23.11.1981
Neðri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

108. mál, vátryggingastarfsemi

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, að það er um þessar mundir verðstöðvun í landinu og einkareksturinn og raunar framleiðsluatvinnuvegirnir líka verða að láta sér nægja minna en kannske æskilegt væri til þess að geta haldið rekstrinum gangandi. Ég held að það sé alveg óþolandi að á sama tíma og þannig er gengið á eignir einkafyrirtækja í landinu að þau safna skuldum, á sama tíma og ríkisstj. hefur þá stefnu að hraðfrystihúsin og sjávarútvegurinn eigi að taka hallærislán erlendis til þess að geta haldið fólkinu í vinnu séu hæstv. ráðherrar að leggja fram frv. hér á Alþingi um aukna skattheimtu til að halda uppi einstökum ríkisfyrirtækjum. Auðvitað vitum við að sú aukna skattheimta, sem hér er gert ráð fyrir, lendir á vátryggjendum sjálfum, lendir á fólkinu í landinu.

Hæstv. félmrh. talaði um það áðan, að það væri fyrst og fremst verðbólgan sem ylli því, að tekjur Tryggingaeftirlitsins væru ekki nógar. Nú hélt ég að það hefði komið fram í stefnuræðu hæstv. forsrh., að verðbólgan yrði að velli lögð á næsta ári eða hér um bil það, svo að ég sé ekki annað en að forsendurnar séu fullkomlega brostnar fyrir því að þetta sé nauðsynlegt.

Hæstv. ríkisstj. getur ekki sagt í öðru orðinu að verðbólgan sé horfin, verðbólgan sé komin niður í 40% og muni lækka enn meira á næsta ári, fari kannske í 20% eða þar um bil, og lagt svo fram frv. um aukna skattheimtu af því að verðbólgan sé kannske 55 eða 60%.

Ég held að ég verði að biðja þá nefnd, sem tekur þetta frv. til meðferðar, að fara mjög vel ofan í þessi mál og hafa í huga þá almennu stefnu sem ríkisstj. hefur varðandi skrifstofustörf og hversu þau störf eru metin t. d. hjá Verðtagseftirlitinu. Það mætti þá kannske leggja sama mælikvarða á fjárþörf Tryggingaeftirlitsins og Verðlagseftirlitið leggur t. d. á fjárþörf dreifbýlisverslunarinnar, svo að dæmi sé tekið, án þess að notaður sé sami mælikvarði á fjárþörf Tryggingaeftirlitsins og verðlagsráð og ríkisstj. leggur á fjárþörf t. d. vátryggingarfélaganna.

Ég held að það sé algjörlega útilokað, að hæstv. ráðh. geti gengið hér inn í Alþingi eins og ekkert sé og fleygt inn hverju skattafrv. á fætur öðru. Það er þó framför hjá þessum hæstv. ráðh., að hann talaði kannske hálfa mínútu um málið. Hann hefur lengri ræður uppi þegar hann heldur að hann sé að tala fyrir vinsælum málum. Þá vantar ekki orðaflauminn. Þá er hlaupið út og suður til þess að reyna að sýna til skiptis öldruðu fólki, örorkulífeyrisþegum eða einhverjum öðrum hvað hann sé innilega góður og ágætur, vel hugsandi, fallegur.

Það væri líka nauðsynlegt að fá miklu, miklu gleggri og betri grg. en hæstv. ráðh. hefur hér lagt fram fyrir nauðsyn þess að hækka gjaldið. Hvar hefur umframkostnaðurinn legið, í hverju liggur hann, hvernig stendur á því að áætlunin er allt of lág frá ári til árs? Það er ekki langt síðan ég heyrði hæstv. fjmrh. hrósa sér af því í sjónvarpsþætti, að hann styddist við miklu betri tækni en t. d. forveri hans, hv. 1. þm. Reykn., og því væru fjárlögin nú í meira samræmi við raunveruleikann. Þess vegna tel ég alveg víst að Tryggingaeftirlitið hafi verið rétt af á s. l. ári. En hvers vegna fer það þá aftur svona mikið umfram fjárlög, 35%, 38%? Hvers vegna hækkar þetta svona? Ég held að það verði að taka þessu frv. með miklum fyrirvara og það sé nauðsynlegt að veita hæstv. ríkisstj. aðhald — ekki síst hæstv. félmrh. og flokksbræðrum hans — í mannaráðningum, því að það kemur varla fyrir að hann tali svo fyrir nýju frv., að hann tali ekki um nauðsyn þess að ráða nýja menn til starfa. Áðan var hann að prédika að það ætti að ráða fleiri menn í Tryggingastofnun ríkisins. Nú er það Tryggingaeftirlitið. Hvað verður næst? Á sama tíma standa þjóðartekjurnar nokkurn veginn í stað eða fara minnkandi. Skattheimtan er orðin verulega meiri miðað við þjóðartekjur en hún var þegar þessi hæstv. ráðh. settist í stólinn. Á sama tíma og launþegar láta sér nægja 3.2% kauphækkun, í sömu viku og gengið er fellt um 6%, á sama tíma og hæstv. sjútvrh. boðar að gengið skuli fellt af og til á næstu mánuðum á enn að auka skattheimtuna í landinu.

Ég held að þessir menn verði að fara kunna sér hóf, þeir verði að finna einhvern sparnað annars staðar í ríkisrekstrinum og hlaupa þá undir bagga í bili, til þess að hægt sé að ná endum saman. Það þarf nefnilega fleira að bera sig í landinu en bara ríkisfyrirtækin og það sem er í ríkisgeiranum. Fólkið og fyrirtækin og allir aðrir verða líka að fá að lifa.