19.10.1981
Efri deild: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

4. mál, orkulög

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Svo sem hv. 1. flm. þessa frv. tók fram var fjallað um fram komið frv. sem flutt var á liðnu þingi. Iðnn. Ed. hélt allnokkra fundi um frv. á liðnum vetri. Það er rétt, að nm. hv. iðnn. voru á einu máli um ýmsa þætti þessa frv.

Eins og hv. flm. tók fram er þetta frv. í samræmi við álit skipulagsnefndar orkumála sem þáv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen skipaði í jan. 1977 og skilaði áliti til hæstv. iðnrh. sem síðar varð, Hjörleifs Guttormssonar, í okt. 1978. Þó er það þannig, að örfáar breytingar hafa verið gerðar á frv. frá því nefndin skilaði af sér, þó að ég ætli ekki að fara út í þær. Hins vegar, eins og vikið hefur verið að, varð ágreiningur um orkuvinnslukaflann.

Eins og fram hefur komið og hv. þm. er vafalaust kunnugt um gerðu tillögur meiri hl. þeirrar nefndar, sem ég hef getið um, ráð fyrir að það væri einn aðili í þessu landi sem sæi um virkjunarmál að meginhluta, sæi um öflun orkunnar og sæi jafnframt um háspennta orkudreifingu. samkv. tillögum minni hl., og þær tillögur eru einmitt í þessu frv. sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson hefur nú mætt fyrir, er raunar gert ráð fyrir að það geti verið um að ræða fjölmarga aðila sem annist orkuöflun og háspennta orkudreifingu.

Ég hef ekki hugsað mér að fara langt út í þessa umræðu á þessu stigi. Hún er nokkuð kunn meðal þm. Þetta frv. var, eins og margoft hefur verið sagt, flutt á liðnu þingi og öll sú umfjöllun er vafalaust í fersku minni þm. Ég geri fastlega ráð fyrir að við munum nú, ekki síður en á liðnum vetri, taka þetta til vandaðrar umfjöllunar. Það er nú svo, að það er nauðsynlegt að setja ný orkulög og það þurfum við að gera, um það eru allir sammála. Hins vegar vitum við að það hefur staðið styrr og er raunar enn um það, með hvaða hætti skipulag orkuöflunarinnar og dreifingar jafnframt muni verða. Þessi mál hafa verið í deiglunni, ef ég má svo að orði komast, nokkur undanfarin ár, og ég hygg að þau séu það enn. Ég lít svo á, að meðan menn geta ekki komið sér saman um skipulag orkuöflunar og orkudreifingar sé ekki tilhlýðilegt að flýta sér of hratt í setningu heildarorkulaga. Svo mikilvæga tel ég persónulega þennan kafla sem fjallað er um.

Um orkumálin er það að segja, að þau eru ein af meginundirstöðum í þjóðarbúskap okkar. Það er ekki sæmandi annað en hv. Alþingi komist þarna að niðurstöðu og allir þeir aðilar sem málið varðar.

Ég geri ráð fyrir að meðhöndlun þessa máls verði ekki með ólíkum hætti og á liðnum vetri.

Hv. flm. gat um að frv. hefði verið sent til umsagnar fjölda aðila. Það er rétt. Umsagnir voru af ýmsum toga. Flestar voru þær jákvæðar. Hins vegar var gripið á ýmsu sem mönnum þótti betur mega fara og athuga þyrfti nánar varðandi þetta frv.

En að lokum þetta: Orkubúskapur okkar hlýtur alltaf að verða til endurskoðunar í raun og sannleika. Við verðum að setja ákveðnar reglur, ákveðna grunnpunkta sem við ættum okkur að fara eftir. En viðhorf til þessara mála geta breyst á mjög skömmum tíma. Og ég segi aftur: Þessir hlutir, sem og fjölmargir aðrir, hljóta alltaf að verða til endurskoðunar. Við þurfum e. t. v. árlega, í lengsta lagi á örfárra ára fresti, að meta stöðu okkar, gagnvart þessum málum upp á nýtt. Sem formaður iðnn. á liðnu ári átti ég þátt í þessari umfjöllun. Ég veit ekki hvernig fer með það á þessu þingi, en sæti á ég í iðnn. og ég mun leggja mitt lóð á vogarskálina til að frv. fái ítarlega umfjöllun.