég sagði í upphafi máls míns að ég mundi í þetta sinn leitast við að stytta nokkuð mál mitt með tilliti til þess, hvað mál þetta væri kunnugt hv. dm. En mér þykir rétt, áður en ég lýk máli mínu, að draga saman í nokkrum atriðum helstu nýmæli og breytingar sem í frv. felast:

1. Langtímaáætlun skal gerð um orkubúskap þjóðarinnar til 10 ára hið minnsta og skal leggja árlega fyrir Alþingi skýrslu um framvindu áætlunarinnar.

2. Eigendur raforkuvera skulu koma á fót samvirkjunarráði er fari með heildarstjórn raforkuvinnslunnar.

3. Gert er ráð fyrir að Landsvirkjun hafi á hendi orkuvinnslu þar sem landshlutafyrirtæki koma ekki til greina, en landshlutafyrirtæki geti hvert á sínu veitusvæði reist og rekið orkuver.

4. Heimilt verði að afhenda raforkuver og dreifikerfi Rafmagnsveitna ríkisins til annarra orkufyrirtækja.

5. Heimilt verði að fela Landsvirkjun eignarráð á þeim stofnlínum sem ríkið hefur þegar látið byggja, þ. e. Norðurlínu, Austurlinu og Vesturlínu.

6. Gjaldskrá fyrir raforkusölu verði hin sama á öllum útsölustöðum stofnlínukerfisins.

7. Orkuráð skal skipað sjö mönnum í stað fimm sem verið hafa og sjö varamönnum sem engir hafa verið.

8. Orkuráð skal hafa á hendi stjórn Orkustofnunar auk Orkusjóðs.

9. Jarðboranir ríkisins eru teknar undan rekstrarstjórn Orkustofnunar.

10. Orkustofnun er leyst undan því hlutverki að annast hagnýtar jarðfræðilegar kannanir, m. a. vegna neysluvatnsleitar.

11. Tækninefnd Orkustofnunar er lögð niður.

12. Orkustofnun er falið sérstaklega að vinna að orkusparnaði.

13. Orkustofnun er falið sérstaklega að uppfræða almenning um orkumál.

14. Orkusjóður verði efldur eftir því sem með þarf til að tryggja framkvæmd orkumálaáætlunar.

15. Orkusjóði er fengin almenn heimild til að veita orkuveitum lán til hitaveituframkvæmda.

16. Orkusjóði er heimilað að veita einstaklingum lán til hitaveituframkvæmda.

17. Orkuráð tekur ákvarðanir um lánveitingar úr Orkusjóði í stað tillögugerðar til ráðherra.

18. Rýmkaðar eru heimildir til að reisa raforkuver án leyfis stjórnvalda.

Ég hef hér talið upp meginbreytingar og nýmæli sem í frv. þessu felast. Ýmislegt fleira mætti til nefna er mætti heimfæra undir nýmæli og breytingar, en það er yfirleitt um minni háttar atriði og ég sé ekki ástæðu til að rekja það sérstaklega að þessu sinni.

Ég sagði áðan að frv. þetta væri endurflutt. Það var flutt á síðasta þingi og fékk allítarlega meðferð í hv. iðnn. Ed. Nm. voru undantekningarlaust mjög jákvæðir í afstöðunni til þessa frv., en að sjálfsögðu létu menn sér koma til hugar að sumu mætti breyta, án þess þó að fram kæmu ákveðnar tillögur um slíkt. Ég vil taka það skýrt fram, að þó að ég sé 1. flm. þessa frv. og hafi átt sæti í þeirri skipulagsnefnd orkumála sem vann það starf sem frv. er byggt á, þá finnst mér alveg sjálfsagt að athuga allt sem til bóta gæti leitt og breyta mætti í frv. En frv. fjallar um mál sem er ákaflega veigamikið og ákaflega þýðingarmikið og það eru ýmsir aðilar sem vilja tjá sig um málið. Það kom í ljós þegar á síðasta þingi. Þá bárust umsagnir frá Sambandi ísl. rafveitna, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Orkubúi Vestfjarða, Sambandi ísl. hitaveitna og Rafveitu Sauðárkróks, svo að það helsta sé nefnt. Allir þessir aðilar voru jákvæðir gagnvart frv., töldu feng að því, að það væri flutt, og bentu á ýmislegt sem væri til bóta frá gildandi lögum. Jafnframt voru sumir þessara aðila með hugmyndir um breytingar á tilteknum atriðum sem að mínu viti komu vel til greina, án þess að ég sé hér að kveða neitt upp úr um endanlega afstöðu mína til þeirra tillagna. En afstaða mín og ég má segja allra okkar flm. — og ég tel líka að ég megi segja hv. iðnn. — afstaða allra þessara aðila er sú, að hér sé um að ræða hið veigamesta mál sem þurfi að fá afgreiðslu eftir vandaða og óða meðferð.

Ég vil vænta þess, að okkur takist að afgreiða þetta mikla mál á þessu þingi. Í trausti þess leyfi ég mér, herra forseti, að gera það að till. minni, að frv. verði vísað til hv. iðnn. að lokinni þessari umr.