24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

328. mál, gjaldtaka tannlækna

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á Alþingi 1979 lagði ég fram fsp. svipaðs eðlis til þáv. heilbr.- og trmrh. Sveitarfélögin höfðu þá eins og raunar enn vaxandi áhyggjur af miklum kostnaði við þessa þjónustu, og enn fremur var ljóst að eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins var nánast ekki neitt. Hjá Reykjavíkurborg voru opinberar upplýsingar um tannlæknaþjónustu svimandi háar tölur, eins og raunar kom fram hér við umr. í hv. deild í síðustu viku. Í svari þáv. heilbrmrh., Magnúsar H. Magnússonar, komu fram ýmsar upplýsingar úr samningum við Tannlæknafélag Íslands, en þeir samningar eru frá 19. apríl 1975. Í svari ráðh. komu fram eftirfarandi upplýsingar, sem ég vil lesa hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Gildandi greiðslukvittun“ — þ. e. eitt þeirra gagna sem um er að ræða í sambandi við eftirlit — „veitir alls ekki að mati Tryggingastofnunar ríkisins nægar upplýsingar um þær tannaðgerðir sem framkvæmdar hafa verið og greitt fyrir. Þá er gerð tannkorta með ýmsu móti og torveldar það mjög eftirlit. Þau gögn, sem tryggingatannlæknir hefur á milli handa við eftirlitið, eru að mati Tryggingastofnunar hvergi nærri nógu nákvæm. Telja verður að með 5. gr. samningsins hafi ekki fengist tæknilegur grundvöllur fyrir nægjanlega virku eftirliti með gjaldtöku tannlækna. Hefur því tryggingayfirlæknir lagt fram tillögur sem miða að nákvæmara og fljótvirkara eftirliti. Við gerð þeirra verður stuðst við skipulag þessara mála á Norðurlöndum þar sem afskipti ríkis af tannlæknaþjónustu hafa staðið um langt árabil.

Tillögur þessar fjalla um breytt skipulag á taxta Tannlæknafélagsins, hönnun staðlaðrar sjúkraskrár fyrir tryggða sjúklinga og nýja greiðslukvittun, þar sem tannaðgerðir eru tilgreindar og kostnaðarupphæð þeirra sundurliðuð. Tillögur þessar hafa verið kynntar stjórn Tannlæknafélags Íslands og munu teknar til umræðu í samstarfsnefnd Tryggingastofnunar ríkisins og Tannlæknafélags Íslands. Það er von Tryggingastofnunarinnar, að samkomulag geti tekist um tillögur tryggingatannlæknis svo að ekki þurfi að koma til uppsagnar samningsins.“

Þar sem ljóst er að ekki hefur verið gengið frá slíkum samningi, eða a. m. k. liggur það ekki opinberlega fyrir, þá hef ég leyft mér að bera fram á þskj. 41 svohljóðandi fsp. til heilbr.- og trmrh.:

1. Hefur nýr samningur verið gerður milli Tryggingastofnunar ríkisins og Tannlæknafélags Íslands síðan 1979 varðandi breytt skipulag á taxta, hönnun staðlaðrar sjúkraskrár fyrir tryggða sjúklinga og nýja greiðslukvittun þar sem tannviðgerðir eru tilgreindar og kostnaðarupphæð er sundurliðuð eins og tryggingatannlæknir lagði til 1979?

2. Hversu umfangsmikil voru afskipti og eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins 1980 af gjaldtöku tannlækna og tannréttingalækna, miðað við þær greiðslur er ríkið, sjúkrasamlög og sveitarfélög greiddu til þeirra samkv. lögum? Hversu há fjárhæð var greidd árið 1979 og 1980 vegna tannlækninga tryggðra?“

Ég vænti þess að hæstv. trmrh. svari þessum fsp.