23.11.1981
Neðri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

46. mál, land í þjóðareign

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Mikið liggur við þegar bestu vitmenn Framsfl. leggjast svona allir á eina sveif. Sumir halda því fram, að frv. sé óþarft, aðrir, að hér sé um ákafa atlögu að landeigendum að ræða, og þeir þriðju, sem dýpst skyggnast í málið, telja að hvort tveggja sé. Hvernig koma menn því heim og saman, að málefni, sem sé með öllu óþarft, geti á sama tíma verið mjög harkaleg atlaga að einhverjum tilteknum hópi landsmanna. Við skulum láta það liggja á milli hluta. Menn verða að sjálfsögðu að gera það upp við sig, hvernig sé hægt að koma slíkum röksemdum heim og saman, einkum og sér í lagi ef það er sami maðurinn sem leggur báðar röksemdirnar fram sem skoðun sína á málinu.

Ég vildi aðeins víkja í nokkrum orðum, herra forseti, að þeim athugasemdum sem fram hafa komið við frv. Vil ég þá fyrst leyfa mér að þakka þeim mönnum sem til máls hafa tekið um frv., ekki síst þeim Alþb.mönnum, hv. 4. þm. Vesturl., Skúla Alexanderssyni, og hæstv. iðnrh., en báðir þessir hv. þm. lýstu yfir stuðningi við málið eins og það er fram sett.

Það er rétt hjá hv. 4. þm. Vesturl., Skúla Alexanderssyni, að með frv. þessu gerðum við þm. Alþfl. tilraun til að kanna hvort ekki næðist samkomulag á Alþingi eða a. m. k. aukinn stuðningur við þau atriði í málflutningi okkar Alþfl.-manna um þjóðareign á landinu sem mestur almennur stuðningur virðist vera við úti í þjóðfélaginu. Það er líka rétt hjá hv. þm. Skúla Alexanderssyni, að flokksbræður hans hafa áður lýst skoðunum sem af mátti draga þá ályktun, að þeir gætu orðið sammála því meginefni sem í frv. felst, eins og orðið hefur. Ég vil færa honum og flokki hans þakkir fyrir það. Einnig lýsi ég ánægju minni yfir þeim upplýsingum hæstv. iðnrh., að nú væri í undirbúningi á vegum rn. hans frv. um virkjunarrétt, þar sem almannaeign á virkjunarrétti væri stórlega aukin frá því sem nú er.

Leyfi ég mér aðeins að benda þeim mönnum, sem mest hafa talað gegn þessu frv., og þá fyrst og fremst þm. Framsfl., á þetta. Niðurstaðan er að verða sú, hvort sem þeim líkar betur eða verr, að ástandið í landréttindamálum, sem hefur m. a. orðið til þess að tefja framkvæmdir við þjóðþrifafyrirtæki eins og virkjanir, það getur ekki gengið lengur. Menn geta ekki lengur við unað eins og málin standa og menn geta ekki lengur við að unað, að þjóðnauðsynlegar framkvæmdir séu stöðvaðar árum saman á grundvelli sem raunverulega engum er ljóst hvort hefur nokkra stoð í lögum. Í hinu sérstaka deilumáli um Blönduvirkjun veit raunar enginn hvar mörkin eru milli almannaeignar annars vegar og einkaeignar hins vegar. Hvaða rétt hefur ríkisvaldið og allur almenningur í landinu sem vill framkvæma þessa virkjun, — hvaða réttindi hefur hann til þess? Og hvaða rétt hafa þeir aðilar, sem við almannavaldið deila, þessir tilteknu bændur í nágrenni hv. þm. Páls Péturssonar? Þetta liggur ekki ljóst fyrir. Menn vita ekki á hverju deiluaðilar geta staðið. Hversu langt nær einkaréttur einstaklinganna í þessu tilviki? Hversu langt nær almannarétturinn? Og hvar eru mörkin á milli þessa tvenns?

Jafnvel í hæstv. ríkisstj. hafa menn komist að þeirri niðurstöðu, að þessi óvissa geti ekki gengið svona miklu lengur. Þess vegna ræðir hæstv. ríkisstj. um að setja lög sem tryggi almenningi í landinu þann virkjunarrétt sem hann virðist ekki hafa í dag. Þeir þm. Framsfl., sem tala gegn þessu máli, verða að gera sér ljóst nú þegar, að þeir eru að berjast þar baráttu sem er töpuð. Það er aðeins tímaspursmál hvenær þeir verða að sætta sig við þá niðurstöðu sem um málið hlýtur að fást. Það verður ekki þolað af 220 þús. einstaklingum með þessari þjóð að 10 þús. einstaklingar standi með þessum hætti gegn almannaheill. Og þá er spurningin þessi fyrir þá sem eru andstæðingar þess, að slíkt mál náist fram: Hvort vilja þeir heldur gerast aðilar að skynsamlegri lausn á meðan áhrif þeirra t. d. hér í Alþingi eru þau sem þau eru nú, eða vilja þeir heldur bíða, m. a. eftir að þær breytingar verði gerðar á skipan Alþingis að áhrif þessara aðila verði miklu minni á Alþingi Íslendinga en þau eru nú? Ég held að menn ættu að horfa í fullri alvöru á þessa stöðu Vilja þeir menn, sem þarna eiga hagsmuna að gæta, láta Alþingi, eins og það er nú skipað, reyna að leysa þessi mál þannig að ljóst verði um alla framtíð hvar mörk eignarréttar einstaklinga og almannaeignarréttarins eru? Hvort vilja þeir heldur reyna að leysa þessi miklu vandamál núna eða standa ávallt gegn öllum tilraunum til slíkrar lausnar og taka síðan áhættuna af því, að eftir e. t. v. 8 eða 10 ár verði þessi mál leyst af því löggjafarþingi sem þá situr, eins og það þá verður skipað, án þess að þeir menn, sem hingað til hafa komið í veg fyrir afgreiðslu á slíkum málum, geti þar lengur nokkru um ráðið?

Hv. þm. Stefán Valgeirsson hefur í ræðu hér á Alþingi, bent einmitt á þessa hættu og þennan vanda. Ég hélt því að sá þm. yrði sjálfum sér samkvæmur og gerði sér ljóst að hann og skoðanabræður hans eru að berjast baráttu sem er töpuð. Spurningin fyrir þá er fyrst og fremst þessi: Vilja þeir með einhverjum hætti gerast núna aðilar að samkomulagslausn, sem endanlega leysir þessar þrætur um hver mörk einkaeignarréttarins og almannaeignarréttarins eigi að vera, eða ætla þeir með afstöðu sinni til þessara mála alfarið að afsala sér áhrifum á þá niðurstöðu? Sérhver sæmilega greindur maður hlýtur að gera sér ljóst að þess verður ekki langt að bíða, að einhver slík löggjöf verði sett, þegar almenningur er látinn reka sig á það hvað eftir annað, ár eftir ár; að þegar hann þarf á náttúrugæðum Íslands að halda risi upp fámennur hópur bænda, sem banni slík afnot eða krefjist slíkrar greiðslu fyrir slík afnot, að nái ekki nokkurri átt, og verðleggi jafnvel náttúruauðlindir sem þjóðin á, en þeir telja sína eign, á við olíuauðlindir í Arabalöndum.

Þessu vildi ég aðeins varpa fram mönnum til vinsamlegrar íhugunar. Telji þeir ekki betra, á meðan Alþingi er skipað eins og það er nú skipað, að þm. m. a. dreifbýlisins, eigi aðild að því að finna varanlega lausn á þessu máli, m. a. til þess að þeir, sem eiga hagsmuna að gæta, bændur og aðrir landeigendur, viti fyrir víst í framtíðinni hver þeirra réttur sé, en þurfi ekki að eiga það undir löggjafarvaldi, sem e. t. v. yrði með öðrum hætti skipað 10 árum eftir þennan dag en nú á sér stað.

Hv. þm. Steinþór Gestsson sagði í ræðu sinni — það er raunar smáatriði, engu að síður vildi ég gjarnan víkja að því — að ekki væri rétt frá skýrt í grg. hvernig Alþfl. hefði staðið að flutningi þeirra mála sem hér um ræðir allt frá árinu 1970, þegar fyrsta þáltill. um eignarráð yfir landi var lögð fram á þingi. Eins og greinilega kemur fram í fylgiskjölum með frv. eru ekki rakin öll þau ár sem þm. Alþfl. fluttu þessi mál hér á hinu háa Alþingi, heldur aðeins greint frá þeim árum þegar þeir gerðu með einhverjum hætti breytingar á málsmeðferð. Þannig er aðeins greint frá tillöguflutningi árið 1970. Síðan var viðkomandi till. endurflutt á Alþingi 1971. Um það er ekki getið í fskj., heldur næst tekið til við að lýsa þáltill. eins og hún var flutt breytt á árinu 1972. Síðan er ekki gerð grein fyrir endurflutningi þeirrar till., heldur aðeins rætt um þegar þeirri tillögugerð er síðan breytt af þingflokki Alþfl. árið 1974. Þetta kemur mjög greinilega fram að er tilgangurinn með fskj., ekki að láta þess getið í hvert skipti sem málið er flutt á Alþingi, heldur aðeins að skýra frá því, hvaða þingmál hafa verið lögð fram af þm. Alþfl. þessum málaflokki tengd á liðnum árum.

Hv. þm. Steinþór Gestsson sagði einnig að þessum málatilbúnaði hefði verið hafnað af Alþingi. Það er ekki rétt. Engu hefur verið hafnað af Alþingi. Málin hafa aldrei komist til afgreiðslu. Hins vegar er mér og öllum öðrum, sem að þessum málum standa, fyllilega ljóst að a. m. k. til þessa hefur ekki verið þingmeirihluti fyrir afgreiðslu málanna á Alþingi. Ef sá þingmeirihluti hefði verið, þá hefði málið að sjálfsögðu verið afgreitt.

Meginatriðið í frv. er þó, eins og komið hefur fram hér hjá mörgum mönnum bæði hv.þm. Steinþóri Gestssyni og öðrum, 1. gr. og 5. gr. Sumir andmælendur frv. hafa sagt að þessar greinar væru óþarfar. Aðrir andmælendur frv. hafa sagt að þessar greinar væru hættulegar þar sem þar væri gert ráð fyrir að taka ýmislegt af einstaklingum og lögaðilum sem þeir hafa í dag. Einn þeirra, sem hélt þessu fram, var t. d. hv. skrifari þessarar deildar, Ólafur Þ. Þórðarson.

Nú er hér um rangt mál að ræða hjá báðum aðilum. Í fyrsta lagi er hér ekki lagt til að taka neitt af neinum. Þeir, sem annað fullyrða, hafa einfaldlega ekki lesið frv. Í öðru lagi eru ákvæði 1. og 5. gr. síður en svo óþörf. Ég vil taka fram að þetta frv. er samið í samráði við fjölmarga lögfræðinga, bæði kennara við lagadeild Háskóla Íslands og enn fremur lögfræðinga sem sjá um eignaumsýslu fyrir ríkið. Sameiginleg niðurstaða allra þessar manna er sú, að það sé nauðsynlegt að setja löggjöf eins og þessa, m. a. vegna dóma sem fallið hafa nú nýverið og ég sagði frá í upphafsorðum mínum með frv., þar sem menn hafa deilt um eignarhald á tilteknum landssvæðum, en úrskurður fallið á þann veg, að hvorugur deiluaðilinn gæti gert tilkall til formlegs eignarréttar yfir landssvæðinu. Það er alger misskilningur, segja þessir lögfræðingar, að þar með teljist viðkomandi landssvæði sjálfkrafa vera þjóðareign. Til þess þarf Alþingi að setja lög. Með öðrum hætti getur landssvæði af því tagi ekki talist vera eign þjóðarinnar. Þá verður enn deilt um hver geti talist eiga hin ýmsu fasteignaréttindi sem slíkum landssvæðum eru bundin, og enginn getur þrátt fyrir slíka dóma eins og hér um ræðir dregið þá ályktun nema lög séu sett, að fyrst hvorugur deiluaðili telst eiga viðkomandi landssvæði, þá hljóti ríkið að eiga það. Þetta er sameiginlegt álit allra þeirra lögfræðinga sem ég hef rætt við um þetta frv. Og ég veit að það er álit þeirra lögfræðinga sem m. a. eru ráðunautar ríkisstj. um þau efni, að úrskurður dómstóla um botn Mývatns, um Nýjabæjarafrétt og um málið á Hellisheiði krefjist þess, að sett verði lög sem ákveði hver skuli teljast eiga land, landgæði og hlunnindi sem niðurstöður dómstóla eru um á þá leið, að þeir, sem búa í næsta nágrenni og deila um eignarréttinn, teljast ekki vera eigendur að.

Menn geta að sjálfsögðu í staðinn fyrir að setja eina almenna rammalöggjöf um þessi efni lagt fram fjöldamörg frv. á Alþingi um hvað eina, lagt t. d. fram sérstakt frv. um að önnur fasteignaréttindi á Nýjabæjarafrétti en beitarréttindi skuli teljast eign ríkisins eða þjóðarheildarinnar, annað frv. um að botn Mývatns skuli teljast eign íslenska ríkisins, þriðja frv. um að önnur fasteignaréttindi á Hellisheiði en beitarréttur skuli teljast eign íslenska ríkisins o. s. frv. Menn geta leikið sér að slíkum frv.-flutningi í tuga- og hundraðatali um einstök landssvæði og landgæði. En það er miklu skynsamara að takast á við þessi vandamál í einni lagasmíð, eins og lagt er til að gert verði hér. Og ég ítreka það enn og aftur, að engin af þessum landssvæðum, sem vafi leikur á hver skuli teljast eigandi af og raunar má segja enginn eigandi finnst að, engin af þessum landsréttindum teljast sjálfkrafa eign íslenska ríkisins nema lög séu sett þar að lútandi.

Ég held, herra forseti, að menn ættu að gera sér það að venju, þegar þeir ræða um mál eins og þetta, að afla sér upplýsinga um hvert sé álit lögfræðinga um slíkar niðurstöður eins og ég hér lýsi, áður en menn koma upp í ræðustól á Alþingi og fullyrða af brjóstviti sínu að tiltekið mál sé óþarft. Mér er nær að halda að lögfræðilegir ráðunautar hæstv. ríkisstj. — og þeir fleiri en einn og fleiri en tveir — hafi vakið athygli einstakra ráðh. í núv. ríkisstj. á því, að ekki verði hjá því komist að setja lög eins og frv. þetta leggur til að sett verði, í kjölfar þeirrar dómstólaniðurstöðu sem fallið hefur á síðari árum og ég hef gert að umræðuefni hér.

Þá leyfi ég mér að benda á að það hefur gerst — (Forseti: Fundartíminn er liðinn hv. ræðumaður. Vill hv. þingmaður fresta ræðu sinni eða kýs hann að ljúka henni á örskammri stundu?) Ég kýs heldur að fresta henni, ég á ekki langt eftir svona 5 til 6 mín. (Forseti: Við því verður orðið.) — [Frh.]