23.11.1981
Neðri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

107. mál, almannatryggingar

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég get lýst stuðningi við þetta frv. í aðalatriðum, en ég vil þó benda á það hér við þessa 1. umr., að hér er um mjög yfirgripsmikið mál að ræða og raunar einn af fyrirferðarmestu útgjaldaþáttum í okkar heilbrigðiskerfi. Það, sem mér finnst vera mjög brýnt í sambandi við rekstur sjúkrahúsanna í landinu, eru samræmingaratriði. Eftir að hafa hlustað á skýrslur þeirra aðila, sem gera grein fyrir rekstri ríkisspítala og annarra spítala hér á landi, finnst mér eiginlega ekki hægt að horfa lengur fram hjá þeirri staðreynd, að það er löngu orðið tímabært að taka þessi mál til rækilegrar athugunar. Mér finnst liggja alveg í hlutarins eðli að það verður að samræma sem mest rekstur allra spítala í landinu.

Það hafa verið gerðar mjög ítarlegar tilraunir, og vandaðar tilraunir vil ég meina, til að ná valdi á rekstri ríkisspítalanna. Ég tel að stjórnarnefnd ríkisspítalanna hafi unnið mjög mikið verk á því sviði. En það kemur greinilega fram þegar rætt er við þessa aðila, að þeir rekast á viss vandamál í sambandi við rekstur sjúkrahúsanna sem þeir ráða bókstaflega ekki við. Þarna eru vissulega alvarleg mál á ferðinni. Þetta hefur verið kallað smákóngakerfi og það hefur verið kallað ýmsum öðrum nöfnum, þetta atriði, en árekstrarnir hafa verið staðreynd. Það hefur ekki verið hægt að koma við þeirri hagræðingu, þeim sparnaði í rekstri sem nútímarekstur á sjúkrahúsum hlýtur að kalla á og ætti að vera hægt að koma við í nútímaþjóðfélagi. Það hefur bókstaflega ekki verið hægt að koma þessu á í mörgum tilfellum. Þess vegna vil ég í sambandi við þessa breytingu — sem er sjálfsagt nauðsynleg því að daggjaldakerfið er löngu óviðunandi, það er viðurkennt — benda á það, að ég tel mjög mikilvægt í meðferð þessa máls að stjórnvöld átti sig á því, að hér þarf að taka virkilega til hendi við að samræma rekstur spítalanna og taka skipulagsatriði sjúkrahúsanna í heild til gaumgæfilegrar athugunar í því skyni að ná fram þeirri hagræðingu sem nútímatækni ætti að gera mögulega.

Þetta vil ég benda á vegna þess að þetta er mjög þýðingarmikið og um leið fyrirferðarmikið í rekstri ríkisins.