24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

328. mál, gjaldtaka tannlækna

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Eins og vitnað var til var gerð tilraun til þess án uppsagnar samninga við tannlækna að fá þá til að samþykkja breytingar á greiðslukvittunum og fleiru, en þetta kom fram í tilvitnun í fyrrv. heilbr.- og trmrh., Magnús H. Magnússon, í máli hv. fyrirspyrjanda áðan.

Það var ljóst á árinu 1980, að samningar mundu ekki nást eins og sakir stóðu. Þess vegna var tekin ákvörðun um að segja samningnum upp. Þessum samningi var sagt upp 30. sept. 1980, en hann var frá 19. apríl 1975. Honum var sagt upp þar sem ekki náðist samkomulag við þáv. stjórn Tannlæknafélagsins um tillögur tryggingatannlæknis um breytt skipulag taxta Tannlæknafélagsins, hönnun staðlaðrar sjúkraskrár og nýja greiðslukvittun. Á fundi samninganefndar Tryggingastofnunarinnar og Tannlæknafélagsins var síðan samþykkt að tannlæknar störfuðu áfram samkv. uppsögðum samningi á meðan viðræður færu fram um nýjan samning. Lögð hefur verið fram af hálfu samninganefndar Tryggingastofnunarinnar tillaga um tölvutæka greiðslukvittun sem skal upplýsa fyrir hvers konar tannlæknaþjónustu greitt er og hvernig það fjármagn dreifist sem varið er til tannlækninga. Þá er tilbúin tillaga frá samninganefnd Tryggingastofnunarinnar um að formi til endurbætta gjaldskrá fyrir Tannlæknafélag Íslands. Í drögum að gjaldskránni eru læknisaðgerðir afmarkaðar eftir föngum og tölusettar sem gjaldmiðill svo að tilvísun til gjaldskrár við gerð sjúkraskrár og útgáfu greiðslukvittunar verði ótvíræð. Samninganefnd Tryggingastofnunarinnar er þeirrar skoðunar, að samþykkt greiðslukvittunar og gjaldskrár muni sjálfkrafa leiða til hönnunar staðlaðrar sjúkraskrár sem Tannlæknafélag Íslands og tannlæknadeild Háskóla Íslands ættu stóran hlut að engu síður en endanlegri uppstokkun gjaldskrárinnar.

Þetta var varðandi fyrra atriði fsp. Nýr samningur hefur sem sagt ekki verið gerður, en að honum hefur verið unnið.

Síðara atriði fsp. er tvíþætt. Í fyrsta lagi er spurt: Hversu umfangsmikil voru afskipti og eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins 1980 af gjaldtöku tannlækna og tannréttingalækna miðað við þær greiðslur er ríkið, sjúkrasamlög og sveitarfélög greiddu til þeirra samkv. lögum?

Tryggingastofnunin svarar þessari fsp. þannig, að þar sem nýr samningur hafi ekki enn verið gerður milli Tryggingastofnunarinnar og Tannlæknafélagsins byggist eftirlit með gjaldtöku tannlækna enn á ákvæðum 5. gr. hins uppsagða samnings, sem að mati Tryggingastofnunarinnar eru hvergi nógu nákvæm til að halda uppi virku eftirliti. Sinnt var kvörtunum sem Tryggingastofnuninni bárust vegna meintrar ótækrar gjaldtöku, en skipulagt eftirlit með gjaldtöku tannlækna var ekki haft af framangreindum ástæðum, með skírskotun til þeirra galla sem eru á 5. gr. hins gamla samnings.

Þá spyr hv. fyrirspyrjandi: Hversu há fjárhæð var greidd árin 1979 og 1980 vegna tannlækninga tryggðra? Sú fjárhæð, sem Tryggingastofnunin greiddi árið 1979, nam 25.4 millj. kr. og árið 1980 53.6 millj. kr. vegna tannlækninga tryggðra.

Þá er spurt hér um þá sem starfa við heilsugæslustöðvar, a. m. k. kom það fram í þessu máli. Því er til að svara, að engir tannlæknar hafa enn verið skipaðir við heilsugæslustöðvar. Ástæðan til þess, að við sögðum samningunum upp á sínum tíma, var sú, að ekki þótti líklegt að eftir öðrum leiðum væri unnt að knýja fram samninga við Tannlæknafélagið í þessum efnum.

Ítarleg umræða fór fram um þessi mál hér fyrir nokkrum dögum. Þá lét ég í ljós skoðanir mínar á þessum málefnum og tel ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þau hér. Ég hef reynt að svara fsp. hv. þm. eftir því sem föng eru á.