23.11.1981
Efri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það eru örfá orð.

Ég held að það sé enginn ágreiningur milli okkar hv. 4. þm. Vestf., Þorv. Garðars Kristjánssonar, og mín um efni laga sem varða tekjur Byggingarsjóðs ríkisins. Ég held að allt hafi verið hárrétt sem kom hér fram hjá honum áðan, ég hef þar engar leiðréttingar að gera. Hins vegar má vel vera að annaðhvort hafi hann misskilið orð mín í umr. um daginn eða þau hafi verið haldin einhverri þeirri ónákvæmni sem gáfu tilefni til misskilnings.

Það er staðreynd, sem hann lýsti áðan, að framlögin í Byggingarsjóð hafa verið skorin niður með þeim hætti sem hann lýsti. Ástæðan fyrir þessu er að sjálfsögðu sú, að verulegur halli var á ríkissjóði á löngu tímabili og þessi niðurskurður er ein af mörgum aðgerðum sem beitt hefur verið til að rétta þann halla af. Ég hygg að sá niðurskurður, sem átt hefur sér stað á framlögum til fjárfestingarsjóða og til Byggingarsjóðs ríkisins, sé langstærsta átakið sem gert hefur verið til að rétta af þennan halla og það þýðingarmesta. Sem betur fer hefur verið nokkuð þokkaleg samstaða um það milli allra stjórnmálaflokka að skera þessi framlög niður með tilliti til breyttra viðhorfa eftir að verðtrygging hefur verið tekin upp á útlánum þessara sjóða almennt.

Það er svo laukrétt hjá hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, að einn hængurinn á hjá Byggingarsjóði ríkisins er að hann lánar út með heldur lægri vöxtum en nemur vöxtum af lánum, sem hann tekur. Þetta er galli og þetta verður að leiðrétta. Ég er alveg sammála honum um að þetta getur ekki gengið til lengdar eða er a. m. k. mjög óþægilegt að þetta gangi til lengdar. Þó er rétt að hafa í huga að það er ekki um stórar upphæðir að ræða þarna. Ég var að giska á það mjög lauslega, hvað þessi vaxtamismunur kynni að vera stór hluti af ríkisframlaginu, þ. e. hve stór hluti af ríkisframlaginu gengi til að jafna þennan vaxtamun. Á einu ári er þetta ekki nema lítið brot af ríkisframlaginu. En ef þetta ástand varir mjög lengi, ég tala nú ekki um ef það varir marga áratugi, getur þarna orðið um talsverða skekkju að ræða. Er mjög erfitt að hugsa sér að það ástand standi lengi.

Við hv. þm. Lárus Jónsson hef ég ekki margt að ræða eftir það sem á undan er gengið. Ég hef fáu við það að bæta sem ég sagði seinast. Við erum greinilega sammála um það sem varðar verðlagsspána. Það er alveg rétt, að við settum fram ákveðna verðlagsspá í fyrra, sem átti að heita að verðlag mundi breytast um 42% milli áranna 1980 og 1981. En í þetta sinn höfum við kosið að tala um reiknitölu fjárlaga og viðurkenna hreinskilnislega að sjálf verðlagsspáin sé á sama tíma nokkuð óvissari og við séum þarna með reiknitöluna bersýnilega í lægri kantinum miðað við hugsanlega verðbólguþróun. Það, sem ég sagði, var hins vegar ósköp einfaldlega það, að lengst af settu menn fram einfalda reiknitölu. Þegar ég fer að fletta fjárlagafrv. sé ég ekki að bein verðlagsspá hafi verið í greinargerðum fjárlagafrv. fyrr en í fyrra. Þó að við höfum nú fallið frá því vegna óvissu í efnahags- og kjaramálum, m. a. vegna kjarasamninga, sem ekki hafa enn verið gerðir nema að litlu leyti, vegna óvissu um ákvörðun fiskverðs og vegna margrar annarrar óvissu, er það ekki annað en það sem lengst af hefur verið og verður að vera við ríkjandi aðstæður þangað til við höfum fastara land undir fótum hvað verðlagsþróun snertir á þessu landi.