23.11.1981
Neðri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

107. mál, almannatryggingar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með síðasta ræðumanni, hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, að það er tímabært að líta á þetta kerfi og sjálfsagt að skoða það í þeirri nefnd sem við eigum báðir sæti í og þetta frv. fer til. Ég er alveg sammála þessu. En ég er ekki jafnsammála þeim mönnum, sem hér hafa talað, um að daggjaldakerfið sé gengið sér til húðar, og reyndar er gert ráð fyrir því hér, að það haldist áfram gagnvart vissum stofnunum. Ef það væri almenn skoðun þeirra sem í rn. eru, að það væri gengið sér til húðar, þá væru að sjálfsögðu líka gerðar till. um breytingu á því.

Ég hef áður haft orð á því hér á hv. Alþingi, að megingallinn er auðvitað sá, að daggjaldanefnd hefur aldrei fengið þá aðstöðu eða starfsgrundvöll sem hún þarf að hafa. Það er mannfæð þar, menn eru í raun að leggja mikið starf að mörkum á hlaupum í þeirri nefnd. Nú síðast fyrir aðeins rúmri klst. var ég t. d. að tala við heilbrmrn. og benda starfsmönnum þar á, að nú, þegar á að fara að ákveða daggjöld sem gilda frá og með 1. des., mun það sama verða uppi á teningnum og áður, að það er eitt líkan til þar sem farið er eftir — eitt reiknilíkan. Það er reiknilíkan sem er miðað við spítalana, við sjúkrahúsin. Hins vegar hafa t. d. hjúkrunarheimilin og hjúkrunardeildirnar, sem eru í sambandi við Dvalarheimili aldraðra og Elliheimilið, fallið undir þetta líkan, sem hefur haft það í för með sér, að þróun síðustu ára er ekki tekin til greina, sú þróun að hækka laun þeirra sem lægra launaðir eru — en af því starfsfólki er einmitt miklu meira á hjúkrunarheimilunum en á spítölunum að tiltölu. Þetta hefur valdið mikilli röskun á hlutfalli milli þessara stofnana. Nú má t. d. búast við að meðaltalshækkun á hjúkrunarheimilum aldraðra geti orðið einhvers staðar í kringum 10–11%, en ég geri ráð fyrir að hækkun verði ekki miklu meiri en 4–5% vegna síðustu kjarasamninga hjá spítölunum, sjúkrahúsunum. Þetta er auðvitað mál sem þarf að athuga, en ég efast hreinlega um að daggjaldanefnd vinnist tími til að vinna þetta fyrir þennan tíma eða hafi aðstöðu til að láta vinna það.

Það er auðvitað alveg rétt sem kom fram hjá hv. 5. þm. Suðurl., að auðvitað á ríkið að skila sínu og standa við sitt. Hann ætti manna best að vera kunnugur því hversu fáránlega getur farið þegar viðkomandi heilbr.- og trmrh. eru allir af vilja gerðir til þess að mæta þeim vanda sem þeir vita um og sjá fyrir sér, ef svo fjmrh. er þeim ekki hliðhollur og notar kannske gamla fólkið óbeint, t. d. sjúkt gamalt fólk, til þess að snúa upp á handlegginn á viðkomandi heilbrmrh. En guði sé lof að það á sér ekki stað í núv. ríkisstj. vegna þess að þeir eru sammála þar um, bæði heilbrmrh. og fjmrh., að standa við þær skuldbindingar, sem þeir eiga að standa við, og hafa gert það með prýði og það skal koma fram hér. Hins vegar verður ekki það sama sagt um þá ríkisstj. sem hv. 5. þm. Suðurl. átti sæti í.