23.11.1981
Neðri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

46. mál, land í þjóðareign

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það fer margt versnandi og ein sú plága hefur löngum verið á undanförnum þingum, að menn ættu von á frv. frá Alþfl. um landbúnaðarmál og land í þjóðareign. Nú er búið að búta þetta niður. í mörg mál þannig að þetta veldur að sjálfsögðu mun meiri óþægindum í þingstörfum en gert hefur til þessa.

Hitt kemur einnig dálítið skoplega út, þegar maður heyrir í Ríkisútvarpinu að bændurnir, þ. e. hv. 2. þm. Suðurl. og hv. 1. þm. Norðurl. v., hafi staðið hér upp og talað gegn þessu frv. Ég veit ekki hvað kemur til að fréttamaður felur að slík meðferð á efni í Ríkisútvarpinu bæti hag þess frv. sem hér er til umr. En því stend ég hér upp til að ræða þetta mál, að þetta mun sennilega vera eitthvert dýrasta frv. sem flutt hefur verið á þinginu í vetur. Hæstv. dómsmrh. hefur að vísu lagt til fjölgun í Hæstarétti, en mér sýnist að það þurfi að margfalda þá tölu, þó ekki sé meira sagt, eigi að koma því í verk sem hér er lagt til og að dómar verði gengnir árið 1995. Sú stefna virðist vera upp tekin að það skuli skattleggja Íslendinga til þess að arga á þá lögfræðingum, og fjmrn. á að sjá um framkvæmd alla. Ekki veit ég hvort þeir, sem hafa samið þetta frv., hafa hugleitt hvílík hringavitleysa það er sem þeir hafa sett hér á blað. En trúlega finnst þeim þetta harla gott og una vel við sinn hlut.

Ég vil byrja á að geta þess, að að sjálfsögðu verður landið og landbúnaður aldrei aðskilin tvö mál. Það eru ekki liðin 100 ár síðan menn sultu til bana í þessu landi í stórum stíl, og menn ættu sannarlega að gleðjast yfir því, að svo er komið högum þessarar þjóðar að hungurvofunni hefur verið bægt frá. En í hugmyndum Alþfl. virðist hitt vera orðið slíkt algert aðalatriði, að veiðiréttur manna, orlofsbúðir og útivistarsvæði virðist það eina sem máli skiptir í notkun lands á Íslandi.

Það má vel vera að sumir trúi því, að fjmrn. verði ávallt vel stjórnað. Ég man þá daga að hér sat skammtímastjórn yfir landinu. Menn sátu þar við að útbúa hagstæðar tölur í kringum jól og aðferðin var einföld. Þeir skrifuðu tékkana út, bókuðu þá greidda; geymdu þá í umslögum fram yfir áramót og sendu þá síðan í pósti. Og staðan varð fádæmagóð smátíma. — Nei, ég er ekki trúaður á það að fjmrn. íslenska verði ávallt neitt sérstaklega betur stjórnað en öðrum rn. Svo hefur ekki verið til þessa.

Það segir einnig allmikið um viðhorf manna til lýðræðis og þess þjóðskipulags, sem við búum við, hvort menn eru hlynntir dreifingu valds eða hvort menn eru hlynntir samþjöppun valds. Að mínu viti liggur það alveg ljóst fyrir, að þeim mun meir sem við þjöppum valdinu saman, þeim mun meir skerðum við rétt einstaklingsins. Og 3. gr. frv. er kannske sú alskoplegasta sem hér er sett á blað. Ég vil gera hana að alveg sérstöku umræðuefni í ljósi þess, hve hugsunin kemur skoplega út hjá þeim Alþfl.-mönnum. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta: „Óheimilt er að leigja einstaklingum eða lögaðilum landssvæði, landréttindi eða hlunnindi sem talin eru í 1. gr., þannig að réttur almennings til umferðar og afnota glatist eða verði háður gjaldtöku.“ — Svo kemur undantekningin. Samkv. þessum lögum væri ekkert sem bannaði það að leigja þremur mönnum allt það land sem ríkinu væri ætlað að eiga. Þeir þyrftu aðeins að gefa út yfirlýsingu um það að þeir mundu skipuleggja það sem orlofs- og útivistarsvæði. Og það væri ekki erfitt verk að framkvæma það. Þeir gætu ekki verið í vandræðum með að fullnægja eftirspurninni hefðu þeir allt það land undir höndum. En það er ekkert sem tryggir almenningi rétt í þessum lögum ef þau eru skoðuð í grunninn.

Hv. 2. þm. Suðurl. gat þess réttilega í nmr. um þetta mál, að hann teldi eðlilegra að sýslufélög og sveitarfélög hvert á sínum stað hefðu umsjón með og sæju um afnot þess landssvæðis sem litið hefur verið á sem almenninga á hinum ýmsu stöðum. Tvímælalaust tel ég að landið sé betur komið í vörslu þeirra en lögfræðinga fjmrn.

Ég geri ráð fyrir að þetta mál fari til nefndar. Mér þótti afstaða núv. hæstv. landbrh. varðandi framhaldsmeðferð á málinu ákaflega skynsamleg til að spara óþarfa útgjöld af hálfu Alþingis.