23.11.1981
Efri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er nokkuð umliðið frá því að við vorum að ræða það mál sem hér er til umr., og það hvarflaði að mér að falla frá orðinu, en ég hafði beðið um orðið. Þá minntist ég þess, að mér virðist hæstv. fjmrh. vera í slíkum hafvillum í því atriði, sem við vorum að ræða saman um, að mér finnst það ábyrgðarhluti að skiljast svo við hann að segja ekki nokkur orð.

Það var um 15. gr. frv. sem við hæstv. fjmrh. vorum að ræða, varðandi Húsnæðisstofnun ríkisins og Byggingarsjóð ríkisins. Í svarræðu sinni sagði hæstv. ráðh. að með lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins frá 1980 hafi verið numið úr lögum að tiltekinn hluti launaskatts skyldi ganga í Byggingarsjóð ríkisins og eitt sinn hefðu það verið 2%, en nú hefði það verið numið úr lögum. Þetta er misskilningur. Þetta hefur ekki gerst sem hæstv. ráðh. segir. Það hefur ekkert verið numið úr lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins varðandi þetta efni. Ef eru borin saman lögin um Húsnæðisstofnun frá 1970 og 1980 er ákvæðið um launaskattinn til Byggingarsjóðs ríkisins nákvæmlega eins í þeim lögum. En 2% af launaskattinum, sem áttu að ganga í Byggingarsjóð, eru samkv. lögunum um launaskatt. Það er rétt. (Gripið fram í.) Það er skýringin á því að þetta ákvæði er hér í frv. Það er vegna þess að engu hefur verið breytt. Það er verið að breyta því á þessu ári með frv. sem við erum hér að ræða. Það hefur engu verið breytt. Lögin um Húsnæðisstofnun eru eins að þessu leyti, lögin um launaskatt eru eins að þessu leyti. Þetta vildi ég að kæmi hér skýrt fram.

Þá er það annað sem hæstv. ráðh. sagði. Hann sagði, að það, sem hefði gerst væri það, að í staðinn fyrir 2% gjald til Húsnæðisstofnunar, sem mundi verða 222 millj. kr., væri hér um að ræða annars vegar fast framlag í krónutölu samkv. fjárlagafrv., 57 millj. kr., og hins vegar fast framlag til Byggingarsjóðs verkamanna, 111 millj. kr. Þegar þetta tvennt er lagt saman koma út 168 millj. kr. í staðinn fyrir þær 222 millj. kr. sem 2% hefðu gefið. Þetta sagði ráðh. Þetta er rétt svo langt sem það nær. En ályktunin og samanburðurinn eru ekki rétt. Það er ekki rétt að segja annars vegar, að í ár séu það 168 millj., en það hefði átt að vera 222. (Fjmrh.: Af þessum tekjustofnum.) Já, af þessum tekjustofnum, tekjustofnum frá ríkinu. (Gripið fram í.) Já, en ef samanburð ætti að gera þarna á þyrfti að koma til viðbótar við 222 millj. svokölluð byggingarsjóðsgjöld, 1% álag á tekju- og eignarskatt og 1/2% á aðflutningsgjöld samkv. tollskrá. Ég spurði hæstv. ráðh. hvað þessi gjöld hefðu numið miklu ef reiknað væri með þeim núna. Hann gaf mér ekki svar við því, en það er augljóst að þetta þarf að koma inn í dæmið líka. Enn fremur þarf að hafa í huga það beina ríkisframlag sem var í lögum frá 1970, fyrir utan launaskattinn og fyrir utan álagið á tekju- og eignarskatt og álagið á aðflutningsgjöld. Hér er því um miklu meiri mismun að ræða en kemur fram í þessum samanburði hæstv. ráðh. Þetta vildi ég leiðrétta líka.

Í þriðja lagi hjó ég eftir því hjá hæstv. ráðh., að hann sagði, — og viðurkennir náttúrlega staðreyndir — að það hafi verið minnkað framlag til Byggingarsjóðs. En hæstv. ráðh. sagði að framlag til Byggingarsjóðs ríkisins hafi auðvitað verið nokkuð skert með hliðsjón af því að nú eru öll lán Byggingarsjóðsins verðtryggð og það fjármagn, sem hann lánaði út, skilaði sér til baka og þá væru auðvitað viss takmörk fyrir því, hvað eðlilegt væri að leggja mikið til sjóðsins af skattfé ríkisins. Þetta segir ráðh.: að vegna þess að búið er að verðtryggja lán sjóðsins þurfi hann á minni beinum framlögum að halda frá ríkinu, hann sé traustar upp byggður eftir þá breytingu. Þetta er líka mikill misskilningur. Það liggur í því, að um leið og sjóðurinn er sviptur beinu framlagi sem nemur 2% af launaskattinum, þá hefur hann ekki önnur úrræði en að taka lán til starfseminnar hjá lífeyrissjóðunum. Á því er náttúrlega geysilegur munur, hvort sjóðurinn tekur lán eða fær óafturkræft framlag. Þarf ekki að ræða um það. En það er ekki nóg með að munurinn sé í því, heldur eru þessi lán þannig, sem Byggingarsjóður ríkisins tekur, að þau eru til 15 ára með 3.5% vöxtum, en honum er gert að lána þetta fé til 25 ára með 2% vöxtum. Þetta er nýja skipanin. Það er því alveg greinilegt hvert stefnir fyrir Byggingarsjóði ríkisins með þessu áframhaldi. Þess vegna er það ekki rétt ályktun sem hæstv. ráðh. dregur þegar hann segir að nú sé ekki ástæða til beinna framlaga úr ríkissjóði vegna þess að verðtryggingu hafi verið komið á.

Þessum þremur atriðum vildi ég aðeins víkja að. Ég hafði kannske ástæðu til að víkja að fleiri atriðum, en ég ætla ekki að gera það. Ég tel að í öllum þessum atriðum hafi komið fram viss misskilningur hjá hæstv. ráðh. Ég vildi gjarnan fá tækifæri til að leiðrétta hann því að ég veit að hæstv. ráðh. vill jafnan hafa það sem sannara reynist.