23.11.1981
Neðri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

46. mál, land í þjóðareign

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Í mörg ár fluttu þm. Alþfl. till. til þál. hér á Alþingi um eignarráð á landi. Till. þessar gengu misjafnlega langt. Sumar þeirra gengu það langt að lýsa skyldi þjóðareign land allt utan lögbýlisjarða, enn fremur fallvötn öll og veiðirétt í landinu. Í öll þau skipti, sem þessi þingmál Alþfl. voru hér til umr. á hv. Alþingi, mætti ég gegn þessum hugmyndum og þarf ekki að fara mörgum orðum um þær nú. Ég vísa aðeins til þessa í inngangsorðum hér til þess að rifja það upp, að ég hef verið andvígur þessum hugmyndum og ekki talið að rétt væri að stefna í þá átt sem þar var lagt til.

Eins og fram hefur komið er í því frv., sem hér liggur fyrir til umr., gengið skemmra en lagt var til að gert yrði í þáltill. Alþfl. á fyrri þingum. Hér er í frv.-formi gert ráð fyrir að þau landssvæði skuli teljast þjóðareign sem eignarheimildir einstaklinga eða annarra lögaðila finnast ekki fyrir. Þetta er í rauninni meginmál frv. og aðalstefna. Enn fremur er það meginmál, sem styður þessa stefnu, að fram skuli fara af hálfu opinberra aðila eða af hálfu fjmrn. könnun á eignarheimildum á landi þannig að úr fáist skorið, hvort eignarheimildir séu fyrir landi á þessum eða hinum stað, og muni þá ganga til úrskurðar um hvað sé þjóðareign og hvort skýrar eignarheimildir finnist fyrir til annarra aðila.

Ég er þeirrar skoðunar, að lítil þörf sé á að ráðast í þetta verk. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé í fyrsta lagi óumdeilt, að mikill hluti af óbyggðum landsins sé í skýlausri eign lögaðila, en ég er einnig þeirrar skoðunar, að þar sem ekki finnast skýlausar eignarheimildir fyrir sé ekki bein þörf á að leggja í aukinn kostnað til að fá úr því skorið, að lögmætir pappírar séu ekki fyrir hendi, og eins hitt, að það sé engin þörf á að setja lög um að þetta sé þjóðareign.

Ég tel að þegar þessu er sleppt, sem ég tel vera megintilgang þessa frv., þá komi að framkvæmdaatriðum. Og að framkvæmdaatriðum er vikið einnig í frv. sjálfu.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að fjmrn. annist framkvæmd laga þessara og hafi umsjón og eftirlit með eignum og réttindum þeim bundnum í eigu þjóðarinnar samkv. þessum lögum. Þar með er því slegið föstu að fjmrn. skuli fara með umráð landsréttinda sem eru í eigu ríkisins. Ég er þessu andvígur og tel heppilegra að landbrn. fari með yfirumsjón þessara landsréttinda. Ef frv. af þessu tagi væri samþykkt og horfið að því, að fjmrn. hefði umsjón þeirra landsréttinda sem hér er um að ræða, þá þyrfti að setja þar upp nýja deild, væntanlega með ærnum kostnaði. Landbrn. fer með ýmis mál af þessu tagi. Það hefur yfirumsjón með verulegum fjölda jarðeigna og not af landinu eru í það ríkum mæli bundin landbúnaðarframleiðslu og landbúnaði að það væri til þess eins að flækja mál og gera þau erfiðari viðfangs að færa yfirumsjón þessara mála úr höndum landbrn. til fjmrn.

Það á ekki að vera neinum vandkvæðum bundið og ekki fara eftir rn. hvort unnt sé að hafa til reiðu skrá yfir lönd og fasteignir í eigu ríkisins og um leið skrá yfir notkun þeirra. Þessi skrá yfir lönd ríkisins, sem eru í umsjá landbrn., hefur verið unnin öðru hverju hefur verið í sérstakri vinnslu nú á undanförnum vikum og mun liggja fyrir Alþingi alveg á næstunni. Það er engin ástæða til að ætla að það sé neitt auðveldara fyrir fjmrn. að vinna slíka skrá eða ástæða til að ætla að fjmrn. sé eitthvað betur í stakk búið en landbrn. til þess að gera þá skrá þannig úr garði að hún sé ítarleg og traustvekjandi. Það kemur alveg út á eitt og engin ástæða til að færa yfirumsjón þessara mála á milli rn. þess vegna.

Í 3. og 4. gr. þessa frv. er vikið í nokkrum atriðum að því, hvernig eigi að fara með þau landssvæði sem hér er fjallað um. Í fyrsta lagi segir í 3. gr., að óheimilt sé að leigja einstaklingum eða lögaðilum landssvæði, landsréttindi eða hlunnindi, sem talin eru í 1. gr., þannig að réttur almennings til umferðar og afnota glatist eða verði háður gjaldtöku. Þetta lagaákvæði er mjög vafasamt að mínum dómi. Við getum hugsað okkur t. a. m. hlunnindaeign sem fylgja mundi ýmsum slíkum landssvæðum sem hér er um að tefla. Þar með væri óheimilt að leigja þau hlunnindi einstökum lögaðilum eða einstaklingum sem hefðu þau til sinna nota og þá um leið í sinni vörslu. Ef það ætti að gilda um hlunnindaeign sem hér er lagt til, þá væri hverjum Íslendingi heimilt að ganga í þau hlunnindi. Ég þekki það mikið til meðferðar á hlunnindum, að ég veit að sú ráðstöfun eða það fyrirkomulag væri ekki heppilegt, því að hætt er við að hlunnindaeign mundi fljótt ganga úr sér með þeim hætti. Það er nefnilega svo, að þar sem er um landsréttindi eða hlunnindaeign að ræða, sem unnt er að nýta með hagkvæmni, er nauðsynlegt að einhver aðili sjái um meðferð hennar til þess að hún verði ekki ofnotuð. Ef slík verðmæti eru öllum opin er voðinn vís.

Í þessum frvgr. er einnig lagt til að settar verði reglur sem kveði á um ítölu og varnir gegn ofbeit og rányrkju, um gróðurvernd og aðra náttúruvernd, um veiðiskap, umgengnisrétt almennings og annað það sem lýtur að afnotum lands og landsgæða í þjóðareign. Um þetta er sumt gott að segja, annað vafasamt. Það eru í landinu sérstök lög um meðferð afréttarmála, það eru í landinu sérstök lög um ítölu og varnir gegn gróðureyðingu, varnir gegn ofbeit, og ef þau lög eru ekki fullnægjandi væri réttara að bæta þau en að setja einhver sérlög og sérreglur um þau lönd sem ríkið eignast eða á.

Ef hér er t. a. m. átt við hluta af afréttum landsins, sem kynnu að vera sumar hverjar þannig að skýlausar eignarheimildir fyndust ekki fyrir, þá er það svo að afréttir hafa það hagnýta gildi að vera notaðar til beitar fyrir búsmala landsmanna, búfé bænda. Ef ætti að hindra að slík beitarafnot stæðust áfram mundi það í fyrsta lagi þrengja að möguleikum í búskap sem því næmi. Í öðru lagi er því mjög haldið á lofti af lögfræðingum á seinni árum, að þrátt fyrir að ekki séu alltaf skýrar heimildir fyrir eign eða skýrar eignarheimildir einstaklinga eða sveitarfélaga á einhverjum afréttarlöndum, þá sé því í flestum tilvikum þann veg háttað að þessir sömu aðilar hafi öðlast rétt til þess að nýta landið til beitar, nýta þau verðmæti sem þar eru, sveitarfélög og upprekstrarfélög hafi fyrir löngu unnið sér rétt til þess fyrir hefð ef skýlausar eignarheimildir liggja ekki til grundvallar. Það er því mjög vafasamt að hugsa sér að setja í lög einhverjar reglur sem marka meðferð ríkislandsins með sérstökum hætti umfram það sem gerist með annað land sem er notað af sveitarfélögum eða upprekstrarfélögum.

Hitt er svo annað mál, sem hér kemur fram, að auðvitað þurfum við að tryggja umgengnisrétt almennings um landið. Við þurfum að tryggja það, að almenningur í landinu eigi rétt á að njóta návista við íslenska náttúru, a. m. k. á tilteknum svæðum, og þau svæði mega ekki verða of þröng. Ég get búist við að það þurfi að gæta þess betur en gert hefur verið hingað til að opna tiltekin svæði til útivistar fyrir almenning í landinu, einkum þéttbýlisfólk, sem er að minni hyggju þannig statt að það þarf þess beinlínis og á rétt á því að geta ferðast um landið og dvalið á landinu og notið samvista við náttúru þess í nægilega ríkum mæli. En það er allt önnur saga en að setja sérstakar þröngar skorður fyrir not einhvers hluta landsins, þess hluta sem eftir þessu frv. kynni að verða úrskurðað í eigu ríkisins.

Ég sé ekki ástæðu til að flytja um þetta mál langa ræðu. Ég hef rætt um mál af þessu tagi hér á Alþingi á undanförnum árum og skoðanir mínar um þau liggja fyrir. Ég tel að íslensk löggjöf- og raunar stjórnarskráin feli í sér nægilega sterk ákvæði til að tryggja rétt almennings, ef það er talið brýnt til almenningsheilla, hvað sem eignarheimildum líður og jafnvel þó að engar heimildir liggi fyrir. Stjórnarskráin gerir ráð fyrir að unnt sé að taka land eignarnámi, enda komi þá fullar bætur fyrir, en það sé ekki gert nema nauðsyn krefji. Þess vegna hefur íslensk löggjöf gert ráð fyrir því í marga áratugi, að hið opinbera geti gripið inn í ef þeir, sem ráða meðferð landsins, annaðhvort með skýrum eignarheimildum eða fyrir áunninn rétt, tregðast við að láta landið til almenningsnota þegar þjóðarnauðsyn krefur. Þennan rétt, sem íslensk lög ákveða, á auðvitað að nota ef aðrar forsendur bresta, aðrar leiðir lokast. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að gripa til þessa réttar. Þess vegna er ekki mikil þörf á því að leggja nú í aukinn kostnað við að senda út heilan her lögfræðinga til að kanna eignarheimildir og leita síðan úrskurðar á þeirra greinargerð. Ég hygg að það sé hægt að verja þeim fjármunum betur en hér er lagt til.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Ég tel frv. þarflaust og get þess vegna lýst þeirri skoðun minni, að það megi daga uppi hér á Alþingi eins og önnur mál Alþfl. sem um svipað efni hafa fjallað á fyrri þingum.